Þegar hópastarfinu lýkur formlega er mikilvægt að meta hvort starfið hafi skilað tilætluðum árangri. Það er til dæmis hægt að kanna hvernig þátttakendum fannst leiðbeinendur standa sig, hvernig tímasetningar og staðsetning hópsins hafi hentað og að lokum hvort að starfið hafi verið markvisst og skilað tilætluðum árangri. Ef markmið hafa ekki náðst þarf að meta hvort þörf sé á að framlengja starfið til að ná settum markmiðum eða fylgja hópnum eða einstaklingum í honum eftir með öðrum hætti. Þegar mat á starfinu liggur fyrir er einnig mikilvægt að skrifa skýrslu um starfið, taka saman hvað gekk vel og hvað gekk síður vel. Þetta er gert til að reynslan af verklaginu nýtist öðrum og auki líkur á að árangur náist með aðra hópa.
Eftirfarandi fimm spurningar getur verið gott að hafa í huga á meðan hópastarfið
stendur yfir til að auðvelda mat á árangri:
1. Náði hópurinn þeim markmiðum sett sett voru í upphafi hópastarfsins?
2. Sköpuðust einhver sérstök vandamál í ferlinu sem er mikilvægt er að huga að varðandi skipulag á frekara hópastarfi?
3. Hvernig gekk að fá hópinn til að tengjast aðstæðum og umhverfi sem markmiðið var að skapa
í hópastarfinu?
4. Sögðu þátttakendur eitthvað á meðan á hópastarfinu stóð sem hefur áhrif á hvernig starfsfólk
skipuleggur hópastarf í framtíðinni?
5. Var eitthvað í hegðun þátttakenda á meðan á hópastarfinu stóð sem gefur vísbendingu um að
breytingar séu að eiga sér stað?
(Malekoff, 2016)
Gott getur verið að hitta hópinn aftur eftir að um 3-6 mánuðir eru liðnir frá því að formlegu stafi með hópinn lauk. Þá er til dæmis hægt að boða þátttakendur í einstaklingsviðtöl og kanna hvernig þeim hefur gengið eftir að starfinu lauk. Einnig er hægt að boða allan hópinn saman á fund en hann þarf alls ekki að vera mjög formlegur. Það er gott að vera búin að ræða það við hópinn áður en að formlegu starfi líkur að hópurinn verði kallaður saman aftur á ákveðnum tímapunkti. Þá má að sjálfsögðu hvetja einstaklinga innan hópsins til þess að halda áfram að hittast án þess að starfsmaður sé með og þá er jákvætt ef hægt er að veita hópnum aðstöðu innan veggja félagsmiðstöðvarinnar óski þátttakendur eftir því og sé þess kostur.
Við upphaf hópastarfs er gott að leggja könnun fyrir þátttakendur sem gerir grein fyrir líðan þeirra, vonum og væntingum fyrir hópastarfið og endurtaka könnunina við lok starfsins til að meta árangur þess. Ef hópastarfið er yfir lengri tíma má einnig leggja könnun fyrir um miðbik starfsins til að meta það starf sem fram hefur farið og leggja línur fyrir það starf sem er eftir.
Gott er að notast við einföld form til að fá svör við fyrirfram ákveðnum spurningum. Hér má sjá dæmi um mat að loknu hópastarfi þar sem niðurstöður nýtast leiðbeinendur til að meta árangur starfsins og hvað má betur fara.
Á skalanum 1-10
Stóðst hópastarfið væntingar þínar? Mjög lítið – Mjög mikið
Hvernig stóðust leiðbeinendur væntingar þínar? Mjög lítið – Mjög mikið
Hvernig fannst þér verkefnin í hópastarfinu? Mjög leiðinleg – Mjög skemmtileg
Hversu mikið finnst þér þú hafa náð að kynnast hinum í hópnum? Mjög lítið – Mjög mikið
Hversu mikið finnst þér þú hafa lært í hópastarfinu? Mjög lítið – Mjög mikið
Eitthvað sem þú lærðir sem þú vilt segja frá? Opið svar
Finnst þér líklegt að þú haldir sambandi við einhverja í hópnum eftir að starfinu lýkur? Mjög ólíklegt – Mjög líklegt
Hefðir þú áhuga á að hópurinn haldi áfram að hittast? Já – Nei
Heldur þú að það sé líklegra að þú mætir í félagsmiðstöðina eftir vinnuna í hópnum? Já – Nei
Er eitthvað sem þú vilt segja við leiðbeinendur – hrós, ábendingar, gagnrýni, brandari? Opið svar
Einnig er gott að leggja mat fyrir foreldra/forsjáraðila til að meta þeirra upplifun af þátttöku barnsins og sníða þær spurningar að þeim upplýsingum sem þið óskið eftir að fá frá foreldrum og þá til dæmis hægt að spyrja hvers foreldrar vænta af þátttöku barnsins í hópastarfinu. Eftir þátttöku í hópastarfinu er síðan hægt að óska eftir svörum hvort starfið hafi staðist væntingar, hvort foreldar séu ánægðir með starfið í heild sinni, upplýsingagjöf o.s.frv.
