Hugarkort er ein leið fyrir nemanda til að koma skipulagi á hugsun sína og setja hugmyndir og þekkingu á blað með því að teikna mynd eða kort sem lætur í ljós tengsl á milli hugtaka, meginþema og helstu hugmynda. Í vinnu við að búa til átthagafræðispilið er hugarkortið gott verkfæri til að kanna forþekkingu nemenda um viðfangsefni sem verið er að glöggva sig á. Hlutverk kennarans er að gefa nemendum nokkur stikkorð og kenna þeim að búa til hugarkort í höndunum eða til þess ætluðum hugbúnaði (Guðmundur Engilbertsson, 2013). Handgert hugarkort gefur nemanda tækifæri til persónulegri sköpunar en auðvelt er að nota hugbúnað til hugarkortasmíða (Sigrún Björk Cortes, Björgvín Ívar Guðbrandsson, Margrét Hugadóttir og Torfi Hjartarson, 2016). Sem dæmi má nefna appið Mindomo (e.d.) en finna má mörg önnur forrit eða veflæg kerfi til þessara nota. Upplýsingar á íslensku um Mindomo má sjá á vefsetri Snjallskólans (e.d.).
Guðmundur Engilbertsson. (2013). Hugræn kortagerð. Sótt af http://hugtakakort.weebly.com/kortagereth.html
Mindomo. (e.d.). Sótt af http://mindomo.com
Sigrún Björk Cortes, Björgvin Ívar Guðbrandsson, Margrét Hugadóttir og Torfi Hjartarson. (2016). Skapandi skóli: handbók um fjölbreytta kennsluhætti og stafræna miðlun. Kópavogur: Menntamálastofnun.
Snjallskóli. (e.d.). Mindomo. Sótt af http://snjallskoli.is/oppin/mindomo/