Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.
Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins.
Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun foreldrafélags og nemendafélags við skóla.
Skólastjóri hefur forgöngu um, og ber ábyrgð á, að skólareglur séu settar og þeim fylgt.
Skólastjóri gerir tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla með tilliti til þarfa viðkomandi skóla. Skólastjóri ákveður verksvið annarra stjórnenda skólans og skal einn þeirra vera staðgengill skólastjóra.
Skólastjórnendum ber að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal taka sérstaklega mið af aldri og þroska nemenda.
Skólastjórnendum ber að upplýsa foreldra ef ítrekað er fundið að hegðun eða framkomu nemanda í öllu starfi á vegum skóla.
Skólastjórnendum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra.