Vefurinn Spurningaspil um átthaga lýsir þemaverkefni þar sem nemendur í grunnskóla búa til spurningaspil um heimahaga í samvinnu við kennara. Kennarar eiga að geta stuðst við hann vilji þeir fara svipaða leið í sínum skóla. Sjálf kenni ég við Grunnskóla Snæfellsbæjar og heiti Adela Marcela Turloiu. Vefurinn er liður í meistaraverkefni mínu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Hugmyndin að búa til spurningaspil um átthaga kviknaði þegar ég flutti á Snæfellsnes. Ég er leik- og grunnskólakennari og hef alltaf leitað eftir hugmyndum sem ég gæti ekki bara notað með mínum eigin börnum heldur líka með börnunum „mínum“ í skólanum. Heimatilbúið spil sem ég setti saman upp á eigin spýtur vakti mikla athygli á Fjölmenningarhátíð á Rifi fyrir nokkrum árum og ég fékk hvatningu til að halda áfram. Þar sem ég kenni átthagafræði og hef mikinn áhuga á spilamennsku ákvað ég að blanda þessu saman í lokaverkefninu mínu í sérkennslufræði við Háskóla Íslands. Ég ákvað að búa til átthagafræðispil og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara sem vilja búa til sambærileg spil með sínum nemendum.
Ég hef lengi velt fyrir mér hvað börnum af erlendum uppruna finnst um átthagafræði og hvort þau líti á staðinn sem þau búa á sem þeirra heimahaga. Í lokaverkefninu kannaði ég einnig hvaða gildi það hefur fyrir nemendur af erlendum uppruna að vinna við að búa til átthagafræðispil. Vinnan sem fylgir því að búa til spilið er fjölbreytt og þar gætu flestir nemenda í margbreytilegum nemendahópi íslenskra skóla fundið sér einhver viðfangsefni við hæfi. Kennsluleiðbeiningar fyrir kennara reyni ég líka að hafa ítarlegar. Reynt var að samþætta námsgreinar og nota mismunandi kennsluaðferðir. Það er von mín að allir grunnskólakennarar geti nýtt sér þessar hugmyndir í sinni vinnu með nemendum.
Átthagafræði er skilgreind í íslenskri orðabók sem „námsgrein í barnaskóla þar sem nemendur læra um nánasta umhverfi sitt“ (snara.is). Í skólanámskrá Grunnskóla Snæfellsbæjar (Grunnskóli Snæfellsbæjar, 2010) er átthagafræði skilgreind sem kennsla um átthaga þar sem nemendum er gefið tækifæri til að fræðast um heimaslóðir sínar með upplifun og reynslu. Kennslan í átthagafræði snýst um að nemendur takist á við raunveruleg viðfangsefni og geti tengt nýja þekkingu og færni hugmyndum um veröld sem þeir þekkja.
Grunnskóli Snæfellsbæjar. (2010). Snæfellsbær! Námskrá í átthagafræðinni. Snæfellsbær.
Snara. (e.d.). Sótt af: snara.is