Á hverju ári tekur Tálknafjarðarskóli virkan þátt í Unicef hreyfingunni þar sem börnin frá fræðslu um málefni hvers árs sem kemur frá Unicef á Íslandi. Horft er á myndbönd og unnin eru verkefni í tengslum við efnið. Eftir fræðsluna taka börnin þátt í Hreyfingunni sjálfri sem felst í því að leysa mismunandi þrautir í ratleik. Skipt er í hópa og unnið þvert á aldur, frá eldri börnum leikskóla upp í 10. bekk grunnskóla.
Góðan daginn og gleðilegt sumar! 😃
Takk kærlega fyrir samstarfið í ár og takk kærlega fyrir þátttöku ykkar í UNICEF-Hreyfingunni í ár! 😊 Þetta var svo sannarlega frábær söfnun en það söfnuðust 89.000 krónur!
Ykkar framlög munu nýtast UNICEF víðsvegar um heiminn. Við viljum nýta tækifærið og deila með ykkur dæmum um hvað hægt er að gera fyrir upphæðina sem safnaðist!
Með ykkar áheitum í ár er til dæmis hægt að útvega
1700 skammta af plumpy-nut, vítamínbættu jarðhnetumauki. Með þeim er hægt gera kraftaverk fyrir vannærð börn en í flestum tilfellum þurfa börn einungis þrjá skammta á dag í nokkrar vikur til þess að ná fullum bata.
3 skóla í kassa! „Skóli í kassa“ inniheldur allt sem þarf til að börn geti haldið skólagöngu sinni áfram við neyðaraðstæður. Málmboxið er fullt af námsgögnum: Stílabókum, blýöntum, strokleðrum, litum, skærum og öðru. Í því eru einnig sem dæmi upptrekkjanlegt útvarp og gráðubogi. Lokið á boxinu má síðan mála með krítum sem eru í kassanum og þar með eru börnin komin með krítartöflu.
1350 skammta af bóluefni gegn mislingum. Mislingar eru hættulegur sjúkdómur sem ógnar lífi barna. Góðu fréttirnar eru þær að það má auðveldlega koma í veg fyrir mislinga með bólusetningu.
Þetta er vitaskuld bara dæmi um það sem að upphæðin getur gert en ég vona að þetta sýni hve miklu er hægt að koma í verk fyrir ykkar frábæru söfnun. Endilega deildu þessum pósti með skólasamfélaginu þínu!