Sköpunarsmiðjur

Hvað eru sköpunarsmiðjur?

Hugmyndin um sköpunarsmiðju byggir á eflingu sköpunar og hæfni 21. aldarinnar. Í sköpunarsmiðju hafa kennara og nemendur aðgang að margskonar efniviði og kennslugögnum sem auðveldar skólunum að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp með nýjum og skapandi leiðum. Í sköpunarsmiðju fá nemendur tækifæri til að uppgötva og nýta hæfileika sína betur í fjölbreyttum viðfangsefnum sem eykur færni þeirra og þjálfar í sjálfstæðri verkefnavinnu og lausnaleit.

Áhersla er lögð á lykilhæfni sem er skapandi hugsun og frumkvæði, nýting þekkingu og leikni, hæfni nemenda til að vinna sjálfstætt, í samvinnu við aðra og undir leiðsögn, hæfni nemenda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit og hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi. Einnig er lögð áhersla á að nýta stafræna tækni og veita nemendum fjölbreytt tækifæri til sköpunar og tjáningar. Unnið er að verkefnum sem tengjast, hönnun og nýsköpun, forritun, stærðfræði, tungumálum, listsköpun og þemavinnu.

Sköpunarsmiðja á að tengja skólastarfið enn frekar við samfélagið og gefa nemendum tækifæri til að kynnast mismunandi fyrirtækjum á sviði nýsköpunar og hugvits þannig að nemendur geri sér betur grein fyrir þeim möguleikum sem samfélagið hefur upp á að bjóða. Auka þarf áhuga nemenda í íslenskum skólum og þá ekki síst stúlkna á upplýsingatækni, hugviti og verklegum greinum. Sköpunarsmiðjur snúast um hugarfar og tilgang verkefna, um að læra af mistökum og að læra að vinna eftir ákveðnu hönnunarferli.

Í menntastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2030 er meðal annars lögð áhersla á sjálfseflingu og sköpun. Áhersla er á að styðja faglegt frumkvæði starfsfólks, búa því góðar starfsaðstæður og skapa tækifæri til starfsþróunar. Skólasamfélagið; kennarar, nemendur, skólayfirvöld og foreldrar kalla eftir námsumhverfi sem stuðlar að aukinni þekkingu og færni til nýsköpunar og lausnaleitar. Sköpunarsmiðja styður kennara í því að vinna að áherslum Reykjavíkurborgar og markmiðum aðalnámskrár grunnskóla á markvissan og skapandi hátt.

Við mótun sköpunarsmiðjanna í Vesturbæjarskóla, Ingunnarskóla og Selásskóla lítum við til vinnu VEXA hópsins sem útbúið hefur vefsíðu með gagnlegum upplýsingum sem nýtast við uppbyggingu slíkra smiðja.

Hér má kíkja inn í skólana og sjá hvernig unnið er með skapandi tækni: Skapandi tækni í Reykjavík.

Að tengja sköpunarsmiðjuvinnu við námskrána

Sköpunarsmiðjuvinna er áhrifarík leið til að gera námið merkingarbært fyrir börn þar sem þau fá að skapa og vinna í höndunum. -Heimild


Námskrá/kennsluáætlun

Skoðaðu kennsluáætlunina/námskrána og sjáðu hvar verkefni í anda sköpunarsmiðja geta átt við. Getur það átt við verkefni í stærðfræði, tungumálum, þemavinnu, list- og verkgreinum, umhverfismennt, upplýsingatækni, skólaíþróttum, náttúru- og samfélagsgreinum eða verkefnum tengdum skólabrag?


Af hverju er þetta mikilvægt?

  • Gerir óhlutbundin fyrirbæri áþreifanleg og merkingarbærri.

  • Gerir nám sýnilegt.

  • Gerir nám áþreifanlegra og sjónrænna.

  • Virkjar gagnrýna hugsun, lausnaleit, samvinnu og hæfni til ákvarðanatöku.


The maker movement

Mikill áhugi er á sköpunarsmiðjum. Meðal almennings er vaxandi þörf á því að geta búið til og lagað hluti og í Bandaríkjunum er talað um „the maker movement“. Chris Anderson (2012) talar um „the new industrial revolution“ og leggur áherslu á að hér sé ekki bara um fiktara og nörda að ræða heldur ósköp venjulegt fólk sem vill efla þekkingu sína og færni og rækta sköpunarkraft sinn. Dale Dougherty (2012) sem Hvíta húsið hefur tilnefnt sem „sigurvegara breytinga“ (Champion of Change) heldur því fram að þörfin til að búa eitthvað til sé snar þáttur í mannlegu eðli. Mark Hatch (2014), einn af stofnendum TechShop í Bandaríkjum, bendir á að möguleikarnir til að koma til móts við þessa þörf hafi aldrei verið betri: „The real power of this revolution is its democratizing effects. Now, almost anyone can innovate. Now, almost anyone can make. Now, with the tools available at the makerspace, anyone can change the world.“ Halverson og Sheridan (2014; bls. 495) telja að nýsköpunarsmiðjur eða „gerver“ gefi skólum tækifæri til að tengjast betur nútíma tæknivæddu samfélagi og jafnvel breyta landslagi menntunar: „Across these perspectives, there is growing enthusiasm for the potential for new technologies and old forms of communication to transform the educational landscape“. Sömu höfundar benda á að mörg söfn séu nú að endurhugsa starfsemi sína í ljósi smiðju hugmyndarinnar og Resnick (2014), heimsþekktur sálfræðingur, sér merki þess að bókasöfn séu á leiðinni að endurskilgreina sig, hætta að líta á sig sem „warehouse of information“ eingöngu en byrja að líta á sig sem „community workshop, a hub filled with the tools of the knowledge economy“ (Halverson og Sheridan, 2014, bls. 499). Við sjáum þessa þróun einnig í bókasöfnum hér innanlands en nýverið var auglýst eftir verkefnastjóra tilraunaverkstæðis hjá Borgarbókasafninu þar sem svipaðar hugmyndir og makerspace liggja til grundvallar.

Hér á landi gætir vaxandi áhuga á smiðjum af þessu tagi, ekki síst meðal fræðimanna á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. RANNUM, Rannsóknarstofa um upplýsingatækni og miðlun, tekur nú þátt í rannsóknarnetinu MakEY (Makerspaces in the early years) í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Fab Lab Ísland og Uppfinningaskólann.