Sköpun er ekki námsgreinabundin og bjóða sköpunarsmiðjur upp á samþættingu og tengingar þvert á námsgreinar (Marsh o.fl., 2017). Kennarar skoða kennsluáætlanir og námskrár og sjá hvar verkefni í anda sköpunarsmiðja og sköpunarstarf getur átt við. Slíkar kennsluaðferðir gera óhlutbundin fyrirbæri áþreifanleg og merkingarbærri og námið sjónrænna auk þess að virkja gagnrýna hugsun, lausnaleit og samvinnu (Maslyk, 2019).
Verkefnamiðað nám byggir á því að börnin læri fjölbreytt viðfangsefni með það að leiðarljósi að leysa úr þeim og afla sér dýpri þekkingar og skilnings á þeim. Hér er stutt myndband sem útskýrir þessa nálgun betur.
Nemendur ákveða með hvaða hætti þeir útfæra afurð verkefnisins, þeir geta gert mynd, ljósmynd, slagorð, ljóð, myndband, leikverk, tónlist, gjörning, auglýsingu, skrifað bréf eða grein í blað eða hvað sem þeim dettur í hug. Nemendur hafa ríkulegan atbeina og fá að ráða útfærslum auk þess að hafa áhrif á viðfangsefni. Það er frábært þegar kennarar deila. Í mörgum kennslustofum hangir þetta plakat með 25 hugmyndum að skapandi skilum sem Málfríður Bjarnadóttir kennari í Helgafellskóla í Mosfellsbæ tók saman.
Börn í 7. bekk læra um mannslíkamann. Einhverjir ákváðu að búa til líkan af hjarta í smiðjunni og einn nemandi bjó til tölvuleik þar sem Maríó ferðast um líkamann til hjartans og hittir meðal annars á leiðinni vondar kóvidfrumur.
Börn í 1. bekk í Vesturbæjarskóla læra um mannslíkamann . Markmið að börnin læri hvar lungun eru og að við tökum inn súrefni með öndun.
STEM verkefni
Hvernig virka lungun?
Hvernig get ég búið til lungu?
Efni: rör + nestispokar, límband
Börn í 2. bekk í Selásskóla luku við vinnu með komdu og skoðaðu land og þjóð með því að nemendur fengu að gera eldgos tilraun, tveir og tveir saman.
Breakout í 2. bekk í Selásskóla. Erum búnar að vera að vinna með Komdu og skoðaðu land og þjóð og fundum þennan snilldar breakout leik á breakout Ísland síðunni. Krakkarnir skemmtu sér vel og lærðu heilmikið í samskiptum og samvinnu um leið og þeir rifjuðu upp það sem þeir höfðu lært um landið.
Nemendur í Vesturbæjarskóla hafa líka verið að prófa Breakout. Nemendur í einhverjum árgöngum prófuðu að fara í jóla Breakout í desember. 1. og 2. bekkur hafa verið að fjalla um mannslíkamann í vetur og þótti því vel við hæfi að fara í Breakout um mannslíkamann. 6. bekkur hefur verið að læra um Ísland og fóru í Breakout um það efni. Leikina er að finna á íslensku Breakout síðunni https://sites.google.com/view/breakoutisland/heim
Í maí fóru nemendur í 2. og 6. bekk úr Vesturbæjarskóla saman í Hljómskálagarðinn í ratleik, Hljómskálaleikana.
2. bekkur í Ingunnarskóla var í dýraþema og eitt verkefni var að búa til furðudýr og vinna í ChatterKid.
5. bekkur í Ingunnarskóla er að vinna með “hafið”. Í textíl tókum við fyrir plastmengun í hafinu og gerðum þessa fiska úr gosflöskum. Fiskarnir reyna svo að gleypa kúlur sem eru þæfðar úr ullarkembu
Í Vesturbæjarskóla er hefð fyrir heimaverkefni fjölskyldunnar. Í 2., 4. og 6. bekk sendir kennari bréf til foreldra þar sem þeir eru hvattir til að aðstoða börn sín við að vinna tiltekið verkefni og kynna það fyrir bekknum. Verkefnin eru margvísleg og gætu t.d. falist í því að kynna áhugavert safn, segja frá persónu sem fjölskyldan hefur dálæti á eða kynna áhugamál sitt. Kennarinn getur einnig ákveðið að tengja verkefnið námsefninu. Fjölskyldan hefur frjálsar hendur um framsetningu kynningarinnar. Hún getur falist í upplestri, myndbandi, sýningu á hlutum, ljósmyndum, glærusýningu, teikningum eða öðru. Fjölskyldan (pabbi, mamma, afi, amma) fær góðan undirbúningstíma og foreldrar eru hvattir til að taka þátt í kynningunni í skólanum með barni sínu. Kynningartíminn er ákveðinn í samráði við kennara og foreldra. Sem dæmi er hægt að nota fyrstu kennslustund ákveðins vikudags í kynningarnar. Markmið heimaverkefnis er að upphefja nám og skólastarf og að brúa heima barnsins.
Hér er að finna þemaverkefni eða verkefni sem er hægt að nota í samþættum fögum þar sem samfélagsfræði er eitt af fögunum. Verkefnin byggja á heimsmarkmiðum SÞ, á samkennd og umburðarlyndi. Athugið að það eru bara hæfniviðmiðin sem stýra því hvaða stigi þetta er merkt.