Að hópastarfi loknu er gott að kynna niðurstöður starfsins fyrir þeim er málið varðar. Fyrir hverjum niðurstöður eru kynntar og hversu ítarlega fer eftir eðli hópastarfsins. Hér eru hugmyndir um aðila sem gott gæti verið að kynna afrakstur starfsins fyrir:
· Deildarstjórar og annað starfsfólki sem kom að starfi með þátttakendum
· Foreldrar/forsjáraðilar þátttakenda
· Lausnateymi, námsráðgjafar eða viðeigandi starfsmenn grunnskóla
· Starfsfólk annarra frístundamiðstöðva, t.d. á “Höfuðið í bleyti“ eða á öðrum vettvangi sem hentar
Hvað ef fjárhagsáætlun stenst ekki?
Ef fjárhagsáætlun stenst ekki þarf annað hvort að endurskoða áætlunina með yfirmönnum (t.d. deildarstjóra og fjármálastjóra) eða sníða starfið að núverandi fjárhagsáætlun.
Hvernig met ég árangur í hópastarfinu?
Hægt er að meta árangur starfsins með könnun í upphafi starfsins og í lok þess. Einnig er hægt að bæta við könnun um miðbik starfsins vilji leiðbeinendur fylgjast með framþróun þess. Könnunina er hægt að leggja fyrir þátttakendur og foreldra/forsjáraðila þeirra ef þurfa þykir. Einnig er mikilvægt að fylgjast vel með hópnum í starfinu og skrá niður hvernig gengur eftir hvern fund. Þessar upplýsingar koma einnig að gagni við að meta hvort markmiðum starfsins hafi verið náð.
Má vinna með hópinn aftur?
Sértækt hópastarf fylgir ákveðnu ferli og á sér upphaf og endi sem er gott að framfylgja til að hópurinn nái að fara í gegnum öll þrep hópastarfs. Ef vinna á með hópinn aftur í sértæku starfi er gott að byrja ferlið upp á nýtt og taka það enn dýpra en áður eða vinna með ný markmið.
Hvað ef það er enginn árangur?
Sértæku hópastarfi fylgir alltaf einhver árangur þó að hann sé óljós. Árangurinn getur verið sýnilegur strax eða seinna meir. Gott er að gera mat á þátttökunni til að fá betri yfirsýn yfir árangurinn, t.d. með könnunum sem lagðar eru fyrir þátttakendur við upphaf og lok starfsins, og skrá einnig niður hvernig starfið gengur eftir hvern fund hópsins til að auðvelda mat á starfinu.
Af hverju þarf að gera formlegt mat?
Formlegt mat er gert til að safna saman upplýsingum sem geta síðan nýst til að fá yfirsýn eða dýpka skilning á stöðu hóps og einstaklinga innan hans fyrir og eftir hópastarf.
Hverjum kynni ég niðurstöður matsins?
Starfsfólki sem kemur að starfi með þeim einstaklingum sem eru í hópastarfinu. Sem dæmi má nefna foreldra, deildarstjóra, starfsmenn félagsmiðstöðva, námsráðgjafa skóla, kennara og starfsfólk miðstöðvar.
Hver eru viðmið um samskiptareglur við þátttakendur?
Í sértæku hópastarfi þarf samband hópleiðara og þátttakenda að vera gott vegna þeirrar vinnu sem fer fram. Gott er þó að halda í almenn viðmið um samskipti fyrir þátttakendur í starfinu og gott að hópurinn útbúi eigin samskiptareglur eða samskiptasáttmála.
Hvað ef hópurinn vill hittast áfram eftir að hópastarfi lýkur?
Hópurinn getur haldið áfram að hittast á formlegan eða óformlegan máta. Gott er að veita þeim aðstöðu innan félagsmiðstöðvar til að hittast og stuðning starfsfólks ef þurfa þykir.