Kennsluáætlun fyrir fjarkennslunámskeið í grímugerð fyrir 8. - 10. bekk
Kennarar:
Ásrún Ágústsdóttir & Kristín Klara Gretarsdóttir
Lengd verkefnis:
Fjarkennslan fer fram í 4 skipti, 2x40 mínútur í senn. Samtals 8, 40 mínútna kennslustundir. Þess utan vinna nemendur sjálfstætt heima eins og þörf krefur.
Verkefnalýsing:
Nemendur velja tilfinningu og búa til grímu sem túlkar valda tilfinningu. Tilfinningunni er umbreytt í myndmál og henni lýst með útliti, lögun og áferð grímunnar. Aðferð og efnisval er frjálst og opið. Hvatt er til endurnýtingar efnis sem fellur til á heimilinu.
Nemendur sýna grímuna í lok námskeiðs og segja frá vinnuferlinu og túlkun sinni á valdri tilfinningu.
Grímur eru notaðar í margvíslegum tilgangi. Þær eru nýttar til að hylja, til að vernda, fela sig og þykjast vera annar. Þær eru notaðar í helgiathafnir, við frásagnir og í sviðslistum.
Að búa til grímur býður uppá tækifæri til að kanna þá persónu eða tilfinningu sem viðkomandi annað hvort afhjúpar eða felur fyrir umheiminum.
Hæfniviðmið:
Að nemendur geti...
unnið sjálfstætt eftir vinnuferli frá hugmynd til lokaafurðar og greint frá mismunandi nálgun við vinnuna.
sýnt útsjónarsemi og lausnamiðaða hugsun við úrlausn viðfangsefnisins
tekið leiðsögn og gagnrýni á uppbyggilegan hátt og að sama skapi sett eigin gagnrýni uppbyggilega fram.
skilið hvað felst í hugtökunum huglægt og hlutlægt.
nemendur geti skoðað tilfinningar út frá jafnréttismálum og sett sig í spor annara
nemendur þjálfist í að túlka huglægar tilfinningar yfir í hlutlægt form
auka skilning nemenda á hugtökum tengd myndlist og samfélagi okkar
nemendur þjálfist í læsi myndmáls sem og tilfinningalæsi
Kennslan er fjarkennsla þar sem aðgengi að öllu námsefni er á netinu.
Tímar með nemendum og kennara eru kenndir í gegnum forritið Microsoft Teams.
Námsefnið verður skoðað með heimspekilegri nálgun og hvernig tilfinningar birtast í samfélaginu og hvernig þeim er tekið þar. Hvort þeim sé hafnað eða samþykktar. Skoðað verður samhengi ýmissa byltinga sem urðu til þess að ýmis málefni fengu breytta sýn í samfélaginu t.d. kvenréttindi, kynþáttur, kynhneigð, ofbeldi og fl. Nemendur taka afstöðu einu málefni af eigin vali. Markmiðið er að nemendur geti sett sig í spor annara tilfinningalega og tjáð tilfinningu í formi grímunnar.
Það sem lagt er til grundvallar við mat á verkefninu:
Leiðsagnarmat og sjálfsmat þar sem virkni og þátttaka nemenda skiptir höfuð máli.
Matskvarði fyrir leiðsagnamat kennara:
Matkvarði fyrir sjálfsmat nemanda:
10 min:
Nemendur boðnir velkomnir í kennsluna og farið yfir skipulag verkefnisins.
Kennarar kynna sig lítilsháttar.
Kynning á heimasíðu verkefnisins þar sem aðgengi er að upplýsingum og kveikjum
10 min:
Kveikjur - grímur
Ólíkar grímur skoðaðar út frá efnisvali og aðferðum, áferðum og túlkun.
10 min:
Samfélagið og tilfinningar kvenréttindi, kynþáttur, kynhneigð, ofbeldi önnur samfélagsleg málefni.
10 mín:
Tækni og efnisval nemenda.
Í endurvinnslutunnum heimilisins, geymslunni, eldhúsi, baðherbergi og öðrum stöðum heimilisins sem og í nærumhverfinu.
40 min:
Sjálfstæð vinna nemenda.
Nemendur vinna sjálfstætt við að skoða tilfinningu út frá því málefni sem þeir vilja tjá. Skoða efnivið í nánasta umhverfi sem þeir hyggjast nota við grímugerðina.
Allir nemendur og kennarar hittast saman inn á Teams. Nemendur kynna sig og sitt val á tilfinningu.
Segja stuttlega frá hvers vegna hún hafi orðið fyrir valinu. Ef nemendur eru komnir með efnivið
sýna þeir og segja einnig stuttlega frá honum.
Hver nemandi fær 5 mínútur.
Einstaklingsviðtöl og sjálfstæð vinna nemenda.
Nemendur fá úthlutaðan tíma með einum kennara, 10 mínútur hver nemandi.
Staðan tekin á gangi mála hjá nemandanum og verkefninu. Rætt um áskoranir sem fylgja verkefninu, erfiðleika og úrlausnarefni.
Að öðru leiti er sjálfstæð vinna nemenda.
Kynning og yfirferð. Nemendur og kennarar hittast saman inn á Teams.
Hver nemandi segir frá sinni grímu og lýsir vinnuferlinu og túlkun sinni á valdri tilfinningu.