Samkvæmt niðurstöðum rannsókna þarf í forvarnarstarfi að taka tillit til jafningjahópsins og áhrifa hans frekar en að einblína á einstaklinginn óháð félagslegu samhengi. Með forvarnarstarfi sem miðar að breyttum viðhorfum til áhættuhegðunar í jafningjahópnum, sjálfstyrkingu unglingsins og dýpkunar vináttu milli einstaklinganna í hópnum er hægt að ná verulegum árangri (Rúnar Vilhjálmsson, 2016) og hópastarf býður einmitt upp á að forvarnarstarf sé nálgast með þessum hætti.
Seigla (e. resilience) barna og unglinga er það ferli sem lýsir hæfni þeirra til að aðlagast aðstæðum á farsælan hátt í samspili við styðjandi þætti í umhverfinu þó að þau/þeir búi við erfiðar aðstæður eða hafi orðið fyrir áfalli eða mótlæti. Margt getur stuðlað að því að börn og ungmenni sýni seiglu en félagslegt umhverfi, m.a. tilfinningalegur stuðningur fólks sem einstaklingur getur reitt sig á á lífsleiðinni, er á meðal þeirra verndandi ferla sem geta aukið færni viðkomandi til að takast á við mótlæti á mótunarárum sínum (Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2016).
Þeir aðilar sem vinna með börn og unglinga eru í lykilstöðu til að verða varir við birtingamyndir vandamála barna og unglinga. Þessir aðilar geta gegnt lykilhlutverki í að koma einstaklingum til sérfræðinga og vinna með þá í sínu starfi. Þessir aðilar eru skilgreindir sem mikilvægir fullorðnir (e. significant others) og eru til dæmis starfsmenn félagsmiðstöðva, kennarar og þjálfarar (Leary og Tangney, 2005). Starfsfólk félagsmiðstöðva sem sinnir hópastarfi getur sinnt slíkum stuðningi og verið þessi umhyggjusami einstaklingur utan fjölskyldunnar sem unglingur getur reitt sig á.
Vandi barna og unglinga er fjölbreyttur, hann getur haft margs konar afleiðingar og í raun er um ótæmandi lista að ræða. Oft er einn vandi undanfari annars og getur fljótt orðið um fjölþættan vanda að ræða með alvarlegum afleiðingum fyrir bæði einstaklingana sjálfa og samfélagið í heild. Brotin sjálfsmynd vegna ofbeldis, kynferðisbrota, félagslegrar einangrunar eða eineltis leiðir oft að brottfalli úr skóla og í sumum tilfellum að lögbrotum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum sýna að þau börn og unglingar sem eru með ástundunar vanda í skóla vegna fjölþætts vanda eru líklegri til að stunda innbrot, bílaþjófnað, fremja skemmdarverk og þessir einstaklingar eru líklegri til að leiðast út í vímuefnaneyslu þegar þeir verða eldri. Það er því gríðarlega mikilvægt að bregðast við vanda þessa hóps og veita honum stuðning, t.d. í gegnum hópastarf.
Starfsmenn félagsmiðstöðva eru í raun algjörri sérstöðu til að aðstoða grunnskóla og miðstöðvar við að styðja börn sem eru í vanda. Það er til mikið af verkfærum sem starfsmenn félagsmiðstöðva geta unnið með og rannsóknir hafa sýnt að með skipulögðum aðferðum er hægt að hjálpa einstaklingum og ýta undir að þeir stundi heilbrigt tómstundastarf (Caldwell, 2005).
Félagsmiðstöðvar hafa það hlutverk að koma auga á börn með mismunandi vandamál, koma málum þeirra í farveg og vera stuðningur við önnur úrræði. Helsta verkfærið sem félagsmiðstöðvar geta boðið upp á er hópastarf þar sem markvisst er unnið að breyttum viðhorfum og lífstíl. Einstaklingar bregðast öðruvísi við áreiti innan hóps heldur en þeir gera sem einstaklingar. Þetta þýðir ekki að allir einstaklingar innan hóps bregðist eins við. Viðbrögð einstaklings innan hóps geta haft áhrif á aðra innan hans. Hópurinn hefur mest með það að segja hver örlög einstaklinga innan hans eru. Hópstemningin getur farið á hvorn veginn sem er og ef hópurinn er neikvæður getur hópurinn haft slæm áhrif á einstaklinga innan hans (Sjølund, 1976). Það er því mjög mikilvægt að starfsmaðurinn sem stýrir hópnum sinni því mikilvæga ábyrgðarhlutverki að búa til jákvæða hópastemmingu. Tækifærin innan félagsmiðstöðva til þess eru mikil því einstaklingar sem eru að nýta sér þjónustuna líta á hana sem tilboð og eru ekki skyldugir til að taka þátt í félagsmiðstöðvastarfinu.
