Grunnskólar Kópavogsbæjar hafa aðgang að Google lausnum fyrir skólastarfið sem nefnist á ensku Google Workspace for Education Plus. Allir nemendur og kennarar eru með aðgang að kerfinu með notendanafni og lykilorði sem veitir þeim aðgang að kerfinu.
Kerfið býr til sérstakt vinnusvæði fyrir hvern skóla og flytur inn notendaupplýsingar úr notendagrunni Kópavogsbæjar.
Mikilvægt er að hafa í huga að Google Workspace for Education Plus aðgangur nemenda í skólastarfi er ekki sambærilegur almennum Google aðgangi fyrir almenning. Í stuttu máli er munurinn eftirfarandi:
Google Workspace for Education Plus á ekki gögn nemandans og teljast gögnin alfarið eign nemandans. Nemandi og grunnskólinn hafa fullt forráð yfir gögnunum. Ef nemandi hættir í skólanum verður aðganginum og tilheyrandi gögnum sjálfkrafa eytt samkvæmt skilmálum um notkun spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs.
Google Workspace for Education Plus er án allra auglýsinga. Það liggur fyrir að gögn nemenda eru ekki notuð í öðrum tilgangi en skólastarfi - hvorki til markaðssetningar né endursölu til þriðja aðila.
Nemendur geta einungis deilt skjölum innan Google Workspace for Education Plus Kópavogsbæjar.
Tölvuumhverfið byggist á umsjónarkerfinu Google Workspace for Education Plus, sem er umgjörð utan um námsforrit Google skólaumhverfisins. Upplýsingatæknideild Kópavogsbæjar annast alla miðlæga þjónustu. Í hverjum skóla annast UT deildarstjórar daglega notendaþjónustu.
Námsforritin sem tilheyra Google Workspace for Education Plus kerfinu eru sérstaklega skilgreind fyrir verkefnavinnu með nemendum og er öll uppbygging kerfisins miðuð við að slík vinna geti farið fram á öruggan hátt og án þess að hætta sé á að óleyfileg gagnasöfnun eigi sér stað.
Nemendur geta notað námsforritin í námi, deilt gögnum og verkefnum hvert með öðru sem og kennurum. Kennarar geta notað námsforritin til að miðla kennsluefni og kennsluáætlunum, leggja fyrir ákveðin verkefni og fá góða yfirsýn yfir nám og námsframvindu nemenda.
Námsforritin er hægt að nýta til að búa til og dreifa stafrænum skjölum, auka samskipti og samvinnu á milli nemenda og kennara. Öll gögn eru geymd í skýi sem eru aðgengileg hvar og hvenær sem er, þar sem er nettenging. Sjá nánar: Google skólaumhverfið kynning fyrir foreldra.
Námsforrit Google skólaumhverfisins eru:
Google Drif - Gagnageymsla
Google Skjöl - Ritvinnsla
Google Töflureiknar - Töflureiknir
Google Skyggnur - Glærur og kynningar
Google Eyðublöð – Kannanir
Google Mail – Tölvupóstur (Lokað fyrir tölvupóstsamskipti utan kerfis)
Google Svæði - Vefsíður (Nemendur geta ekki deilt vefsíðum opinberlega)
Google Dagatal - Dagatal
Google Spjall - Samtalsgluggi (Virkar aðeins innan kerfis)
Google Tengiliðir – Tengiliðaskrá
Google Meet – Myndsímtöl (Aðeins kennarar geta stofnað til myndsímtala)
Google Keep – Glósur og minnismiðar
Google Jamboard – Gagnvirk tafla
Google Classroom – Námsumsjón
Google Chrome - Vefvafri
Þegar notandi er auðkenndur í Chrome vafra virkjast allar stillingar ábyrgðaraðila sem hann hefur virkjað eða eftir atvikum óvirkjað og er þannig öryggi persónuupplýsinga gætt.
Nemendur geta ekki verið innskráðir með notandaaðgangi @kopskolar.is og þar af leiðandi eru engar persónuupplýsingar skráðar. Dæmi um þjónustu sem nemendur geta ekki notað kopskolar.is:
Google Maps - Landa- og götukort.
Google Earth - Gervihnattamyndir af heiminum, 3D byggingar og landslag fyrir hundruði bæja og borga. Eingöngu er hægt að nýta hugbúnaðinn með mjög takmörkuðum hætti.
Google Translate - Þýðingarþjónusta.
Youtube - Streymisveita myndskeiða.
