Samsetning hópa skiptir miklu máli við undirbúning hópastarfs en eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt hver markhópurinn er. Hópleiðarar leitast við að velja saman einstaklinga með sambærilegar þarfir og áhugamál. Hugmyndafræði og vinnuaðferðir eru mismunandi þegar kemur að samsetningu hópa og skiptir máli hvort vinna á með hópa þar sem þátttakendur eru með sameiginleg áhugamál eða hvort um er að ræða sértækt hópastarf.
Það eru margar leiðir sem hægt er að fara til að undirbúa og hefja hópastarf en áður en þátttakendur hittast fyrst er nauðsynlegt að ákveðinn undirbúningur eigi sér stað (Gladding, 1999). Hér á eftir er fjallað um fimm mikilvæg skref við myndun hópa:
Það er alltaf einhver hugmynd eða rök á bak við tilveru allra hópa. Því meira sem hugað hefur verið að myndun og samsetningu hópsins því meiri líkur eru á því að hugmyndin fái jákvæð viðbrögð og að útkoman úr starfinu verði jákvæð. Skýr rökstuðningur og markmiðssetning er mikilvægasti hlutinn af undirbúningnum. Þeir leiðbeinendur sem eru ekki vissir um hvers vegna þeir eru að fara af stað með hópastarf munu í besta falli vera með hópastarf sem engu skilar og í versta falli starf sem gerir illt verra fyrir þátttakendur (Gladding, 1999).
Þetta skref tengist mjög rökunum og markmiðum með hópastarfinu og hvers konar hóp á að fara að vinna með. Sumir hópleiðarar segjast ekki vinna eftir ákveðinni hugmyndafræði og vilja meina að þeir láti það bara ráðast eftir hópnum hvernig vinnan þróast. Það er samt hugmyndafræði í sjálfu sér sem felur það í sér að leiðbeinandinn lætur hópinn stýra vinnunni. Öll hugmyndafræði hefur sína kosti og sínar takmarkanir. Vanir hópleiðarar geta valið aðferðir sem þeir telja henta hópnum út frá ákveðinni reynslu en hafa verður í huga að í öllu hópastarfi er verið að vinna með einstaklinginn, hans upplifun og samskiptin við og í hópnum. Það þarf að vinna með alla þessa þætti á ólíkan og fjölbreyttan hátt. Stundum hefur því, hvernig þátttakendur virka í hóp, verið skipt upp í „ég, við og það“ þar sem „ég“ stendur fyrir einstaklinginn og áhersluna á hann, skoðanir hans, afstöðu og tilfinningar. „Við“ stendur fyrir samskiptunum á milli þátttakenda og „það“ stendur fyrir málefni, verkefni og það sem skiptir hópinn máli. Hópleiðarar sem vilja leggja áherslu á að vinna með samskipti (við) velur þá hugmyndafræði og vinnuaðferðir sem styðja við þá vinnu á meðan sá sem vill leggja áherslu á einstaklinginn (ég) velur aðrar leiðir. Í hópastarfi í félagsmiðstöðvum er yfirleitt verið að vinna út frá því fyrrnefnda (við) en ef unnið er út frá því síðarnefnda (ég) eru oft aðrir aðilar s.s. námsráðgjafar, félagsráðgjafar og sálfræðingar þegar farnir að vinna með einstaklinginn. Burtséð frá því hvaða nálgun verður fyrir valinu verður hópleiðari að hafa í huga að hver hópur hefur margar hliðar og að hópastarf er áskorun og flókið af því að hópar eru í eðli sínu flóknir (Gladding, 1999).
Hægt er að fara mismunandi leiðir við kynningu á hópastarfinu. Kynna þarf starfið fyrir samstarfsaðilum, foreldrum og væntanlegum þátttakendum. Þegar um er að ræða sértækt hópastarf er mikilvægt að kynna starfið vel fyrir þeim samstarfsaðilum sem munu vísa einstaklingum í hópana og þá er fagleg kynning mjög mikilvæg. Það hvernig starfið er kynnt foreldrum og þátttakendum hefur bæði áhrif á það hvernig væntanlegir þátttakendur skynja starfið, hverjir munu hafa áhuga á þátttöku og hvert viðhorf foreldra verður. Munnleg kynning getur verið mjög persónuleg en það getur takmarkað mjög þann fjölda sem næst til og það sama á við ef leiðbeinandi talar sérstaklega við hugsanlega þátttakendur. Skrifleg kynning nær til stærri markhóps en hún verður að gefa nægilega skýr skilaboð fyrir hvern hópastarfið er hugsað til þess að ekki taki of langan tíma að finna út hvaða einstaklingur passar í hópinn og hver ekki (Gladding, 1999). Ef um er að ræða sjálfsprottna áhugahópa er yfirleitt ekki þörf á slíkri kynningu af hendi leiðbeinenda, þar sem áhugi þátttakenda er nægileg forsenda fyrir þátttöku. Ef þátttakendur vantar í slíka hópa getur leiðbeinandi til dæmis hengt upp auglýsingu í félagsmiðstöðinni eða auglýst eftir þátttakendum á vefmiðlum.
