Þegar Stefán er spurður um hvað sé að hans mati helsta tæknibyltingin í menntamálum þá telur hann tilkomu kennslukerfa/námsumsjónarkerfa vera helstu byltinguna fyrir bæði nemendur og kennara. En hvað eru námsumsjónarkerfi (e. learning management systems)? Hér munum við fara yfir sögulega þróun þeirra, mismunandi gerðir og verkfæri innan þeirra. Hvaða kerfi hafa verið mest notuð, kosti og áskoranir og að lokum um hlutverk þeirra í samkeppnisumhverfi háskóla.
Söguleg þróun námsumsjónarkerfa
Fahad Taha Al-Dhief og félagar (2024) ræða um að kerfi til að halda utan um nám hafi þróast mikið síðan þau komu fyrst fram á níunda áratug síðustu aldar. Upphaflega voru þetta einföld kerfi, hönnuð til að auðvelda utanumhald um námsefni og samskipti á milli kennara og nemenda. Með auknum tækniframförum hafi þessi kerfi orðið fjölbreyttari og flóknari.
Þeir tala um tvær tegundir hugbúnaðar í námsumsjónarkerfum:
Vefmiðaðan hugbúnað (e. web-based software)
Hugbúnað í skýinu (e.cloud-based software).
Fyrir samskiptamöguleika í námsumsjónarkerfunum skipti innkoma internetsins sköpum (bls. 351).
Ennfremur kemur fram hjá þeim að árið 1990 kom fyrirtækið SoftArc fram með hugbúnaðarkerfið FirstClass. Þetta var fyrsta námsumsjónarkerfið og var upphaflega þróað sem samskiptakerfi og netþjónn. Það hafði marga gagnlega eiginleika fyrir samvinnu og fjarskipti eins og spjallborð og netpósta og var meðal annars notað til að halda netráðstefnur (bls.351).
Eins og hér hefur verið lýst þá var FirstClass sérstaklega hannað fyrir samvinnu og fjarskipti innan stofnana, skóla og fyrirtækja. Kerfið studdi bæði staðnám og fjarnám og bauð upp á samvinnu og hópavinnu nemenda á netinu. Í kjölfarið komu þau námsumsjónarkerfi sem Stefán talar um að hafi skipt sköpum fyrir nám og kennslu hér á landi og um heim allan. Fahad Taha Al-Dhief og félagar (2024) tala um að námsumsjónarkerfi (e. learning management systems) oft skammtafað LMS sé almennt hugtak sem sé mikið notað til að skilgreina mismunandi kerfi og að þau veiti ýmsa fræðsluþjónustu á netinu fyrir nemendur, kennara og stjórnendur (bls. 351).
Mismunandi gerðir námsumsjónarkerfa
Fahad Taha Al-Dhief og félagar (2024) fjalla um þrjár mismunandi gerðir námsumsjónakerfa og hvaða eiginleika hvert þeirra hefur.
Nemendastjórnunarkerfi (e. Student Management System) eru algeng og mikilvæg netkerfi í háskólum og öðrum menntastofnunum. Þess háttar kerfi eru hönnuð til að stjórna og halda utan um upplýsingar og gögn um nemendur. Þessi kerfi bjóða upp á grunnþjónustu sem tengist námskeiðum, prófum, umsóknum, einkunnum og greiðslum. Tvö algeng þess háttar kerfi sem hafa verið mikið notuð í háskólum eru Banner og PeopleSoft.
Námsefnisstjórnunarkerfi (e. Learning Content Management System) er hugbúnaður sem er notaður til að búa til, breyta og stjórna rafrænum námsgögnum. Þetta kerfi er talið eitt það mest notaða innan menntunar. Það gefur kennurum möguleika á að búa til, geyma, stjórna og endurnýta stafrænt námsefni úr safni gagnahluta. Kerfið býður kennurum upp á verkfæri til að senda frá sér verkefni, annað hvort samstillt eða ósamstillt, eftir því hvaða kennsluaðferð er notuð. Námsefnisstjórnunarkerfi innihalda gagnasöfn sem kallast námsefnisgeymslur (e. learning content repository objects), þar sem verk kennara eru varðveitt. Þessir gagnagrunnar eru aðgengilegir öðrum kennurum til að þróa nýtt námsefni, bæta við námskeiðum, uppfæra efni og nota samvinnuverkfæri til að kennarar og nemendur geti unnið saman.
Stjórnunarkerfi fyrir efni (e. Content Management System) má lýsa út frá þremur þáttum; ferli, efni og hugbúnaði/tækni. Ferli lýsir sér sem safn af aðgerðum sem hafa þau markmið að meðhöndla innslátt og skila útkomu, eins og að deila upplýsingum, birta efni eða hlaða niður skjölum. Efni getur verið meðhöndlað og getur verið af ýmsu tagi, þar á meðal hljóð, myndir, myndbönd, texti, hreyfimyndir og önnur form fjölmiðla. Hugbúnaður/tækni vísar til tækni sem er notuð við að framkvæma ferli fyrir notendur, ásamt því að stjórna efni á internetinu.
Mismunandi verkfæri í námsumsjónarkerfum
Í grunninn eru þrjú mismunandi verkfæri (e. tools) til staðar í námsumsjónarkerfum og þjóna þau mismunandi hlutverkum.
Námsfærni (e.learning skills tools)
Í þessari einingu eru mismunandi verkfæri sem eru til staðar í námsumsjónarkerfum. Þessar einingar innihalda meðal annars, námslotueiningu (e. learning module) sem notuð er til að búa til námslotur og verkefni fyrir nemendur, prófaeiningu (e. quizzes module) sem hefur ýmsa virkni, þar á meðal matskerfi, svörunarkerfi, gagnagrunn fyrir spurningar og verkfæri til að auðvelda nemendum að meta árangur sinn. Þeir tala einnig um verkefnaeinigu (e. assignments module) þar sem kennarar geta hlaðið upp verkefnum og nemendur geta unnið að, breytt þeim og skilað fyrir eða á tilsettum tíma. Að lokum tala þeir um rafræna kynningareiningu (e. online presentation module) sem gerir notendum kleift að hlaða upp kynningum eða tengja þær vefsíðum eins og YouTube.
Samskipti (e. communication tools)
Í Þessari einingu eru verkfæri sem auðvelda samskipti milli nemenda, sem og samskipti milli kennara og nemenda. Helstu samskipta verkfærin eru tilkynningar sem eru mikið notaðar til að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri til allra nemenda. Þetta geta verið upplýsingar um áfanga, komandi verkefni eða viðburði, og nýjustu fréttir. Umræður eru einnig hluti af samskipta verkfærunum sem gera kennurum kleift að halda fyrirlestra og nemendum kleift að setja inn innlegg, lesa athugasemdir frá öðrum og svara skilaboðum.
Framleiðni (e. productivity tools)
Í þessari einingu eru verkfæri sem innihalda dagatöl, skjalastjórnunarkerfi, kannanir og önnur þjónustutæki sem bæði nemendur og kennarar geta nýtt sér. Skjalastjórnunarkerfi (e. document management systems) gera nemendum og kennurum kleift að hlaða niður og hlaða upp skrám af tölvum sem tengdar eru við internetið. Í námsumsjónarkerfum eru önnur stjórnunarverkfæri sem safna upplýsingum um fjölda nemenda sem hafa aðgang að kerfinu og árangur þeirra. Flestir nemendur geta skoðað framvindu sína í námi og fengið nánari upplýsingar um einkunnir í verkefnum og prófum (Al-Dhief et al., 2024, bls. 352).
Uppbygging Námsumsjónarkerfa (Balogh, 2011)
Námsumsjónarkerfi sem hafa verið mest notuð
Í viðtalinu við Stefán talar hann um þau námsumsjónarkerfi sem hann telur að hafi gagnast íslensku menntakerfi vel. Þau kerfi sem hann telur upp eru WebCT, Blackboard, Moodle og Canvas.
Al-Dhief og félagar (2024) fara yfir þau námsumsjónarkerfi sem hafa verið mest notuð á alþjóðavísu.
Blackboard var stofnað af Michael Chasen og Matthew Pittinsky árið 1997. Frá árunum 1998-2004 hefur Blackboard keypt upp ýmis fyrirtæki í menntageiranum til að tryggja stöðu sína á markaðnum, þar á meðal WebCT. Blackboard innheimtir skrásetningargjöld, gjöld til að endurnýja áskriftir og ýmis aukagjöld fyrir fleiri möguleika innan kerfisins. Blackboard er því hagnaðardrifið fyrirtæki.
Moodle var stofnað af Martin Dougiamas árið 1999 og fyrsta útgáfan sem var kölluð Moodle 1.0 var komin á markað árið 2002. Það sama ár var Moodle-þjónninn staðsettur í Vísinda- og stærðfræðimenntasetrinu við Curtin-háskólann í Perth, höfuðborg Vestur-Ástralíu. Moodle er opinn hugbúnaður og ókeypis, þar sem notendur þurfa hvorki að borga skráningargjöld né árleg endurnýjunargjöld.
