Um eldgosið í vestmannaeyjum

Eldgos hófst á Heimaey aðfaranótt 23. janúar árið 1973 og lauk því þann 3. júlí sama ár. Eldgosið er fyrsta gosið sem hefst í byggð á Íslandi og hafði gríðarlega mikil áhrif í Vestmannaeyjum, bæði á þá sem hér bjuggu og á atvinnu og innviði samfélagsins í heild sinni.

Í Vestmannaeyjum bjuggu þann 1. desember 1972 5.273 íbúar og höfðu þeir aldrei verið fleiri. Efnahagur var betri í Vestmannaeyjum en víða annars staðar, mikla atvinnu var að fá og Eyjamenn voru með um 8.4% af útflutningsverðmæti landsins er varðaði fiskútflutning. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa aldrei verið fleiri en 5000 eftir gosið árið 1973.

Fyrstu dagarnir á fastalandinu voru erfiðir fyrir marga. Óvissan var mikil og fólk vildi fá að komast aftur til Eyja til þess að huga að eigum sínum og gera ráðstafanir með dótið sitt. Slíkt var ekki auðfengið og fengu ekki margir að fara út í Eyjar. Þeir sem fengu að fara fóru til þess að sinna björgunarstörfum og voru þeir um 200. Erfiðlega gekk að finna húsnæði fyrir alla sem flúðu Vestmannaeyjar þessa nótt og því leitaði hugur fólksins mikið heim til Eyja. Hraun og aska eyðilagði um þriðjung byggðarinnar í Vestmannaeyjum. 417 eignir fóru undir hraun í gosinu og aðrar 400 skemmdust að einhverju eða miklu leiti.

Eyjamenn fengu litlar sem engar viðvaranir dagana fyrir gosið og því kom eldgosið öllum í opna skjöldu. Ástæður þess eru eflaust ekki nægjanlega góð tæki á þeim tíma til að mæla slíka fyrirvara. Fólki sem upplifði gosið ber saman um að gosið hafi hafist um 01:55 um nóttina og að um 1700 metra löng sprunga hafi opnast í austurbænum eða austan við bæinn Kirkjubæ. Á innan við klukkutíma voru íbúar vaknaðir og byrjaðir að streyma niður að höfn. Þar sem veðrið hafði verið mjög slæmt daginn áður en gosið hófst voru margir bátar í flota Eyjamanna í landi sem auðveldaði mjög flutning á fólki frá Vestmannaeyjum. Það var í raun mikil Guðs mildi að allir íbúar skyldu bjargast þessa nótt. Einn ungur maður lést þó í mars úr gaseitrun.

Það fólk sem sinnti hér björgunarstörfum vann í rauninni þrekvirki á meðan á gostímanum stóð. Á meðal þess sem náðist að afstýra var að hraunið myndi loka höfninni. Það var mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyjar sem verstöð er varðaði fiskveiðar. Þegar gosinu lauk í júlí byrjaði mikil uppbyggingarvinna í Vestmannaeyjum þar sem allir lögðu sitt að mörkum hvort sem um var að ræða heimamenn, fullorðna, unglinga, börn eða útlendinga sem hingað komu til þess að hjálpa til.

En hvernig skyldi því fólki sem snéri aftur hafa gengið að vinna úr þeirri lífsreynslu að hafa upplifað eldgos, þurft að flýja heimilið sitt og koma aftur í algjörlega nýtt umhverfi sem var þeirra veruleiki þegar þau komu aftur til Vestmannaeyja (Árni Johnsen, 1973), (Eldheimar, 2022), (Guðjón Ármann Eyjólfsson, 1973), (Heimaslóð, 2012), (Sigurður Guðmundsson, 2013).