Mikilvægt er að vanda val þátttakenda í hópinn og finna þá þátttakendur sem hópastarfið hentar fyrir. Ef um er að ræða áhugahópa veljast þátttakendur frekar sjálfkrafa inn í hópinn nema þegar einstaklingar eru tengdir inn í slíka hópa með ákveðin markmið í huga, t.d. í þeim tilgangi að efla félagsleg tengsl. Hægt er að nota einstaklingsviðtöl til þess að finna út hvort einstaklingur á heima í hópnum og um leið er hægt að útskýra út á hvað hópastarfið gengur. Það að þátttakendur viti hvað þeir eru að fara út í og að búið sé að undirbúa þá eins og hægt er getur haft góð áhrif, flýtt fyrir hópþróunarferlinu, minnkað líkur á brottfalli og ýtt undir jákvæða niðurstöðu í starfinu. Þessi undirbúningur eða forþjálfun getur líka farið fram í stærri hóp en eins og gefur að skilja þá er ekki hægt að einblína eins mikið á einstaklinginn heldur frekar á þau málefni og verkefni sem hópurinn mun taka fyrir. Slík forþjálfun er ekki nauðsynleg en því betur sem þátttakendur og hópleiðarar eru undirbúnir undir starfið því betra og þetta getur verið hluti af þeim undirbúningi. Val í hópa er yfirleitt ferli sem nær í báðar áttir, þ.e.a.s. bæði hópleiðari og hugsanlegir þátttakendur leggja sitt af mörkum og hafa áhrif á ferlið. Markmið beggja aðila er að finna út hversu vel starfið hentar viðkomandi aðila.
Þegar verið er að mynda hópa og/eða taka þátttakendur í viðtöl er mikilvægt að:
· Bera kennsl á þarfir, væntingar og vilja til þátttöku. Af þessum þáttum er viljinn talin mikilvægastur.
· Leiðrétta allan misskilning. Það er mjög mikilvægt að hugsanlegir þátttakendur hafi skýrar og réttar
upplýsingar um hópastarfið.
· Koma öllum nauðsynlegum upplýsingum til skila. Hægt að ræða hvaða reglur gilda um trúnað og
annað það sem leiðbeinandi telur mikilvægt.
· Velja þátttakendurna. Bjóða því fólki þátttöku sem líklegt er að græði mest á henni. (Gladding,1999)
Undirbúningur er mjög mikilvægur þegar hópastarf er annars vegar. Fórnarkostnaður vegna lélegs undirbúnings getur verið hár og getur m.a. falið í sér að hátt hlutfall þátttakenda dettur út úr starfinu, þátttakendur mæta seint og illa á fundi, þeir sýna áhugaleysi, lítill stuðningur foreldra er við starfið, samstaða verður lítil í hópnum og litlar líkur eru á að sett markmið náist (Malekoff, 1997).
Umræðurnar í hópnum ásamt samskiptum og samskiptamynstri hafa mikil áhrif á það hvernig hópastarfið þróast en blanda af þessum þáttum er það sem endanlega ræður dýnamíkinni (andi, samstarf og virkni) í hópnum. Þátttakendur verða að skilja hvaða kostir eru í stöðunni hverju sinni, t.d. ef leysa þarf ákveðið verkefni, og geta rætt og speglað hugsanir sínar og tilfinningar í samskiptum við þá sem það treystir. Líta má á hópinn sem nokkurs konar kerfi þar sem hver hluti hefur áhrif á aðra hluta þess. Þannig verður kerfið aldrei sterkara en veikasti hlekkurinn hverju sinni. Hópurinn sem kerfi samanstendur af þremur lykilþáttum sem eru: hópleiðari, þátttakendurnir og hópurinn sem heild. Til þess að kerfið sé í lagi og sé skilvirkt verður hver og einn þessara þriggja þátta að virka vel með hinum tveimur. Þannig að ef þátttakendur eru í stöðugum árekstrum við hvorn annan mun hópurinn ekki virka sem heild og þá skiptir litlu máli hversu góður leiðbeinandinn er. Á sama hátt er það þannig að ef þátttakendur vinna vel saman en hópleiðari nær ekki að nýta þann styrkleika hópsins mun hópurinn ekki ná fram sínu besta (Gladding, 1999).
