Verkefni í Words

Í Words geta nemendur valið að spila einir eða sem hópur (Zen), tveir saman (Versus) eða á móti Osmo persónum (Adventure).

Þegar nemendur spila á móti hvor öðrum er sá sem situr vinstra megin með rauða bókstafi og sá hægra megin með bláa bókstafi.

Í Words pakkanum eru bæði til hástafir og lágstafir.

Áður en byrjað er að spila er farið í Library og viðfangsefni valið.

 Smellt er á verkefni sem vinna á með þannig að hak birtist yfir verkefninu. Hægt er að vinna með fleiri en eitt verkefni.

Gæta skal þess að skoða hvort verkefni neðar á síðunni er með haki því þá bætist það við verkefnið sem á að vinna með og hefur áhrif á vinnuna. Til að taka hak af verkefni er smellt á verkefnið.

Það er hægt að nota tilbúin verkefni í Featured og Other Languages.

Til að sækja verkefni á myOsmo er smellt á Download More At myOsmo. Verkefni sem kennarar hafa búið til á myOsmo og sótt birtast í Mine. Þegar smellt er á verkefnið þar færist það í Installed og hleðst inn til notkunar.

Kennari getur búið til verkefni í myWords og sniðið þau t.d. að námsgrein, bók eða þema.

Kennari skráir sig inn á myOsmo og velur myWords. 

Þegar þangað er komið eru tveir flipar; Discover en þar eru tilbúin verkefni sem hægt er að sækja og myAlbums þar sem kennari getur búið til verkefni.

Í Discover eru verkefni frá öðrum kennurum heimsins. Hægt er að leita eftir tungumáli en íslenskan er ekki komin þar inn. 

Til að finna verkefni sem íslenskir kennarar hafa deilt þarf að leita eftir merkingum (Search Tags). Þá eru leitarorð skrifuð í leitargluggann, s.s. islenska, Icelandic, fatnadur, heimili, graenmeti. Íslensk verkefni geta líka verið merkt með enskum merkingum.

Ef kennarar vilja deila verkefnum með kennurum landsins er mikilvægt að nota merkingar (Tags) við verkefnagerðina.

Mín verkefni eru merkt (tags) Unnurvalgeirs.

Þegar smellt er á flipann myAlbums sérðu möguleikann að búa til verkefni (+ Create New Album). 

Private - Albums made by me: Þarna birtast verkefni sem þú og samstarfskennarar búa til. Þarna kemur ástæða þess að gott er að vera með sameiginlegan aðgang því ef hver og einn kennari er með sinn aðgang að Osmo eru verkefni sem búin eru til bara hjá þeim.

Shared with me - Private albums sent by friends: Þarna birtast verkefni sem deilt hefur verið með netfanginu, t.d. frá kennara sem er með eigin aðgang.

1. Kennari velur + Create New Album og setur heiti á verkefnið í Untitled Album.

2. Kennari smellir á + Add Image til að setja inn myndir. Það er hægt að smella á Upload og hlaða inn myndum úr tölvunni eða smella á unsplash.com en þar eru myndir í góðum gæðum sem öllum er frjálst að nota með leyfi eigenda myndanna.

Ef velja á myndir af netinu er gott að vera búin/n að finna myndir og hlaða niður í tölvuna. Þetta getur tekið tíma þar sem finna þarf myndir í réttri stærð en myndirnar þurfa að vera í skammsniði (Portrait) til að þær passi vel á skjá iPad-sins. Ef myndir eru of stórar klippist af þeim og ef þær eru of litlar verða þær teygðar.

Það er mjög gott að útbúa skjal (Docs eða Word) í A5 stærð og raða einni mynd á hverja síðu. Þannig má stilla myndir af, finna rétta stærð o.s.frv. Síðan er fljótleg að opna skjalið í spjaldtölvu og taka skjámynd af hverri síðu.

Ef verkefnið er unnið í iPad er hægt að velja myndir af netinu sem henta með því að taka skjámyndir.

Ef kennari er tilbúinn með margar myndir er hægt að hlaða þeim öllum inn í einu.

Til að skrifa orð við myndirnar er smellt á Edit hnappinn sem birtist á hverri mynd. 