Desire to Learn (D2L) var stofnað af John Baker árið 1999. D2L er eins og Moodle opinn, ókeypis og skýjamiðaður hugbúnaður.
Canvas var stofnað af Josh Coates árið 2008 og notað í fyrsta sinn árið 2011. Árið 2012 var hugbúnaðurinn upphaflega kallaður Instructor, en seinna var ákveðið að breyta nafninu í Canvas. Þetta er hugbúnaður sem er aðgengilegur á netinu (bls. 353).
Stefán minnist ekki á Desire to learn (D2L) og við finnum engar heimildir fyrir því að það hafi verið notað á Íslandi. Ekki er talað um WebCT nema að því leyti að það hafi verið keypt af Blackboard eins og Stefán kom inná í viðtalinu.
Helstu kostir námsumsjónarkerfa
Fahad Taha Al-Dhief og félagar (2024) ræða kosti námsumsjónarkerfa og segja þá marga og mikla.
Fyrir það fyrsta þá gera kerfin nemendum og kennurum kleift að vinna saman óháð tíma eða staðsetningu. Þetta gerir nám einnig aðgengilegt fyrir nemendur sem búa á afskekktum svæðum eða geta ekki stundað staðnám heilsu sinnar vegna.
Kerfin eru líka gagnleg fyrir nemendur og vísindamenn sem stunda rannsóknir og nám á mismunandi háskólasvæðum en tilheyra sama háskóla.
Að auki gera kerfin nemendum kleift að hafa aðgang að námsefni og átt samskipti jafnvel með sínum eigin tölvum, snjalltækjum og öppum.
Annar mikilvægur kostur er að námsumsjónarkerfin bjóða upp á aðlaðandi námsumhverfi, þar sem notkun tölvuleikja er oft samþætt til að auka áhuga ungra nemenda.
Síðast en ekki síst reyna þróunaraðilar stöðugt að bæta kerfin til að mæta þörfum notenda og tryggja að allir eiginleikar séu aðgengilegir og uppfærðir reglulega (bls. 353-354).
Morel og Spector (2023) segja að hönnun sé markmiðamiðað fyrirbæri. Hlutirnir séu hannaðir til að gera notkun auðvelda og skemmtilega (bls. 163). Það má segja að það séu kostir sem eigi við hönnun á námsumsjónarkerfum.
Helstu áskoranir námsumsjónarkerfa
Helstu áskoranir sem tengjast námsumsjónarkerfum og hvernig kerfin geti stutt við háskólamenntun eru að mati Al-Dhief og félaga (2024) nokkur og segja má að þær séu flestar af geo-pólítískum toga. Háskólamenntun spilar stórt hlutverk í efnahagslegri þróun landa, þar sem tækniþróun stuðlar að aukinni framleiðni og bættum lífsgæðum. Þróuð lönd leggja mikið upp úr háskóla- og sérfræðimenntun til að þróa færni fólksins og er nauðsynleg á vinnumarkað á hverjum tíma fyrir sig. Hins vegar benda þeir á að í þróunarlöndum eins og í Afríku sé menntunarstigið enn mjög lágt. Tölfræði frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) sýnir að þróuð lönd eins og Kanada, Bandaríkin og Bretland hafi meira en helmings hlutfall af innskráningum í háskóla, á meðan hún er undir 5% í þróunarlöndum. Þetta skapar hættu á að þróunarlönd verði skilin útundan og missi af nauðsynlegri færni sem er krafist á 21. öldinni, ef þau ná ekki að bæta aðgengi að háskólamenntun (bls.354). Af þessu má því ætla að bætt aðgengi menntastofnana að námsumsjónarkerfum gæti eflt menntunarstig vanþróaðra landa eins og þeirra sem finnast í Afríku.
Samkeppnishæfni háskólamenntunar og hlutverk námsumsjónarkerfa
Að lokum vilja Al-Dhief og félagar (2024) benda á að markaður háskólamenntunar sé orðinn mjög samkeppnishæfur og að námsumsjónarkerfi hafi sannað hlutverk sitt. Þeir segja að kerfin séu sveigjanleg og aðlagi sig sífellt að nýjum tæknilausnum. Gæði menntunar og rannsókna séu grunnþættir í rekstri hvers háskóla og þar gegni tæknilausnir eins og námsumsjónarkerfi lykilhlutverki (bls.357).
Það má því segja að Stefán og greinarhöfundar séu sammála um að tilkoma námsumsjónarkerfa hafi verið mikið framfaraskref fyrir gæði náms og kennslu um heim allan og ekki síst hér á Íslandi.