Hvaða áhrif hópastarfið kemur til með að hafa á þátttakendur hópsins byrjar í raun á undirbúningstímanum þegar grundvallarákvarðanir varðandi starfið eru teknar:
• Hvers konar hóp er ætlunin að mynda?
• Hvaða þarfir hafa þátttakendur?
• Við hvaða aðstæður starfar hópurinn?
• Hvert er hlutverk þátttakenda í hópastarfinu?
• Hver verður líftími hópsins?
• Hvað er hópurinn að fara að gera?
(Gladding, 1999; Malekoff, 1997)
Ef hópleiðari er ekki viss um hvers konar upplifun hann ætlar að byggja upp með hópnum þá mun hópastarfið ekki skila tilætluðum árangri. Í markvissu hópastarfi er mikilvægt að hafa eftirfarandi sex þætti í huga við undirbúninginn.
Ef hópastarfið á að ganga vel verður það að höfða til þátttakenda á einhvern hátt, hafa tilgang fyrir þá til þess að auka líkur á virkni í starfinu (Gladding, 1999). Mikilvægt er að samkomulag náist á milli hópleiðara og þátttakenda um þær þarfir sem hópastarfinu er ætlað að mæta og að skýrt sé hver markmiðin með starfinu eru, bæði hvað varðar hópinn sem heild og einstaklingana í hópnum. Ef þetta samkomulag er ekki fyrir hendi er erfitt að meta eða mæla árangur með starfinu. Hugtakið „þarfir“ segir til um langanir þátttakenda, hvað það er sem hvetur þá áfram, hvar vandamál þeirra liggja, hvaða málefni skipta þá máli o.s.frv. Skilningur á þörfunum er forsenda þess að hægt sé að setja fram skýr markmið með hópastarfinu, bæði fyrir hópinn í heild og fyrir einstaklingana (Malekoff, 1997).
Þátttakendum verður að líða vel í því umhverfi sem hópurinn starfar í, hvort sem um er að ræða húsnæði eða andrúmsloftið þar sem starfið fer fram. Ef þátttakendum finnst þeir öruggir og þeim líður vel eru þeir viljugri til að taka áhættu og gefa sig alla í starfið (Gladding, 1999).
Samverustundirnar mega hvorki vera of langar né of stuttar. Fundir eða samverustundir sem eru of langir valda því oft að þátttakendur verða þreyttir og missa áhugann. Flestir hópar þurfa a.m.k. 15 mínútur til að koma sér í gang þannig að kjörtími er ein til tvær klukkustundir í hvert skipti sem hist er. Ef hópar eru t.d. að hittast einu sinni í viku ætti þetta að vera nægur tími en auðvitað fer það eftir eðli hópastarfsins og hvað gera á hverju sinni hvort lengri tími er nauðsynlegur (Gladding, 1999).
Jafnvel í fámennum hópum skiptir fjöldinn máli fyrir dýnamíkina í hópnum. Rannsóknir benda til að fleiri þátttakendur en 6-14 minnki ánægju með starfið og virknin minnki. Önnur rannsókn segir að betra sé að fjöldinn fari ekki yfir níu og enn önnur að ekki eigi að vera með fleiri en sautján þátttakendur. Þegar hópar eru orðnir of fjölmennir þá vilja verða til undirhópar. Það verður til þess að sumir meðlimir verða óvirkir og aðrir verða ráðandi. Samkeppni verður um athygli og spenna verður í samskiptum. Ef meðlimir eru færri en fimm geta líka komið upp vandamál. Þá er áherslan á hvern einstakling of mikil til að þeir geti lagt sitt að mörkum og fengið eitthvað út úr starfinu sem hópur (Gladding, 1999).
Meðlimir með ólíkan bakgrunn geta víkkað sjóndeildarhring hinna í hópnum og það getur hentað vel þegar verið er að vinna með ýmiss konar ráðgjöf. Hins vegar getur verið mjög áhrifaríkt að vinna með þátttakendur með svipaðan bakgrunn að sérhæfðum markmiðum. Eðli og tilgangur hópastarfsins ræður yfirleitt samsetningu þátttakenda. Kynjaskipting og uppruni spilar þarna einnig inn í. Í sumum hópum er það eitt af markmiðunum að þátttakendur séu með sem fjölbreyttastan bakgrunn sem endurspeglar þá jafnvel þau umræðu- og umfjöllunarefni sem taka á fyrir í hópnum. Aftur á móti getur ýmislegt komið upp í slíkum hópum sem leiðir hugann frá upprunalegum markmiðum starfsins (Gladding, 1999).
