Aðferðarfræði byggð á kenningum Linda L. Caldwell PhD.
Verkefnið snýr að því að hjálpa ungu fólki að taka ábyrgð á sínum frítíma, auka færni í ákvarðanatöku, áætlunargerð og sjálfstjórn. Verkefnið hjálpar einnig einstaklingum að stunda heilbrigt tómstundastarf. Tilvalið tæki til að komast að spurningunni: Hver eru mín gildi í lífinu?
Bókina er hægt að finna á netinu og mögulega einnig í þinni eða nærliggjandi félags- eða frístundamiðstöð.
Bellanet er leiðbeinendanámskeið ætlað þeim sem halda utan um hópastarf með ungmennum eða kenna lífsleikni í skólum, með megináherslu á forvarnar og er haldið af Barnaheillum sem finna má hér.
Unnið er með handbókina Rubble and Roses sem er góður leiðarvísir að hópastarfi. Hún sýnir öll stig hópamyndunar og gefur góðar leiðbeiningar hvernig á að taka umræðu með hópnum.
Hugmyndafræði Kurt Hahn & Lawrence Holt þar sem unnið er með tilfinningaleg og líkamleg mörk í krefjandi útivist. Unnið er að því að byggja upp innri styrk og auka sjálfstæði þátttakenda.
Á heimasíðu samtakanna er að finna fjölbreyttar upplýsingar um hugmyndafræðina, verkefni sem tengjast útivist og námskeið.
Þessi kynningarvefur er partur af lokaverkefni Magnús Björgvins Sigurðssonar í tómstunda- og félagsmálafræði. Markmið vefsins er að brýna notagildi úti- og ævintýranáms fyrir leiðbeinendum í frístundastarfi og ávinning námsaðferðanna fyrir þátttakendur. Markmiðið er að veita samstarfsfélögum höfundar á svið frístunda með börnum og unglingum verkfæri og innblástur til að hanna sín eigin verkefni sem tengjast úti- og ævintýranámi. Á vefnum er meðal annars að finna upplýsingar um hagnýt verfæri og hugmyndabanka frá fagfólki á sviði úti- og ævintýranáms.
Búið er að útbúa verkfærahefti út frá lærdómssamfélagi um valdeflingu unglingsstúlkna sem hittist skólaárið ’23-’24. Heftið inniheldur samantekt á góðu starfi og verkefnum sem unnið hefur verið í grunnskólum og félagsmiðstöðum víðsvegar um borgina. Hér er hlekkur á verkfæraheftið.
Um er að ræða meistararitgerð eftir Kristínu Dóru Ólafsdóttur sem snýr að ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum. Í verkefninu er fjallað um áhrif dagbókarskrifa á unglingsstelpur í hópastarfi í félagsmiðstöð og þróun námsefnis því tengdu. Verkefnið fékk Hvatningarverðlaun skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar árið 2019.
