Að leiða samræður markvisst áfram er gert með því að spyrja snjallra spurninga. Spurningar þurfa að koma beint að efninu, vera nákvæmar og skýrar, en einnig stuttar, orðaðar á eðlilegu máli og höfða til þess hóps sem ætlunin er að tala til. Spurningar í átthagafræðispilinu sem nemendur búa til eru ýmist lokaðar eða opnar spurningar. Lokaðar spurningar eru hugsaðar til að rifja upp og festa í minni námsefnið sem verið er að kenna í átthagafræðinni. Opnari spurningar bjóða aftur á móti upp á einhverja kosti að velja um fyrir spilara eða túlkun sem spyrjandi getur metið með hliðsjón af þeim valkostum eða túlkunarmöguleikum sem eru í boði (Ingvar Sigurgeirsson, 1996).
Spurningar af þessu tagi hef ég hugsað mér að láta nemendur búa til fyrir samnemendur sína, opnar og lokaðar spurningar. Nemendum er kennt að búa til þess konar spurningar, eina í einu, og þeir þurfa að fá tækifæri til að læra að búa þær til. Markmið þessa hluta verkefnisins er að nemendur læri þessa flokkun og skilji eðli mismunandi spurninga.
Ingvar Sigurgeirsson. (1996). Listin að spyrja. Handbók fyrir kennara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.