Kennari velur hvaða orð hann vill nota, eitt eða fleiri. Settur er svigi utan um stafi sem kennari vill gefa upp eða hann er ekki til í bókstafasettinu sem notað er til að spila leikinn.

Kennari getur valið að setja erfiðleikastig (Difficulty) á orðin; auðvelt, miðlungs, erfitt og mjög erfitt. Í Words leiknum getur þú látið nemendur stilla erfiðleikastig t.d. ef þú merkir orðin miðlungs fyrir yngri nemendur en notar erfiðari orð fyrir eldri. Þú getur sem sagt notað sama verkefnið fyrir mismunandi aldur.

Í tannhjólinu er mögulegt að lagfæra myndina, velja hana sem forsíðumynd verkefnisins / albúmsins, skipta henni út fyrir aðra eða eyða henni.

Þegar búið er að setja inn myndir (lágmark 5 myndir) og skrifa orðin er verkefnið tilbúið. 

Það er alltaf hægt að bæta fleiri myndum við verkefni. Ef verkefni er breytt eftir að það hefur verið sótt í Download More At myOsmo og hlaðið úr Mine í Installed þá þarf að eyða því úr leiknum með því að ýta á ruslatunnuna á verkefninu (færist úr Installed í Mine). Eftir breytingar er smellt á það í Mine og þá hleðst nýja útgáfan í Installed.

Það er ekki gaman að spila Words nema það séu margar myndir annars verður leikurinn stuttur / einfaldur.

Ef þú ert í myOsmo í iPad getur þú sett verkefnið inn með því að smella á Add to Words game.

Ef þú vannst verkefnið í tölvu þarftu að fara í Words í iPad og hlaða því inn í Download More At myOsmo.

 Ef þú vilt birta verkefnið (Make Public) verður þú að merkja verkefnið (+ Add Tags) til að auðvelda öðrum kennurum landsins að finna það og nota.

Að lokum er mjög gott þar sem sameiginlegur aðgangur er að nota Drive og búa til myndamöppur. Það tekur langan tíma að finna myndir við hæfi og því flýtir það verulega fyrir ef hægt er að sækja myndir sem búið er að safna saman. Sem dæmi ef kennari safnar saman myndum sem tengjast fatnaði og fylgihlutum geta kennarar búið til verkefni í íslensku, ensku og dönsku með þeim myndum.

ÞETTA ER EINFALT ÞRÁTT FYRIR LANGA ÚTSKÝRINGU - ÉG LOFA!

Gangi þér vel og njóttu með nemendum þínum.

NÝTT NÝTT NÝTT!

Orðaleikur er námsefni fyrir börn af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku sem annað mál en námsefnið getur nýst á fjölbreyttan hátt í leikskólastarfi og fyrir alla sem vilja læra einfaldar og fjölbreyttar aðferðir til að efla orðanám barna. Námsefnið miðar að því að kenna grunnorðaforða íslenskunnar á fjölbreyttan hátt og mynda þannig krækjur til að kenna flóknari orð. Námsefnið samanstendur af handbók um orðanám, kennsluleiðbeiningum, myndasafni og rafrænum verkefnum. Það er notendum að kostnaðarlausu og aðgengilegt á vef. Höfundar námsefnisins eru Rannveig Oddsdóttir og Íris Hrönn Kristinsdóttir í samstarfi við leikskólann Iðavöll á Akureyri. Inga María Brynjarsdóttir myndlistamaður teiknar myndirnar. Námsefnið er styrkt af Þróunarsjóði námsgagna. 

Myndasafnið skiptist í þemu: leikskólinn, dagskipulag, athafnir, ávextir, dýr - sem búa á Íslandi, dýr - sem búa úti í heimi, farartæki, form, fólk, föt, grænmeti, gæludýr, heilsa, leikföng, litir, líkaminn, matartímar, matur, mynstur, samfélag, skóli, staðsetningar- og afstöðuhugtök, starfsheiti, tilfinningar og líðan, umhverfið inni, umhverfið úti, útileiksvæði, veður, ævintýrapersónur, jólin

Stórar myndir: uppákomudagar

Myndaraðir: svefnrútína, baka heima