SEE nám er skammstöfun sem stendur fyrir “social, emotional and ethical learning” en á íslensku væri hægt að segja að um sé að ræða nám sem snýr að félags-, tilfinninga- og siðferðilegri hæfni. SEE nám byggir á þeim grunni sem lagður var í SEL námi (e. social and emotional learning) þar sem leitast var eftir að kynna heiltæka nálgun í menntun fyrir börn. SEL nám er ferli þar sem börn og fullorðnir öðlast og nýta þá þekkingu, viðhorf og færni sem nauðsynleg er til að stjórna eigin tilfinningum, finna og sýna öðrum samkennd, setja sér uppbyggileg og jákvæð markmið og ná þeim, þróa og viðhalda jákvæðum samböndum við aðra og taka ákvarðanir sem eru árangursríkar og byggja á siðferðilegum grunni. Með SEE námi er verið að byggja á þeim grunni sem lagður var með SEL námi en þó verið að bæta inn þáttum sem ekki er að finna innan þess en bent hefur verið á að vanti þar inn. Í fyrsta lagi er þar um að ræða að rækta athyglisgáfuna sem talin er spila stórt hlutverk í öllu námi. Verið er að leggja meiri áherslu á siðferðilega hæfni sem byggir á sammannlegum gildum svo sem samúð og samkennd. Börn fá sem hluta af náminu efni og æfingar sem gera þeim kleift að hugsa vel um sig sjálf og aðra. Einnig er verið að bæta inn í námið nýjustu þekkingu úr rannsóknum á áföllum og hvernig best er að vinna úr þeim, í þeim tilgangi að gefa nemendum tækifæri til að skoða eigin tilfinningar, vinna með sjálfstjórn og ígrundun á þann hátt sem er öruggt og áhrifaríkt. Síðast en ekki síst er með SEE námi verið að leggja áherslu á heiltæka nálgun sem felur í sér aukna meðvitund um að við erum hluti af stærra samhengi og að það verður að undirbúa börn undir að þau tilheyra samfélagi og veröld þar sem við erum öll hvert öðru háð. Nánari upplýsingar um SEE nám er að finna hér.
The SEE learning playbook (SLP) er ætluð fyrir börn frá ellefu ára aldri. Í þessari verkefnabók er að finna 16 æfingar og verkefni sem hafa það að markmiði að styðja börn í að þróa og þroska sína náttúrulegu styrkleika. Í verkefnunum í SLP er lögð áhersla á virkniverkefni og bæði er gert ráð fyrir að verkefnin séu unnin í hópi og á eigin vegum. Sum verkefnin tekur aðeins 10 sekúndur að framkvæma en önnur taka lengri tíma sem bíður upp á mikinn sveigjanleika. Sjá nánar hér.
Um er að ræða meistaraverkefni Bjarna Þórðarsonar þar sem hann fjallar um þróunarverkefni sitt í vináttuþjálfun fyrir 13-15 ára unglinga og var prófað í félagsmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort verkefnið skilaði árangri. Samkvæmt niðurstöðunum er mikil þörf á námskeiði sem þjálfar samskipta- og vináttuþjálfun meðal unglinga. Í viðauka með verkefninu er m.a. að finna kynningarefni fyrir foreldra, hugmynd að uppsetningu á hópastarfinu, sjálfsmatskönnun og spurningaramma fyrir viðtöl við þátttakendur.
Meistaraverkefnið fékk viðurkenningu skóla- og frístundaráðs árið 2018.
Kröfur til hópleiðara:
Mikilvægt er að hópleiðarar hafi fengið leiðsögn um hópastarfið og hafi að minnsta kosti einu sinni tekið þátt í hópastarfi með reyndum starfsmanni.
Hópleiðarar þurfa að vera tilbúnir að takast á við erfiðar umræður og vita hvert á að leita hverju sinni.
Skipulag og markmið:
Þetta er aðeins dæmi um hvernig hægt er að stilla upp hópastarfi. Hópleiðarar þurfa að vera tilbúnir að breyta og aðlaga hópastarfi/dagskrá eftir þörfum hópsins og setja markmið með starfinu í samræmi við það. Í sumum tilvikum getur hentað að þátttakendur setji sér persónulega markmið um hvað þau langar að fá út úr hópastarfinu. Sérstaklega þarf að skoða hverskonar umræður og fræðslu á að taka með hópnum og vera viss um að umræðuefnið henti hópnum og að hópleiðarar ráði við umræður. Mikilvægt er að fylgjast vel með hópnum í allri dagskrá og grípa þau tækifæri sem gefast til að kynnast og spjalla við krakkana. Eftir hvern fund/tíma er einnig mikilvægt að fá endurgjöf, fá að vita hvernig þeim finnst og hverju gæti þurfta að breyta. Engir tveir hópar eru alveg eins og þörfin oft misjöfn. Í samtölum við samstarfsfólks, s.s. námsráðgjafa og kennara, og í gegnum kannanir sem lagðar eru fyrir hópinn í upphafi starfsins er hægt að leggja mat á hvaða fyrirkomulag og leiðir henta hópnum best. Gott getur verið að leggja upp með að hópurinn hittist vikulega í 90-120 mínútur í senn. Mikilvægt er að skrá niður upplýsingar um hvern fund s.s. hvað var gert og hvernig gekk.