Félagsmiðstöðvar eru ekki eins mikið bundnar fyrirfram ákveðnum markmiðum eða námskrá sem einstaklingar eru metnir eftir eins og er í skólum eða íþróttastarfi. Félagsmiðstöðvar hafa meira frelsi til að skipuleggja og þróa verkefni sem eru tímafrek og snúa að áhugamálum skjólstæðinga sinna. Einn helsti uppeldisfrömuður 20. aldarinnar var heimspekingurinn og sálfræðingurinn John Dewey. Samspil manns við umhverfi sitt kallaði Dewey „reynslu“. Öll reynsla var þó ekki að áliti Dewey's grundvöllur árangurs heldur taldi hann allt vera undir gæðum reynslunnar komið. Dewey taldi að góð reynsla einkennist af tvennu. Annars vegar af því að reynslan sé ánægjuleg og hinsvegar mikilvægi þess að reynslan lifi á skapandi hátt í minninu. Með þessu verður upplifunin síðar að reynslu sem nýtist í ákveðnum aðstæðum. Þetta kallar Dewey „samfellda reynslu“ (Dewey, 2000). Skipulagt hópastarf félagsmiðstöðva eftir viðurkenndum leiðum á því alltaf að miða að því að upplifun þeirra sem í hópnum eru sé ánægjuleg og tryggja að minningin lifi með ígrundun eftir hvert skipti.
Vandi barna og unglinga getur verið mjög flókinn og afleiðingarnar mjög alvarlegar. Það er mjög mikilvægt að stofnanir vinni sem best saman að því að hjálpa unglingum sem eru í vanda. Verkefni skólanna samkvæmt aðalnámskrá eru stór og mikil og hugsanlega eru skólarnir ekki með nógu mikið af úrræðum á sínum snærum til að sinna þessum verkefnum. Félagsmiðstöðvar eru ekki úrræði við einstökum vanda en geta verið viðbót við þá vinnu sem sérfræðingar eins og sálfræðingar og félagsráðgjafar eru að vinna. Til er heill hafsjór af verkefnum sem unnin hafa verið með hópa með skilgreindan vanda og eru félagsmiðstöðvar í einstakri stöðu til að hrinda þessum verkefnum í framkvæmd.
Togstreita getur fylgt því að breytast úr barni í fullorðinn einstakling. Hópastarf af ýmsu tagi getur verið hjálplegt fyrir unglinga í þeirri stöðu. Hópar geta veitt stuðning, stuðlað að námi, minnkað innri og ytri þrýsting og stuðlað að þroska. Hópastarf býður upp á opnar spurningar og umræður um gildi og viðhorf. Mikill lærdómur getur falist í því að taka þátt í skipulögðu hópastarfi í frítímanum. Í slíku hópastarfi skapast vettvangur til að þjálfa meðal annars samskipti, samvinnu og það að takast á við ágreining þegar unnið er að ákveðnum verkefnum. Hópastarf er ein leið til að ýta undir ígrundun og gagnrýna hugsun hjá börnum sem er nauðsynlegt til að þau þekki sín eigin gildi og geti tekið heilbrigðar ákvarðanir í lífinu (Malekoff, 2014).
Niðurstöður meistararannsóknar Ásu Kristínar Einarsdóttur (2025) á sértæku hópastarfi benda til þess að skipulagt hópastarf hafi jákvæð áhrif á félagslega hæfni, sjálfsmynd og tilfinningalegan þroska unglinga. Megindleg gögn rannsóknarinnar sýna að þátttaka í hópastarfi getur dregið úr einmanaleika og andlegri vanlíðan með því að skapa öryggi, samkennd og vettvang fyrir jákvæð félagsleg tengsl. Í viðtölum sem tekin voru við starfsfólk kemur fram að sértækt hópastarf er talið vera öflugt verkfæri í forvörnum og geta veitt mikilvægan stuðning fyrir unglinga sem glíma við félagslegar áskoranir. Rannsóknin styður við þá hugmynd að markviss nálgun í hópastarfi geti verið lykilþáttur í forvarnastarfi félagsmiðstöðva en hún undirstrikar einnig mikilvægi aukinnar fagmennsku, stefnumótunar og markvissrar innleiðingar sértæks hópastarfs til að hámarka áhrif þess á líf unglinga.
Nánari umfjöllun um mikilvægi og hugmyndafræði hópastarfs er að finna á bls. 5-8 í Handbók um hópastarf og í meistaraverkefni Ásu Kristínar Einarsdóttur (2025) "Tíminn er vinur þinn í þessu" - ávinningur sértæks hópastarfs í félagsmiðstöðvum á bls. 22-32.
Gott er að hafa í huga að hópar þróast á því tímabili sem þeir eru starfandi. Samkvæmt líkani Tuckman og Jensen fara hópar í gegnum fimm stig í hópþróun. Þau eru myndun hóps (forming), spenna (storming), aðlögun (norming), framkvæmd (performing), og það síðasta er lok (adjourning). Nánari upplýsingar um þetta hópþróunarlíkan er að finna á bls. 33 í Handbók um hópastarf.