Samstarfsverkefni þessara þriggja skóla, Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla, ber yfirskriftina Austur – Vestur með vísan til legu skólanna í borgarlandinu. Samstarfið byggir á ákvörðun skólanna um að þróa kennsluhætti og styðja kennara í starfsþróun til að bregðast við breytingum í takt við nýja tíma eins og að stuðla að nýsköpun í kennslu og ýta undir fjölbreyttara nám. Aukið flæði milli námsgreina, skýr sýn á grunnþætti menntunar og lykilhæfni ásamt sterkari tengingu verkefna við daglegt líf nemenda eru til þess fallin að vekja áhuga nemenda og stuðla að krefjandi verkefnum og námi. Þar má nefna tækniþekkingu, sköpunargleði, hönnunarhugsun, nýsköpun, hugvit og samvinnu sem efla færni nemenda og víðsýni. Verkefnið styðst við hugsmíðahyggju þar sem hugað er að styrkleikum nemenda og bakgrunni í því skyni að styðja sem best við nám þeirra, líðan og námsumhverfi. Litið er á börn sem þekkingarsmiði sem smíða sína persónulegu þekkingu út frá eigin reynslu. Samstarf þessara þriggja skóla skiptir miklu máli við uppbyggingu þróunarverkefnisins, þróun þess og framkvæmd. Samstarf og samstarfsmenning skilar víðtækum ávinningi fyrir umbótastarf í skólum og því fylgir opin og gagnrýnin samræða og ígrundun. Persónuleg tengsl og samskipti kennara og stjórnenda úr skólunum þremur stuðla að góðu samstarfi og stuðningi við framgang verkefnisins. Byggja þarf upp kennslufræðilega þekkingu, færni og verkefnabanka sem nýtist skólunum til framtíðar og því er það styrkur fyrir verkefnið að fleiri komi að því og geti miðlað þekkingu og upplýsingum sín á milli.
Rannsóknarstofa um upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) og Rannsóknarstofa um skapandi skólastarf (RASK) á Menntavísindasviði kemur að úttekt á verkefninu. Svanborg R. Jónsdóttir, Skúlína Hlíf Kjartansdóttur, Svala Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson á Menntavísindasviði Háskóla Íslands skoða verkefnið frá ýmsum hliðum og mun sú þekking nýtast Menntavísindasviði við frekari rannsóknir og þróun nútímalegs kennaranáms. Rannsóknin er fjölþætt og byggir á eigindlegum og megindlegum gögnum. Athyglinni er beint að mismunandi þáttum: uppeldis- og kennslufræði, athafnakostum nýsköpunarsmiðja, möguleikum tengdum skólasöfnum, stjórnun, húsnæði (kennslu- og námsrými), tækni, samþættingu námsgreina, upplýsingatækni, samskiptum og atbeina (gerendahæfni) nemenda og sköpun. Skoðað verður hvort að innleiðing og þróun verkefnisins byggi á samstarfi, þar á meðal teymisvinnu og hvort og hvernig lærdómssamfélag verður til í ferlinu. Rannsakendur fylgjast grannt með framgangi verkefnisins og styðja við þróunarstarfið með áhuga sínum og athugunum.
Fyrsta greinin birtist í Netlu, veftímariti um uppeldi og menntun: Sköpunar- og tæknismiðjur í þremur grunnskólum: Framkvæmd og kennslufræði fyrstu skrefin
-Svanborg R. Jónsdóttir, Skúlína H. Kjartansdóttir, Svala Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson