Markmið okkar með Osmo kennsluefninu er að börnin öðlist tæknilæsi, fái að læra með leik og með því að gera sjálf. Tölvuleikir eru ákveðin gerð gagnvirkra leikja sem geta kennt okkur ýmislegt um markmið, reglur, aðlögun og/eða hvernig eigi að leysa vandamál. Notkun tölvuleikja í skólastarfi felst einfaldlega í því að nemendur spili tölvuleiki til að læra af því. Markmið okkar er að útskýra vel að tilgangur verkefnisins sé að þekkja stafina og hljóðin með hjálp myndanna sem birtast með og að leikir eins og þessir geta hjálpað nemendum að muna námsefnið betur.
Við völdum að vinna með alla grunnþætti menntunar: læsi, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni og sköpun. Okkar markmið er að börnin verði tæknilæs þar sem við lifum á tækniöld og er það réttur hvers og eins að fá að taka þátt í stafrænu samfélagi. Það teljast til almennra mannréttinda að hafa aðgengi að tæknimenntun og stafrænni tækni á jafnréttisgrundvelli. Einnig teljum við mikilvægt að vinna með heilbrigði og velferð í þessum þætti þar sem mikilvægt er að börnin hlúi vel að sjálfum sér og öðrum, gangi vel um umhverfið sitt og þannig læra börnin að ganga vel um sameiginlegan kennslubúnað sem þarf að hugsa vel um svo kennslubúnaðurinn dugi okkur til lengri tíma.
Við teljum að börn læri best í gegnum leik og að Osmo sé dæmi um slíkt verkfæri, heimurinn er í stöðugri þróun og er sífellt að breytast. Við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum og eina örugga leiðin til þess að afla nýrrar þekkingar er að gera tilraunir. Þar af leiðandi teljum við að börn læri því mest af því að upplifa og fá að gera sjálf, bæði í gegnum leik og daglegar athafnir og er það ástæða þess að við veljum að nota Osmo í kennslu, til að vekja áhuga og gera námið skemmtilegt. Okkur þykir mikilvægt að vinna með tæknina í skólastarfinu og við teljum að allir nemendur eigi að hafa jafnan rétt og greiðan aðgang að upplýsingatækni og stafrænni tækni. Sterkar vísbendingar eru um að áherslur í nýtingu upplýsingatækni í námi og kennslu séu að færast frá því námsefni sem er hannað fyrir skóla í átt til ýmiss konar efni sem má finna á netinu, einnig er vaxandi munur á milli samfélagshópa og skóla sem geta haft áhrif á nýtingu upplýsingatækniog viljum við sporna við vöxt á þeirri gjá sem hefur myndast á milli þessara hópa með því að búa til tækifæri til að innleiða tækni í skólastarfi og auka við stafræna námsefnisbankann.