Námskeið fyrir nýliða í skólum Kópavogsbæjar sem nýta vinnuaðferðir Uppbyggingarstefnunnar - Uppbyggingu sjálfsaga - (Restitution - Self discapline). Námskekiðið er einnig góð upprifjun fyrir starfsmenn sem áður hafa sótt námskeiðið og vilja skerpa á kunnáttunni. Meginatriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga og ýta undir gott sjálfstraust. Lögð er áhersla á jákvæð samskipti, gagnkvæma virðingu og góðan skólabrag. Uppbygging sjálfsaga hvetur hvern og einn til að taka ábyrgð á eigin orðum og gjörðum. Nemendur læra að þekkja grunnþarfir sínar og taka tillit til samferðarmanna sinna.
Uppeldi til ábyrgðar - Uppbyggingarstefna (Restitution) í skólastarfi er hugmyndakerfi þar sem lögð er áhersla á sjálfsskoðun, uppbyggileg samskipti, kennslu sjálfsaga og sjálfstjórn í samskiptum. Stefnan er upprunnin í Kanada og hefur upphafsmaður aðferðarinnar Diane Gossen þróað hana síðustu 20 ár. Uppbyggingarstefnan miðar að því að finna leiðir til lausnar á ágreiningsmálum, að við stjórnumst af innri hvötum frekar en ytri, að skoða hvernig við viljum vera, frekar en hvað við erum að gera. Hún skapar aðstæður fyrir einstaklinginn til að geta leiðrétt og bætt fyrir mistök sín, gera betur og snúa síðan aftur til hópsins með aukið sjálfstraust. Nemendum er kennt að taka ábyrgð á eigin orðum og gerðum. Miðað er að því að finna þörfina bak við það sem við erum að gera.
Námskeiðið er í heild tveggja daga námskeið. Einn og hálfur dagur 8. ágúst (heill dagur) og 9. ágúst (hálfur dagur) og síðan mun hálfur dagur fara fram á starfsdegi skóla.
Skráning á þetta námskeið gildir fyrir námskeiðið í heild sinni.