Aðrir þættir geta haft áhrif á dýnamíkina í hópastarfinu eins og til dæmis misræmi á milli markmiða þátttakenda og markmiða hópsins í heild, hvort þátttakendur eru sjálfviljugir í hópnum eða voru þeir sendir í hann. Einnig hvort þátttakendur eru almennt opnir gagnvart sjálfum sér og öðrum, hvort þeir eru tilbúnir að taka þátt í að prófa nýja hluti og viðhorf þeirra gagnvart leiðbeinanda og hans stjórnun. Að lokum skiptir þolinmæði og viðhorf hópleiðara gagnvart ólíkum persónuleikum í hópnum miklu máli. Áhrifin sem hópastarfið hefur á þátttakendur er niðurstaðan úr samspili ólíkra þátta sem þróast á ákveðinn hátt annað hvort vegna vandaðs undirbúnings eða lélegs undirbúnings. Þú uppskerð eins og þú sáir (Gladding, 1999).
Hægt er að fara mismunandi leiðir við kynningu á hópastarfinu. Kynna þarf starfið fyrir samstarfsaðilum, foreldrum og væntanlegum þátttakendum. Þegar um er að ræða sértækt hópastarf er mikilvægt að kynna starfið vel fyrir þeim samstarfsaðilum sem munu vísa í hópana og þá er fagleg kynning mjög mikilvæg. Það hvernig starfið er kynnt foreldrum og þátttakendum hefur bæði áhrif á það hvernig væntanlegir þátttakendur skynja starfið, hverjir munu hafa áhuga á þátttöku og hvert viðhorf foreldra verður. Munnleg kynning getur verið mjög persónuleg en það getur takmarkað mjög þann fjölda sem næst til og það sama á við ef leiðbeinandi talar sérstaklega við hugsanlega þátttakendur. Skrifleg kynning nær til stærri markhóps en hún verður að gefa nægilega skýr skilaboð fyrir hvern hópastarfið er hugsað til þess að ekki taki of langan tíma að finna út hver passar í hópinn og hver ekki (Gladding, 1999). Ef um er að ræða sjálfsprottna áhugahópa er yfirleitt ekki þörf á slíkri kynningu af hendi leiðbeinenda, þar sem áhugi þátttakenda er nægileg forsenda fyrir þátttöku. Ef þátttakendur vantar í slíka hópa getur leiðbeinandi m.a. hengt upp auglýsingu í félagsmiðstöðinni eða auglýst eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum.
Gerð fjárhagsáætlunar er mikilvægur hluti af undirbúningsferlinu þegar verið er að skipuleggja hópastarf. Oft er einnig gerð sú krafa til starfsfólks sem vinnur með hópa að fjárhagsáætlun sé tilbúin áður en hópastarfið fer af stað og tilvist hennar forsenda þess að hefja megi starfið. Í mörgum tilfellum er fyrirfram vitað hversu mikið fjármagn er áætlað í starfið og dagskrá starfsins er svo sniðin út frá þeirri upphæð en oft er starfsmannakostnaðurinn ekki eins sýnilegur. Með gerð heildaráætlunar er skýr og sýnilegur allur sá kostnaður sem í starfinu liggur. Samþykkt fjárhagsáætlun veitir starfsfólki öryggi og er mikilvægur þáttur í skipulagningu á faglegu hópastarfi. Leiðbeinendur í hópastarfi eru hvattir til að leita sér aðstoðar við gerð fjárhagsáætlunar ef á þarf að halda.
Þegar unnið er með sértæka hópa er nauðsynlegt að vinna náið með foreldrum, aðilum frá grunnskóla og velferðarþjónustu. Þegar um er að ræða hópastarf þar sem einstaklingar koma fyrst og fremst saman vegna sameiginlegra áhugamála er vægi foreldrasamskipta oft ekki mikið. Það er þó mjög jákvætt gagnvart foreldrum að kynna hópastarfið og getur til dæmis verið sniðugt að senda tölvupóst heim til foreldra þátttakenda og láta þá vita af þátttöku unglings í hópnum, segja frá markmiðunum, dagskránni, tímasetningu funda og gefa foreldrum færi á að hafa samband við umsjónarfólk hópsins ef þeir hafa einhverjar spurningar. Að öðru leyti er aðallega haft samráð við foreldra ef hóparnir eru að standa að fjáröflunum, fara í ferðalög o.s.frv. Gott foreldrasamstarf verður sjaldan ofmetið.
Þegar unnið er með hópa sem tengjast áhugasviði þátttakenda er yfirleitt ekki um að ræða samstarf við aðra aðila varðandi val á þátttakendum enda er sjaldnast um slíkt val að ræða heldur skrá áhugasamir sig í hópinn. Það er helst þegar slíkir hópar eru notaðir til þess að tengja einstaklinga inn í unglingahópinn, t.d. ef unglingur er nýfluttur í hverfið og þekkir engan þá er hægt að nota slíka hópa til að unglingurinn kynnist jafnöldrum sínum. Þá getur verið að aðilar frá þeim skóla sem viðkomandi sækir hafi samband við félagsmiðstöðina til að fá upplýsingar um hvað er hægt að gera til að tengja viðkomandi inn í frístundastarf í hverfinu.
