Austur-Vestur Lokaskýrsla 2021-2022
Verkefnastjóri Vesturbæjarskóla, Guðlaug Elísabet, gerði starfendarannsókn sem lokaverkefni um þetta þróunarverkefni og þá sérstaklega innan þess skóla. Henni fannst mikilvægt að rannsóknin myndi gagnast skólanum í þessari innleiðingu með því að gefa innsýn í innleiðingarferlið og vísbendingar um þróunina byggða á rannsóknargögnum. Í þeirri rannsókn kom meðal annars fram sköpunarsmiðjur og verkefni í þeirra anda með nýtingu tækninnar séu mikilvægt málefni vegna þess að þær eru leið til að undirbúa börnin fyrir áskoranir framtíðarinnar. Við höfum gengið mörg skref í þá átt að breyta kennsluháttum og bjóða upp á fjölbreytt, skapandi og merkingarbært nám fyrir nemendur. Brölt verkefnastjóranna hefur þessi þrjú ár hefur skipt máli til að stuðla að faglegri innleiðingu innan veggja skólans. Einnig kom þar fram sú von um að þróunaráætlanir morgundagsins í menntamálum muni innihalda stuðning við sköpunarsmiðjur en slíkur stuðningur skiptir miklu máli fyrir skóla í þróun til að öðlast samþykki frá samfélaginu. Til að meta innleiðingu og þróun sköpunarsmiðjustarfs í þessu þróunarverkefni mótaði hún greiningarlíkan eða matstæki sem hún byggði á líkani Svanborgar R. Jónsdóttur um þróun og innleiðingu nýsköpunarmenntar í skólastarfi. Með matstæki er hægt að meta hvar kennarar, nemendur, skólastjórnendur, námskrá og skólamenning, foreldrar og samfélag og stjórnvöld eru stödd í skólaþróun á sviði sköpunarsmiðjustarfs.
Kynning sem haldin var á Austur-Vestur verkefninu um sköpunarsmiðjur á Öskudagsráðstefnunni 2. mars 2022.
Fyrsta greinin birtist í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun: Sköpunar- og tæknismiðjur í þremur grunnskólum: Framkvæmd og kennslufræði fyrstu skrefin
-Svanborg R. Jónsdóttir, Skúlína H. Kjartansdóttir, Svala Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson
Svala Jónsdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ; Svava Pétursdóttir, lektor, MVS HÍ; Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor, MVS HÍ; Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjúnkt, MVS HÍ og Torfi Hjartarson, lektor, MVS HÍ
Sköpunarsmiðjur (e. makerspaces) hafa litið ljós í skólastarfi sem eitt viðbragð við ákalli um aukna sköpun og atbeina í námi nemenda. Austur-Vestur er þróunarverkefni þriggja grunnskóla í Reykjavík; Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla. Verkefnið snýst um að innleiða og þróa sköpunar- og tæknismiðjur í skólunum. Framtíðarsýnin með þróunarverkefninu er að bæta námsumhverfi skólanna, auka áherslu á samvinnu bæði nemenda og kennara, efla sjálfstæði nemenda og ýta undir skapandi vinnu við lausn verkefna, nýtingu tækninnar og samþættingu námsgreina. Í skólunum eru verkefnastjórar og haldnar eru sameiginlegar menntabúðir þar sem kynnt eru stafræn verkfæri og kennsluhugmyndir. Rannsóknarhópur á vegum RASK og RannUM á Menntavísindasviði hefur fylgst með verkefninu, rannsakað og veitt ráðgjöf frá því það hófst haustið 2019. Þegar verkefnið var hálfnað í febrúar 2021 var lögð fyrir alla kennara skólanna könnun til að skoða stöðu verkefnisins, 75 af 80 kennurum skólanna svöruðu. Flestir kennaranna segjast í henni hafa góðan skilning á verkefninu, hafa áhuga á því og telja það mikilvægt fyrir nám og hæfni nemenda. Flestir telja þátt sköpunar og tækni mikilvægastan og höfðu aukið þá þætti í kennslu sinni frá því að verkefnið hófst. Svörin benda líka til töluverðrar virkni kennara í verkefninu þar sem 80% svarenda höfðu prófað eitthvað af því sem kynnt hefur verið í menntabúðum verkefnisins. Svörin benda almennt til þess að verkefninu sé vel stýrt og því veitt skýr fagleg forysta. Ljóst er að skipulag verkefnisins og sýn birtist í skólastarfinu með aukinni áherslu á verkefni sem styðja við atbeini nemenda og sköpun.
Á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs, sem að þessu sinni var haldin á netinu 1. október 2020 var tvöföld málstofa undir heitinu Draumar, framkvæmd og fræði – Sköpunar- og tæknismiðjur í grunnskólastarfi þar sem rannsakendur AUSTVEF-teymisins við Háskóla Íslands og kennarar frá grunnskólunum þremur kynntu niðurstöður rannsóknarinnar og lýstu dæmum úr sköpunarsmiðjustarfi skólanna þriggja. Málstofurnar voru fjölsóttar og þóttu takast einkar vel.