Á þessari síðu er að finna uglur sem kenndar eru eftir nýjum hæfniviðmiðum frá endurskoðaðri aðalnámskrá grunnskóla 2025. Síðan er lifandi og eru uglur endurskoðaðar eftir hvert rennsli út frá endurgjöf sem nemendur gefa uglunni . Þetta er því lifandi síða að því leyti. Við reynum einnig að birta ugluvita sem við erum að þróa sem er einskonar upplýsingarit sem foreldrar fá sent og er einnig notað í innra mati skólans t.d. þegar nemendur eru beðnir að segja frá því hvað þeir hafa lært og hver eru helstu lykilhugtök úr uglunni. Ugluvitinn er nýjasti afrakstur (nýjasta afkvæmið) okkar og er í vinnslu og bætum við honum inn jafnóðum og hann verður til. Ef við höfum tök á að setja inn sýnishorn af vinnu nemenda gerum við það líka.
Við vonum að þessi verkefni verði örðum kennurum innblástur og samþættinga námsgreina verði ríkjandi í flestum skólum landsins.
Víkurskóli var stofnaður 1. ágúst 2020 sem nýsköpunarskóli og tók strax upp nýjar kennsluaðferðir. Samþætt kennsla skólans kallast ugla og er skipulögð í lotum. Í upphafi voru íslenska, samfélagsgreinar, náttúrufræði og upplýsingatækni samþætt í uglu. Haustið 2022 var náttúrufræði tekin út í 9. og 10. bekk og enska sett í staðinn. Í 8. bekk er náttúrufræði enn hluti af uglu, en enska kennd sér. Í hverjum árgangi eru því fjórar námsgreinar samþættar.
Ef þið viljið lesa meira um uglur í Víkurskóla, skoðið þessa grein á Skólaþráðum. https://skolathraedir.is/2024/01/11/uglur-i-vikurskola/
Fyrrum nemandi segir hér frá reynslu sinni af Uglu:
Ugla eru tímar sem samanstanda af íslensku, ensku, samfélagsfræði og upplýsinga- og tæknimennt. Í tímunum eru mismunandi viðfangsefni tekin fyrir sem innihalda hæfniviðmið úr öllum eða flestum þessara fjögurra faga. Tímarnir eru kenndir sex sinnum í viku og hver tími er klukkustund.
Í uglu erum við ekki í bekkjunum okkar heldur er okkur skipt upp í hópa innan árgangsins og á milli kennara. Stundum eru kennararnir með sama efnið og stundum er hver kennari með sitt eigið og þá rúlla hóparnir frá einum kennara til annars þar til allir hafa fengið sömu fræðsluna.
Það sem er gott við samþættingu kennslugreina eins og ugluna okkar er það að tímarnir eru fjölbreyttari heldur en að sitja inn í bekknum sínum í hverju fagi fyrir sig. Einnig eru námsleiðirnar svo mismunandi og enginn nemandi vinnur verkefnið eins (nema auðvitað ef við fáum þau fyrirmæli en oftast höfum við lausan taum) og okkur er leyft að nota okkar eigið hugmyndaflug.