Þegar unnið er með sértæka hópa er nauðsynlegt að vera í góðu samstarfi við foreldra, skóla, félagsráðgjafa eða aðra innan miðstöðvar þegar valið er í hópana. Ef t.d. á að vinna sérstaklega með unglinga sem eru félagslega einangraðir getur til dæmis verið gott að finna þátttakendur með aðstoð námsráðgjafa skólanna ásamt því að fá upplýsingar um hugsanlega þátttakendur hjá starfsfólki viðkomandi félagsmiðstöðvar. Oft þarf ekki að leita uppi þátttakendur í hópastarf þar sem starf af þessu tagi er yfirleitt svar við áskorunum ákveðins hóps og þá er aðalatriðið að ákveða hversu margir og hverjir af stærri hóp þurfa mest á aðstoð að halda. Þarna spila fundir lausnateyma og aðrir samráðsfundir mikilvægt hlutverk og þeim er vettvangur til að ræða hvaða úrræði er mest þörf fyrir og hvernig samstarfi varðandi lausn ýmissa áskoranna skuli háttað og hvaða verkaskiptingu er best að viðhafa í hverju tifelli fyrir sig.
Þegar unnið er með unglingum sem eiga við félagslegan vanda þarf að skilgreina sérstaklega hver birtingarmynd og ástæða vandans er. Hægt er að skilgreina vanda unglinga með ýmsum hætti og því erfitt að velja einhverja eina skilgreiningu sem segir til um hvað flokkast sem vandi og hvað ekki. Mjög mikilvægt er að skilgreiningin sé sem víðust og nái yfir allan hugsanlega vanda sem börn og unglingar kunna að vera að fást við. Hér á eftir er fjallað nánar um þá þætti sem geta talist til vanda í lífi barna.
Agavandamál og áhættuhegðun
Agavandamál innan skóla og áhættuhegðun eru í raun aðskilin hegðunarvandamál þó þau geti að sjálfsögðu tengst. Áhættuhegðun getur verið tengd líkamlegu ofbeldi eða til dæmis vímuefna misnotkun, óhóflegri áfengisnotkun, sjálfsskaða, ástundarvanda og óvörðu kynlífi með mörgum einstaklingum. Upphaf áhættuhegðunar hjá börnum getur verið vísbending um langan feril í áhættuhegðun og áhættusækni (Shepherd og Farrington, 2003).
Ekki hefur öll áhættuhegðun sömu birtingarmynd en til að skilgreina vanda betur er rétt að skilja ofbeldishegðun frá og útlista hana nánar. Það er hluti af þroska barna að sýna á einhverjum tímapunkti árásarhneigð og slást en munurinn á þeirri hegðun og ofbeldishegðun er sú að árásarhneigðin er stöðug og lamar einstaklinga félagslega og er þeim oft hafnað af jafnöldrum. Talið er að um 5% barna séu með andfélagslega og ofbeldisfulla hegðun. Þegar á fullorðinsár er komið heldur hegðunin yfirleitt áfram, tengslamyndun er lítil og atvinnuleysi algengt. Kostnaðurinn við þessa einstaklinga er allt að tíu sinnum meiri en annarra sem þurfa þjónustu frá velferðarkerfinu og krefst samstarfs margra aðila. Um 30% þeirra barna sem fá aðstoð vegna geðræns vanda eru börn með andfélagslega ofbeldishegðun. Þessi hegðun á mjög oft rætur sínar að rekja til harðræðis og ósamræmis í uppeldi (Scott, Quentin , Doolan, Jacobs, og Aspland, 2001).
Einelti
Til eru ótal skilgreiningar á einelti sem ganga mislangt í að útskýra hvað felst í einelti. Í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkur er einelti skilgreint með eftirfarandi hætti:
Einelti er þegar einstaklingur er tekinn fyrir af einum eða hóp með:
· síendurtekinni stríðni
· síendurteknu niðrandi látbragði
· síendurteknum niðrandi orðum eða lygasögum
· síendurtekinni andlegri kúgun
· síendurteknum hótunum
· síendurtekinni félagslegri höfnun eða útskúfun
Einelti birtist líka í samskiptum á samfélagsmiðlum. Það er hlutverk fullorðna fólksins að sjá til þess að börn umgangist internetið af ábyrgð (Reykjavíkurborg, e.d.).
