Tekið var viðtal við Stefán Jóhannsson, fyrrum kennara og skólastjóra í Alþýðuskólanum á Eiðum. Á þeim tíma stofnaði hann og rak Tölvuskólann á Eiðum sem verður að teljast hafa verið á undan sinni samtíð. Stefán hefur starfað við Háskólann á Akureyri síðan 1997, m.a. sem skrifstofustjóri, forstöðumaður kennslusviðs, sem sérfræðingur í upplýsingatækni 2003-2012 og er núverandi sérfræðingur gagnagreiningar við skólann.
Stefán hefur verið í hringiðu tækni og menntunar frá því fyrsta tölvan leit dagsins ljós og er hafsjór af fróðleik um upplýsingatækni og beitingu hennar í kennslu. Við það að hlusta á frásagnir Stefáns teljum við auðsýnt að um er að ræða leiðtoga og frumkvöðul samkvæmt evrópska hæfnirammanum, DigCompEdu. Hann hefur gegnum tíðina horft gagnrýnum augum á stafrænar lausnir og verið drífandi í því að nýta tækni til að endurbæta menntun. Hann hefur tekið þátt í þróun upplýsingatækni og verið öðrum hvatning og miðlað þekkingu sinni til annarra (Redecker, 2017, bls. 30).
Í fyrsta hlutanum lýsir Stefán upphafinu og því hvernig fyrstu kynni hans af tölvum í skólastarfi voru allt þar til framhaldsskólarnir fengu "tölvugjöf" frá Menntamálaráðuneytinu.
Þegar hér var komið sögu var notagildi tölvunnar að koma í ljós, ekki síst með tilkomu ritvinnslu og töflureikna, og að möguleiki væri á að kenna notkun á tölvunni frekar en að forrita hana. PC-tölvan (Personal Computer) var að ná yfirhöndinni og því stóð Alþýðuskólinn á Eiðum frammi fyrir áskorun, hafandi fengið það sem Stefán kallaði ,,úreltar" tölvur frá ráðuneyti Menntamála.
Eins og Stefán kom inná var innleiðing á tölvum í framhaldsskólum landsins að mörgu leyti gölluð, ekki síst þar sem tölvubúnaðurinn sem fyrir valinu varð var í raun orðinn úreltur. Segja má að það sé afleiðing af því þeir sem voru að vinna í grasrótinni voru ekki hafðir nægilega með í ráðum þegar valdar voru tölvur til að kaupa.
Í næsta myndbroti lýsir Stefán því þegar Háskólinn á Akureyri hóf að bjóða uppá fjarkennslu, fyrst í hjúkrun en síðan í viðskiptafræði. Fyrst um sinn var um að ræða fjarkennslu í beinni, þ.e. beinar sjónvarpsútsendingar voru sendar á Ísafjörð og síðar í Egilsstaði.
Tækninni fleygir fram og með tilkomu internetsins verða breytingar á staðnámi jafnt sem fjarnámi mögulegar. Stefán lýsir hér fyrir okkur því hvernig íslenskir skólar tóku að nota kennsluumsjónarkerfi eða námsumsjónarkerfi á ensku kallað Learning Management Systems (LMS). Undir lok þessa myndbands segir Stefán okkur hvaða tæknibylting hafi skipt mestu fyrir nám og kennslu.
Stefán var virkur þátttakandi í innleiðingu og þróun námsumsjónarkerfa í Háskólanum á Akureyri. Í næsta myndbandi segir hann sína skoðun á því hvers vegna innleiðing þessara kerfa gekk jafn vel og reyndin varð.
Hér viljum við staldra við og fjalla örlítið nánar um það sem Stefán segir frá varðandi innleiðingu á Moodle í Háskólanum á Akureyri árið 2007. Hann segir að það hafi verið dæmi um jákvæða innleiðingu. Hann segir það hafa skipt sköpum að hafa “lykilkennara” með þeim í liði. Það voru kennarar sem höfðu teygt sig langt með að nota alla möguleika Blacbord og voru því tilbúnir að prófa nýtt kerfi með öllu þeim möguleikum sem það hafði uppá að bjóða. Fyrsta árið var Moodle og Blackboard samkeyrt svo að þeir sem ekki voru tilbúnir að skipta gætu haldið áfram með það sem þeir þekktu og tækniþyrstir kynntust nýja kerfinu. Að samkeyrslu árinu loknu gátu kennarar sem voru búnir að nota Moodle í eitt ár kynnt alla nýju möguleikana fyrir hinum kennrunum.
Morel og Spector (2023) benda á að þegar ný tækni til menntunar er tekin í notkun, sé mikilvægt að huga vel að þeim sem munu styðja við notkun hennar, þá sérstaklega kennara. Til að tryggja árangur af tækninýjungum verður rétt þjálfun kennara að vera í forgangi. Að auka á álag kennara við að innleiða nýja tækni getur skapað gremju og neikvæð viðhorf. Að nálgast kennara sem fagfólk og veita nægan tíma og stuðning þegar innleiðing á sé stað ætti að vera forgangsatriði fyrir farsæla innleiðingu á nýrri tækni við menntun (bls. 147).
Morel og Spector (2023) segja einnig að í ljósi þeirra flóknu þátta sem fylgja skipulagningu á árangursríkri kennslu, fjölbreytileika tæknilausna og fjölmargra kennsluúrræða sem nú séu til staðar, sé það áskorun fyrir alla að nýta tæknina á árangursríkan hátt í kennslu. Það er engin einföld leið til að ná árangri í kennslu með tækninni. Þeir telja því mikilvægt fyrir kennara að vera sveigjanlegir og opnir fyrir mismunandi lausnum (bls. 145).
Líkt og fram hefur komið er Stefán hokinn af reynslu í sambandi við tækni og menntun. Hvað segir hann um það sem er að gerast núna? Er hægt að læra af reynslu af fyrri tæknibyltingum þegar hugað er að því hvernig menntakerfið tekst á við gervigreind?
Við þökkum Stefáni hjartanlega fyrir að taka sér tíma til að ræða við okkur um þetta málefni. Eflaust kemur einhverjum á óvart hvaða tækninýjung hann taldi hafa haft mest áhrif á skólastarf. Sjálf hefðum við talið að tölvurnar sjálfar, internetið eða snjalltæknin hefði orðið fyrir valinu.
Hér neðan máls er örlítið aukaefni til gamans þar sem Stefán segir skemmtilega frá aðstæðum í árdaga internetsins. Kópasker kemur mikið við sögu.