Inngangur

Í þessu lokaverkefni okkar við Grunnskóla Vestmannaeyja ákváðum við að skoða áhrif eldgossins í Vestmannaeyjum árið 1973 á þá sem hér bjuggu þegar gosið hófst og þá með áherslu á sálræn áhrif. Eins og kom fram í myndinni Útlendingur heima - uppgjör við eldgos eftir þau Sighvat Jónsson og Jóhönnu Ýr Jónsdóttur er alltaf talað um "fyrir gos" og "eftir gos" í Vestmannaeyjum. Við unga fólkið í dag sem erum fædd eftir gos þekkjum einungis gosið af sögum fólksins sem hér bjó, því sem við höfum lesið og okkur verið sagt. Að vissu leyti er gosið fyrir okkur sem fæddumst eftir gos sveipað smá ljóma og Vestmannaeyjar eru svolítið þekktar fyrir einmitt eldgosið árið 1973. En fyrir fólkið sem upplifði eldgosið og geymir minningar sem því fylgdu þá var þetta án efa mjög erfiður tími. Það er eflaust lítill ljómi sveipaður þeirra minningum. Margir misstu allt sitt og óvissan var mikil. Íbúarnir þurftu að flýja og höfðu í raun ekkert val. Vestmannaeyingar urðu í raun flóttamenn í eigin landi líkt og þegar fólk þarf að flýja stríðsátök. Nema í þessu tilfelli var fólkið að flýja náttúruhamfarir eða virkt eldfjall. Vi ð vitum að Vestmannaeyjar voru byggðar upp aftur og margir komu heim aftur eins fljótt og auðið var og tóku þátt í uppbyggingunni en aðrir komu aldrei aftur. Upplifun fólks af gosinu sjálfu og því sem tók við í framhaldinu er eflaust misjöfn en okkur þótti spennandi í þessu verkefni að reyna að svara þeirri spurningu hvort fólk hafi orðið fyrir sálrænu áfalli í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum og hvaða þættir höfðu þar mest áhrif? Til þess að reyna að gera því skil höfum við leitað heimilda víða, í bókum, á netinu, í myndum, blaðagreinum og safninu Eldheimum í Vestmannaeyjum. Við bjuggum einnig til könnum sem við lögðum fyrir fólk á samfélagsmiðlum sem gaf okkur glögga mynd af þeim svörum sem við vorum að leitast eftir. Að auki tókum við viðtöl við fólk á misjöfnu aldursskeiði sem upplifði eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 og fengum að heyra þeirra upplifun af gosinu. Í verkefninu segjum við í stuttu máli frá eldgosinu, skilgreinum hvað sálrænt áfall er, segjum frá þeirri neyðaraðstoð sem var í boði í gosinu, segjum frá könnuninni sem við lögðum fyrir og kynnum helstu niðurstöður hennar. Ástæðan fyrir því að við völdum þetta verkefni er sú að okkur þykir það áhugavert og í raun viðfangsefni sem okkur fannst vanta meiri upplýsingar um og þá sérstaklega fyrir okkur unga fólkið. Á síðustu árum hefur umræðan um vægi áfalla fengið meira pláss í þjóðfélagsumræðunni og skilningurinn á því aukist að áfallahjálp og sálræn aðstoð geti verið nauðsynleg fólki og haft mikil áhrif á heilsufar fólks. Eldgosið var stór atburður og hafði gríðarlega mikil áhrif á líf fólksins sem hér bjó og þar sem engar stórar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu viðfangsefni enn sem komið er þótti okkur gaman að kafa aðeins dýpra í þetta verkefni.