Það sem einna helst einkennir þolendur eineltis er að þeir eru oft óöruggari, hlédrægari, hæverskari en börn. Þeir einstaklingar sem verða fyrir einelti, eru ekkert öðruvísi í útliti né eru aðstæður þeirra frábrugðnar. En þau einkenni sem hér hafa verið nefnd gerir þau oft að auðveldum skotmörkum. Þau geta átt erfitt í skólum, tómstundum og félagslífi og eiga oftar en ekki erfitt með að aðlagast nýjum kringumstæðum. Þolendur eineltis reyna öllu jöfnu að leyna eineltinu, þau kenna sjálfum sér um hver staðan er, missa gleði, þrótt og jafnvel lífsvilja (Guðjón Ólafsson, 1996).
Gerendur sýna oft jákvæð viðhorf til ofbeldis en önnur börn og hafa jafnvel litla tilfinningu fyrir líðan annarra (Guðjón Ólafsson, 1996). Þeim tekst að loka augunum fyrir hegðun sinni, taka ekki ábyrgð og kenna þolandanum um ástandið (Elín Einarsdóttir og Guðmundur Ingi Leifsson, 2001).
Þeir einstaklingar sem leggja aðra í einelti eru líklegri til að sýna af sér aðrar tegundir ofbeldishegðunar í æsku og á unglingsárum og það sem meira er að síðar á lífsleiðinni er þessi hópur líklegri til þess að gerast sekur um heimilisofbeldi gegn maka, börnum og öldruðum og þeir eru einnig líklegri til að gerast sekir um kynferðislega áreitni (Pepler, Craig og Connolly, 1997). Einnig hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á að um 60% stráka sem eru gerendur í einelti eru að minnsta kosti komnir með einn fangelsisdóm þegar þeir hafa náð 24 ára aldri (Olweus, 1989). Rannsóknir hafa sýnt fram á að árásargjörn hegðun tengist aðlögunarvanda barna, svo sem höfnun jafningja (Scott, Quentin, Doolan, Jacobs & Aspland, 2001).
Afbrot og vímuefnaneysla
Samkvæmt rannsóknum þá er hægt að sjá snemma hvaða einstaklingar eru líklegri til að brjóta lög þegar þeir verða eldri. Kennarar gátu í rannsókn sem var gerð í Kanada séð fyrir með þó nokkurri nákvæmni hvaða börn myndu seinna verða afbrotamenn. Einkenni þessara barna eru árásarhneigð bæði líkamleg og andleg og ónærgætni (e. uncaring). Drengir voru mun líklegri samkvæmt rannsókninni til að stunda ofbeldisglæpi. Rannsóknin var gerð útfrá fyrirfram ákveðnum gildum (CP og HUB skalar) þar sem kennarar mátu hegðun barnanna. Einstaklingar sem skoruðu yfir 90% voru fjórum sinnum líklegri til að brjóta af sér á fullorðinsárum. Þau atriði sem eru metin í CP skalanum eru að slást, sparka, bíta, lemja, óhlýðnast, ástundunarvandi, skemmdarverk og þjófnaður. Í HUB skalanum var metið hvort einstaklingar stundar: einelti, lygar, kenna öðrum um, hugsa takmarkað um þarfir annarra, hrósa ekki minnimáttar, lítil samúðarkennd, lítil hjálpsemi við jafnaldra í vanda og hugga ekki (Sheilagh, Larm, Ellenbogen, Vitaro og Tremblay, 2013).
Þegar vímuefnaneysla er skoðuð eru ótal þættir sem hægt er að skoða vandann útfrá. Heilsufarslegar, félagslegar, efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar eru þættir sem allir verða fyrir áhrifum vímuefnaneyslu. Áætlað er að í Bandaríkjunum einum sé árlegur kostnaður vegna misnotkunar á vímuefnum um 181 milljarður Bandaríkjadollarar eða um 21 billjón íslenskar krónur (21 milljón milljónir). Talan er áætluð útfrá kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, framleiðslu missi, glæpa, fangelsisdóma og aðgerða til að hindra og stöðva neyslu (Harwood, 2000). Bein dauðsföll af vímuefnaneyslu vegna of stórra skammta voru árið 2000 orðin 9% af öllum dauðsföllum í Ástralíu (Hall og Zador, 2000). Þarna eru ekki meðtalin dauðsföll tengd vímuefnaneyslu eins og hjartasjúkdómar, lifrabólga C, krabbamein, umferðarslys, heimilisleysi, þunglyndi og sjálfsvíg. Í rannsókn sem gerð var í Finnlandi á 25 ára einstaklingum sem sóttu sér meðferð vegna vímuefnaneyslu voru 21% heimilislausir, 54% atvinnulausir, 7% höfðu fengið hótanir um ofbeldi og 25% voru með lifrarbólgu. Einnig kom í ljós að 59% voru með geðrænan vanda (Uosukainen, o.fl., 2013).