Drög að dagskrá:
1. Að kynnast hópnum
Í fyrsta hitting er mikilvægt að byrja á hópefli (ísbrjótur, nafnaleikir þangað til að allir þekkja nöfnin, fjörefli og samvinnuleikir). Bjóða upp á mat eða snarl. Spjalla um starfið, hvernig þetta er byggt upp í grófum dráttum, hvað þau eru til í og fá hugmyndir um afþreyingu og hreyfingu frá þeim. Í enda tímans að gott að leggja fyrir nafnlausa könnun sem er svo notuð til að meta hópinn.
2. Hrista hópinn saman
Gott að halda áfram með hópeflis- og kynningarleiki. Kynning á Bellanet leikjum, fara létt í þá og svo er farið dýpra í þá þegar líður á. Fara yfir niðurstöður á könnuninni frá því síðast og ræða almennt um það. Ef áhugi er hjá hópnum er hægt að ræða fjáröflun og hvernig er hægt að fá styrki/fjármagn inn í starfið og skipta niður verkum í tengslum við hana.
3. Afþreying
Þátttakendur velja hvað er gert eins og t.d. keilu, ísferð, bogfimi, bíó, maskakvöld, lazertag, fótboltagolf eða annað sem þeim dettur í hug.
4. Hreyfing
Þátttakendur velja hvað þau hafa áhuga á að gera sem tengist hreyfingu eins og t.d. líkamsrækt, crossfit, zumba, yoga, klifurhúsið, frísbígolf, fjallganga eða kubb.
5. Fræðsla/fræðsluleikir
Nota t.d. Bellanet, hópefli (nafnaleikir), kvíða- og sjálfstyrkingarfræðslu, hreinlæti/næring, fræðsla frá Fokk me - Fokk you, snyrtifræðingur, manneskju sem gengur vel í lífinu, nafnlausar spurningar (kynlíf og samskipti kynjanna), nafnlausar spurningar (þunglyndi, kvíði og geðsjúkdómar). Eða annað sem á við fyrir þennan tiltekna hóp. Fer eftir hverjum hóp fyrir sig hvað passar en eitthvað í þessum dúr.
6. Afþreying
Þátttakendur velja hvað þeir vilja gera eins og t.d. keila, ísferð, bogfimi, bíó, maskakvöld, lazertag, fótboltagolf o.s.frv. Láta þau aftur fá könnun þar sem staðan er tekin, framhald af fyrstu könnun í fyrsta tíma.
7. Hreyfing
Þátttakendur velja hvað þau hafa áhuga á að gera sem tengist hreyfingu eins og t.d. líkamsrækt, crossfit, zumba, yoga, klifurhúsið, frísbígolf, fjallganga/ganga eða kubb.
8. Fræðsla/fræðsluleikir
Nota t.d. Bellanet, hópefli (nafnaleikir), kvíða- og sjálfstyrkingarfræðslu, hreinlæti/næring, fræðsla frá Fokk me - Fokk you, snyrtifræðingur, manneskju sem gengur vel í lífinu, nafnlausar spurningar (kynlíf og samskipti kynjanna), nafnlausar spurningar (þunglyndi, kvíði og geðsjúkdómar). Eða annað sem á við fyrir þennan tiltekna hóp. Fer eftir hverjum hóp fyrir sig hvað passar en eitthvað í þessum dúr.
