Nýsköpun- og frumkvöðlamennt
Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt er námssvið sem á margt sameiginlegt með áherslum sköpunarsmiðja (Sólveig Jakobsdóttir o.fl., 2019). Í sköpunarmenningu er lögð áhersla á leitarnám og verkefni sem þarf að leysa með samvinnu (Smith og Smith, 2016). Skapandi vinna og nýsköpun eru kjarnastarfsemi í sköpunarsmiðjum og á sköpun sér ekki stað án einhvers konar nýjunga eða nýsköpunar. Sumir fræðimenn gera ekki greinarmun á sköpun og nýsköpun (Georgsdottir o.fl., 2003). Markmið nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar er að auka færni til sköpunar og nýsköpunar og efla sjálfstæði, sjálfstraust og aðlögunarhæfni nemenda og styrkja þá þannig til virkrar þátttöku í samfélagi sínu (Svanborg R. Jónsdóttir o.fl., 2014). Nýsköpunarverkefni og kennslufræði nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar eru gjarnan í anda eflandi kennslufræði þar sem ýtt er undir atbeina (e. agency) nemenda og kennarinn lætur nemendum markvisst eftir stjórnina í verkefnum sínum (Svanborg R. Jónsdóttir, 2012; Svanborg R. Jónsdóttir og Rósa Gunnarsdóttir, 2017).
Í nýsköpunarvali í Vesturbæjarskóla læra nemendur nýsköpunarhugsun. Hugmyndirnar eru sendar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna og þeir nemendur sem komast áfram í þeirri keppni fá tækifæri til að búa til líkan af sinni hugmynd.
Nemendur í 5.-6. bekk búa til lítið gróðurhús, sá í það fræjum og skrifa skýrslu. Bara afgangsefni og ,,rusl" notað sem efniviður, ekkert nýtt keypt.
Með ,,frjálsri" sköpun í smiðjunni reynir á sköpunargleði nemenda þar sem þau fá algjörlega frjálsar hendur til að fikta, prófa og skapa. Í smiðjunni er allskonar til af endurnýtanlegum efniviði og ýmis tæki og tól. Einnig er hægt að prófa forritun, vinna verkefni með grænskjá og læra um rafmagn á margskonar hátt. Sumt gengur upp og annað ekki. Sumt hafa þau reynt að gera áður og annað ekki. Hér er unnið með eflandi kennslufræði þar sem nemandinn fær leiðsögn og stuðning en ræður að mestu um viðfangsefni, þróun hugmynda, framkvæmd og útfærslur. Hér eru nokkur dæmi um verkefni nemenda:
Bollakaka
Kúlubraut
Armbönd
Snúningshjól
Sketsar
DJ spilari
Stressbolti
Slæða
Jólaskraut
Skór
Fiktidót
Bíll