Lokaorð

Að vinna þetta verkefni hefur verið virkilega skemmtilegt, áhugavert og lærdómsríkt. Það er mikilvægt fyrir okkur unga fólkið að læra af sögunni til þess að hún gleymist ekki því margt af því fólki sem upplifði eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973 er ekki lengur til frásagnar. Við sem erum fædd eftir gos og höfum alist upp í Vestmannaeyjum þekkjum eyjuna einungis eins og hún er í dag. Hraunið hefur alltaf verið hluti af okkar veruleika. Það kom okkur á óvart hversu viðkvæmt eldgosið er enn í huga þeirra sem upplifðu það og því þurfum við að vanda okkur og bera virðingu fyrir tilfinningum þessa fólks. Í raun getum við sem búum í Vestmannaeyjum og höfum alist þar upp þakkað öllu því fólki sem vann ótrúlegt og óeigingjarnt starf við björgunarstörf á meðan á gosinu stóð og því fólki sem kom að uppbyggingu eyjarinnar eftir gos. Sú vinna var hálfgert kraftaverk.