9. Afþreying
Þátttakendur velja hvað þau vilja gera eins og t.d. keila, ísferð, bogfimi, bíó, maskakvöld, lazertag, fótboltagolf o.s.frv.
10. Hreyfing
Þátttakendur velja hvað þau hafa áhuga á að gera sem tengist hreyfingu eins og t.d. líkamsrækt, fjallganga/ganga, crossfit, zumba, yoga, klifurhúsið, frísbígolf, fjallganga/ganga eða kubb.
11. Fræðsla/fræðsluleikir
Nota t.d. Bellanet, hópefli (nafnaleikir), kvíða-og sjálfstyrkingarfræðslu, hreinlæti/næring, fræðslu frá Fokk me - Fokk you, snyrtifræðingur, konu sem gengur vel í lífinu, nafnlausar spurningar (kynlíf og samskipti kynjanna), nafnlausar spurningar (þunglyndi, kvíði og geðsjúkdómar). Eða annað sem á við fyrir þennan tiltekna hóp. Fer eftir hverjum hóp fyrir sig hvað passar en eitthvað í þessum dúr.
12. Lokaskipti
Boðið upp á mat og farið yfir tímabilið. Vera dugleg að taka myndir og myndbönd á meðan hópastarfið stendur yfir sem er svo gaman að klippa saman og fara yfir með þeim í lokahittingnum sem er þá einskonar uppskeruhátíð starfsins. Leggja aftur fyrir könnun sem er hægt að bera saman við fyrri kannanir og fá að vita hvernig þeim fannst hópastarfið ganga. Mikilvægt er að fá endurgjöf á starfið frá þátttakendum, gefa tækifæri til að hrósa hvert öðru, fá að heyra hvað gekk vel og hvað síður vel. Einnig getur verið gott að ræða hvort að það er áhugi á að hópurinn hittast aftur og endurnýi kynnin, t.d. eftir 2-3 mánuði.
Höfundar: Kári Sigurðsson og Sif Ómarsdóttir, Hólmasel 2017-2018
Hvernig vel ég aðferðarfræði fyrir hópinn?
Aðferðin verður að passa við hópinn og hún verður að byggjast upp hægt og rólega. Ef þetta eru t.d. krakkar sem þurfa félagslegan stuðning væri gott að nota Vinabönd. Þá ertu að leitast við að búa til tengsl á milli einstaklinga sem þurfa á vini að halda. Hlutur sem flestir taka sem sjálfsögðum hlut. Þú gætir líka farið með krakka sem eru komnir á það stig að vera fikta með áfengi o.þ.h. og tekið þau út í náttúruna og kynnt fyrir þeim sjálfseflandi vinnu. Það er gott að taka þessa umræðu við þína yfirmenn eða samstarfsfélaga svo að líkurnar á vel heppnuðu hópastarfi aukist.
Má aðlaga aðferðir fyrir hópinn minn?
Það getur verið gott að taka hóp í vináttuþjálfun og fara með þau t.d. í útivist og taka umræðuna og verkefni um sjálfsmynd með útivistarhópnum. Með aukinni þjálfun í að vinna með hópa lærir þú á þessi tæki og tól og hvað hentar hverjum hópi hverju sinni.
Hvar finnur maður gögn og útbúnað sem þarf?
Fyrst er að athuga hvað er til í þinni félags- eða frístundarmiðstöð. Þar leynist fullt af mjög gagnlegum hlutum. Séu gögn eða útbúnaður ekki til er gott að byrja á að hafa samband við nærliggjandi frístundarmiðstöðvar. Þetta getur sparað bæði tíma og fé.
Hversu mikið á að upplýsa þátttakendur og foreldra um aðferðir og markmið?
Gott er að það komi fram í kynningunni til þátttakenda og foreldra hvernig hópur þetta er og hvað þú ætlar að gera með honum. Því meiri upplýsingar og betri söluræða til foreldra því meiri líkur á að unglingurinn skili sér inn í starfið.