Þessi tímalína er að hluta byggð á viðtalinu við Stefán Jóhannsson, að hluta á okkar eigin reynslu og þekkingu og að síðustu á bókinni 25 years of EdTech eftir Martin Weller (2020).
Tekið skal fram að tímasetningar og ártöl eru viðmið en flestar nýjungar komu fram yfir ákveðið tímabil. Því skyldi ekki taka einstökum ártölum of alvarlega.
Tækninni hefur fleygt fram síðustu 50 ár og virðist hraði framþróunar vera að aukast frekar en hitt. Menntakerfið fer ekki varhluta af þeim breytingum og margar af þeim tækninýjungum sem fram koma í samfélaginu finna sér leið inn í skólastarf, jafnvel áður en fólkið sem starfar í skólunum gerir sér grein fyrir því eða er undir það búið.
Áður en fyrsta tölvan, og sú tækni sem fylgdi í kjölfarið, kom fram á sjónarsviðið var kennarinn þungamiðja kennslunnar og kennslan var fyrst og fremst háð færni hans og þekkingu (del Campo et al., 2012, bls. 2). Með aukinni útbreiðslu á tækni og í raun sífellt þróaðri tækni hefur hlutverk kennarans og starf hans breyst. Nám og kennsla hefur þróast frá því að vera kennaramiðað yfir í það að vera meira nemendamiðað. Nemandinn í tæknivæddu skólastarfi er virkari þátttakandi í sínu námi (del Campo et al., 2012, bls. 4).
Þótt þessar tækninýjungar hafi breytt miklu þá er ennþá eitthvað sem er eins. Kennarar og nemendur hittast ennþá í skólastofum, þó þeir geti og hittist líka í netheimum. Enn eru notaðar kennslubækur þó nánast allt efni sé aðgengilegt á rafrænu formi, á netinu eða jafnvel í sýndarveruleika. Kennarar hafa sama aðgang og nemendur að bókum en til viðbótar aðgang að miðlum til að búa til sitt eigið efni og safna því í námsumsjónarkerfum. Þó nemendur mæti ennþá flestir í skóla, sama á hvaða aldri þeir eru, geta þeir sinnt náminu heima í gegnum netið og tengst hver öðrum gegnum samfélagsmiðla. Kennarar skrifa ennþá upp á töflur, bjóða gestum að koma og tala við nemendur, skipuleggja vettvangsferðir en eyða mestum tíma sínum í skólastofunni með nemendum. Til viðbótar nota nú flestir kennarar skjávarpa meira til að koma upplýsingum til nemenda, geta fengið gesti rafrænt inn í stofuna og skipulagt vettvangsferðir í sýndarveruleika (Frick, 2020, bls. 695-697).
Eins og fram hefur komið hefur mikið af þeirri tækni sem sjá má á þessari tímalínu breytt, auðveldað og einfaldað starf kennarans. Má þar nefna sérstaklega ritvinnslu, internet og námsumsjónarkerfin sem Stefán Jóhannsson fjallaði um í viðtalinu sem er að finna hér á þessum vef. Því lengra sem þróunin hefur náð hafa hlutverkin breyst og nútíma stafræn verkfæri eins og gervigreind hefur nú þegar breytt miklu, t.d. hvað varðar möguleika kennara til að einstaklingsmiða nám og endurgjöf, skipuleggja kennslu og útbúa verkefni við hæfi nemenda (Bettayeb et al., 2024, bls. 13).
Það gefur augaleið og hefur verið reyndin að kerfið, fólkið sem þar starfar og námskrárnar sem skólastarf byggir á hefur á köflum ekki náð að halda í við hraða breytinganna. Ný Aðalnámskrá Grunnskóla tók gildi árið 2011, um það leyti sem skýjalausnir voru að koma fram og internetið var orðið rótgróinn hluti af skólastarfi. Þó sumir gætu velt fyrir sér hvort hún sé orðin úrelt vegna þeirrar tækniþróunar sem síðan hefur orðið má færa rök fyrir því að í henni finnist ákveðnir þættir sem gera það að verkum að hún getur og hefur staðið af sér mögulega mestu tæknibreytingar sögunnar. Með grunnþáttum menntunar á borð við læsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi og sköpun (Mennta- og menningamálaráðuneytið, 2011, bls. 16) rúmast flestar þær breytingar á skólastarfi sem orðið hafa vegna tækninýjunga frá útgáfu Aðalnámskrár grunnskóla. Lykilhæfnin, sem einnig var kynnt til sögunnar í sömu námskrá, stenst einnig tímans tönn og girðir í raun fyrir það að ný tækni geri hana á einhvern hátt úrelta. Þar segir: ,,Lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þrosa hans" (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 86). Þær tækninýjungar sem komið hafa fram í menntun síðan 2011 hafa í raun styrkt frekar dregið úr mikilvægi lykilhæfni um tjáningu og miðlun, skapandi og gagnrýnni hugsun, sjálfstæði og samvinnu, nýtingu miðla og upplýsinga og ábyrgð og mat á eigin námi (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2013, bls. 86).
Við viljum ganga svo langt að halda því fram að tilkoma lykilhæfninnar, grunnþátta menntunar og áhersla á einstaklingsmiðað nám hafi varið námskrána fyrir ófyrirsjáanlegum breytingum og geri það að verkum að sífelldrar endurskoðunar sé ekki þörf.