Ástundunarvandi
Ástæður ástundunarvanda geta verið margvíslegar, bæði getur verið um að ræða erfiðleika innan skólans og utan hans. Ástundunarvandi er oftast tengdur fjölskyldu- eða heimilisaðstæðum, misnotkun á vímuefnum og þáttum innan skóla eins og til dæmis einelti (Dimmick, Correa, Liazis og McMichael, 2011).
Ástundunarvandi leiðir oft af sér brottfall úr skóla og í sumum tilfellum getur hann verið undanfari afbrota. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að nemendur með ástundunarvanda eru líklegri til að stunda innbrot, bílaþjófnað, fremja skemmdarverk og eru líklegri til að vera í vímuefnaneyslu þegar þeir verða eldri (Zhan, Willson, Katsiyannis, Barrett, Ju og Wu, 2010).
Vanræksla og ofbeldi á heimili
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á neikvæð áhrif af heimilisofbeldi hvort heldur sem það er milli foreldra eða barns og foreldris en ofbeldið getur leitt líkamlegra og andlegra kvilla sem geta varað alla ævi. Fyrir marga getur það verið mjög langt ferli að ná sér aftur á strik eftir að hafa upplifað heimilisofbeldi og sumir ná sér jafnvel aldrei (Kenneth og Call-Schmidt, 2000). Heimilisofbeldi getur valdið langvarandi ótta og aukið álag sem leiðir af sér kvíða. Börn og unglinga skortir þroska til að takast á við kvíða sem birtist sem ótti, skömm, niðurlæging og sektarkennd (Kenneth og Call-Schmidt, 2000).
Tengsl við vanrækslu og gerendur í eineltismálum koma skýrt fram í bandarískri rannsókn á heimilisofbeldi sem var gerð í Filippseyjum. Þar kom fram að það að verða vitni að ofbeldi milli foreldra eykur rúmlega tvöfalt líkurnar hjá drengjum á að verða fórnarlamb eineltis. Fyrir stúlkur sem voru fórnarlömb ofbeldisglæpa tífölduðust líkur á því að verða annað hvort gerandi eða þolandi eineltis. Þegar unnið er með eineltismál er mikilvægt að skoða fyrri reynslu einstaklinganna af ofbeldi (Hindin og Gultiano, 2006).
Vanræksla er oft tengd við heimilisofbeldi en er í raun af öðrum toga. Vanræksla er þegar frumþörfum barns bæði líkamlega og andlega er ekki mætt. Afleiðingarnar af vanrækslu falið í sér skertan þroska, lélegan árangur í skóla, lágt sjálfsmat, agavandamál og auknar líkur á geðrænum vanda. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að börn sem eru vanrækt eru lengur að þroskast heldur en börn sem hafa þolað ofbeldi (Tang, 2008).
Heilsa og geðheilbrigði
Þessi skilgreining er í raun afar opin og snýr að margvíslegum vandamálum sem ekki hafa verið flokkuð hér á undan. Dæmi um vanda sem snýr að heilsu og geðheilbrigði er óhófleg tölvunotkun, átröskun, offita, þunglyndi, kvíðaröskun og aðrar geðrænar raskanir. Eins eru afleiðingar af kynferðislegri misnotkun flokkaðar hér undir þar sem slíkt ofbeldi er ekki í öllum tilfellum bundið við heimili. Mikill samnefnari er á milli þessara áskorana þar sem afleiðingin af þeim er lágt sjálfsmat, þunglyndi og kvíðaröskun (Peterson o.fl., 2010; Wieland, 2005). Hinsvegar er unnið afar ólíkt með þessa hópa og margir þurfa á sérsniðinni aðstoð að halda.
Þegar afleiðingar af flokkunum sem nefndir eru hér að framan eru skoðaðar má sjá að þær eiga margt sameiginlegt. Margir flokkar tengjast einnig og til dæmis getur einelti eða neysla leitt af sér ástundundarvanda. Afleiðingarnar sem tengjast meira og minna öllum þessum flokkum eru ýmis konar geðraskanir og má þar helst nefna þunglyndi og kvíða sem geta haft í för með sér alvarlegar afleiðingar. Þunglyndi getur í alvarlegustu tilfellum leitt til sjálfsvígs og er þriðja helsta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15-24 ára (Dean McKay og Eric A. Storch, 2013). Einstaklingar sem þjást af þunglyndi eiga oft í erfiðleikum með þætti eins og skólagöngu og náin sambönd. Líkur á neyslu tóbaks og vímuefna eru meiri heldur en hjá þeim sem ekki þjást af þunglyndi og tilraunir til sjálfsvígs eru tíðari (Wisdom, Clarke og Green, 2006). Eins og sjá má eru orsakir og afleiðingar í raun komnar í hring og augljóst að hægt er að skoða vandamálin frá ýmsum hliðum. Það sem er þó mikilvægast og stendur upp úr er að afleiðingar af þessum vandamálum sem hefur verið listað upp eru alvarlegar og afleiðingarnar geta verið alvarlegar bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.
Mikilvægt er að tengja þessa umfjöllun við íslenskan veruleika og fá tilfinningu fyrir því hver staða barna á Íslandi er. Samkvæmt rannsókn frá Rannsóknum og greiningu finna íslenskar stúlkur í 9. og 10. bekk meira fyrir einkennum þunglyndis en drengir á sama aldri (Rannsóknir og greining, 2018). Í rannsókninni er ekki farið í orsakir depurðar en ef miðað er við skilgreiningarnar hér að ofan þá gæti verið um afleiðingar annars vanda að ræða.
Þessar tölur stangast á við tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunni hvað varðar sjálfsvíg en þar eru karlmenn í miklum meirihluta (Whorld Health Organization, 8, janúar 2024).
Mynd 2. Fjöldi sjálfsvíga á Íslandi frá 2004-2016, fjöldi sjálfsvíga á Íslandi skipt eftir kynjum 2004-2016 og fjöldi sjálfsvíga á skipt eftir kynjum á aldrinum 15-34 ára .
Ástæður fyrir því að líðan drengja kemur ekki fram í íslenskum rannsóknum er umhugsunarefni en tölfræði WHO um tíðni sjálfsvíga segir okkur að líðan drengja er almennt ekki betri. Til samanburðar er tíðni sjálfsvíga á hinum norðurlöndunum 10,7 karlmenn á hverja 100.000 íbúa og 4,5 konur á hverja 100.000 íbúa (WHO, 2019).
Mynd 3. Hlutfall sjálfsvíga á Íslandi á hverja 100.000 íbúa og hlutfall sjálfsvíga á hverja 100.000 íbúa skipt eftir kynjum.
Á árinu 2016 var hlutfall sjálfsvíga karlmanna á Íslandi 20 einstaklingar á hverja 100.000 íbúa en konur 2.2 á hverja 100.000 íbúa (WHO, 2019).
Mikilvægt er þegar skimað er eftir líðan ungmenna að hafa í huga þessi tölfræði stangast á og virðist sem að drengir eigi erfiðar með að tala um líðan sína.
Unglingsárin tengjast beint miklum breytingum á vitsmunum og tilfinningalífi auk þess sem streitu tengdir sjúkdómar eins og kvíði og þunglyndi eru líklegust til að koma fram sem getur verið undanfari áhættuhegðunar. Álag og mótlæti geta valdið þunglyndi sem hrjá um 350 milljón manns á heimsvísu (McKain, 2019).
Samkvæmt rannsóknum á afbrotum ungs fólks þá er hægt að skipta undanfara þeirra í tvo flokka. Annars vegar einstaklingar sem hafa frá barnæsku búið við brotnar heimilisaðstæður. Þetta eru einstaklingar sem hafa orðið fyrir vanrækslu, búið við fátækt eða tengslarof innan fjölskyldu. Þessar aðstæður geta haft þær afleiðingar að einstaklingar verða sífellt árásahneigðari og andfélagslegri í hegðun. Þessir einstaklingar eiga á fullorðins árum erfitt með að halda atvinnu, hafa tilhneigingu til afbrota og fórnarlambsvæða maka og börn (Blevins,, Cullen, Wright 2017). Hins vegar er um að ræða þá þar sem undanfari afbrota á unglingsárum eru einstaklingar sem koma úr nokkuð hefðbundnu umhverfi en sjálfsmynd brotnar vegna staðalímynda samfélagsins og stöðu jafningja (Blevins, Cullen, Wright 2017).
Rannsóknir á heilastarfsemi hafa sýnt að þörf einstaklinga til að tengjast öðrum er grundvallaratriði í þroska og velferð einstaklinga. Með öðrum orðum að þá mótast einstaklingur af því að prófa hegðun úr umhverfinu og styrkist í þeirri hegðun sem býr til athygli og tengingu við annað fólk. Þessari þörf getur reynst erfitt að mæta í heimi samfélagsmiðla sem stöðugt krefjast óraunhæfra staðla og erfitt er að sýna öðrum veikleika og hugsanir. Því miður getur það sem skilgreint er sem neikvæð eða áhættuhegðun fengið athygli og viðbrögð og þannig styrkt einstaklinga í áhættusækni (Storr, 2018).