Google Chrome viðbætur er ekki hægt að nota í spjaldtölvum. Í öðrum tölvum þarf nemandi að vera auðkenndur í Chrome vafra til þess að fá aðgengi að stýrðum viðbótum (google services) sem hafa verið áhættumetnar og styðja við nám og kennslu.
Lokað er fyrir möguleika nemenda til þess að sækja viðbætur, innbætur og smáforrit/öpp í kerfið. Hægt er að sækja um að bæta hugbúnaði við kerfið og fer það þá í gegnum áhættumatsferli.
Við notkun Google Meet er mikilvægt að hafa í huga:
Kennarar geta eingöngu hafið myndsímtal og hver nemandi þarf að samþykkja boðið. Nemendur hafa ekki réttindi í kerfinu til að hefja myndsímtöl við kennara eða sín á milli.
Nemandi getur sjálfur valið hvort hann sé í mynd eða ekki, eins hvort kveikt er á hljóðnema. Kennari getur einnig slökkt á hljóðnemum nemenda.
Ef kennari velur að framkvæma hluta kennslu sinnar með myndsímtölum er nemandi ekki skyldugur til að taka þátt.
Ef foreldri/forsjáraðili óskar eftir því að nemandi taki ekki þátt í myndsímtölum við kennara þá skal senda póst á netfang skóla.
Tilgangurinn með því að taka stafræna skólaumhverfið í notkun er sá sami og á við um skólagöngu nemenda almennt, það er að uppfylla skólaskyldu og veita nemendum kennslu í samræmi við ramma aðalnámskrár grunnskóla sem meðal annars útlistar hvaða þekkingu, leikni og hæfni stjórnvöld telja mikilvæg til framtíðar.
Google Workspace for Education Plus er tekið í notkun í skólastarfi til að bjóða nemendum upp á heildræna notkunarmöguleika sem styðja við þjálfun flestra hæfniviðmiða í upplýsinga- og tæknimennt aðalnámskrár grunnskóla. Það er fyrst og fremst hugsað sem verkfæri við vinnslu skólaverkefna nemenda og nýtist vel til að vinna verkefni í spjaldtölvum og öðrum tækjum sem tengjast netinu. Það auðveldar nemendum aðgang að tilteknum námsforritum sem stuðla að auknum samskiptum og samvinnu nemenda og kennara.
Í Google Workspace for Education Plus geta nemendur unnið með texta, myndir, myndbönd og hljóð og búið til kynningar, svo dæmi séu nefnd. Þeir geta vistað verkefni á heimasvæði sínu og skilað til kennara þegar þeim er lokið. Öll vinnsla er bundin við verkefnavinnu nemenda í skólastarfi og háð aðgangsstýringum upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar svo að einungis nemendur og eftir atvikum kennarar hafa aðgang að efninu. Google notast við undirvinnsluaðila innan Evrópu sem hafa aðgang að upplýsingum vegna tæknilegrar aðstoðar við kerfið en nánar má lesa um undirvinnsluaðila hér.
Ráðherra menntamála gefur út Aðalnámskrá grunnskóla sem er leiðarvísir sem stýrir allri menntun og kennslu í skólastarfi í landinu. Í henni er meðal annars að finna meginmarkmið náms og kennslu. Ein af áherslum aðalnámskrár er að nýta margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla og upplýsingatækni:
„Nemandi þarf að búa sig undir virka þátttöku í nærsamfélagi jafnt sem alþjóðasamfélagi, þar sem samskipti, samvinna og alþjóðatengsl gegna mikilvægu hlutverki. Nemandi þarf að þekkja helstu leiðir að öruggum netsamskiptum og standa vörð um gott siðferði í öllu námi. Með því að veita hverjum nemanda heildstæða sýn og þjálfun í vinnubrögðum, í tengslum við flest svið samfélagsins, s.s. vísindi, listir og fræði, eykst hæfni hans til að bregðast við síbreytilegu umhverfi.“ (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Í aðalnámskrá segir jafnframt að nemendur þurfi að læra að nýta tæknina, að samþætta eigi upplýsinga- og tæknimennt við aðrar námsgreinar, bæta aðgengi allra að námi við hæfi og stuðla að fjölbreytni í kennsluháttum. Enn fremur eru þar talin upp ákveðin hæfniviðmið sem nemendur eiga að hafa náð við lok grunnskólagöngu. Sem dæmi eiga nemendur að geta nýtt rafrænt og gagnvirkt námsefni, eiga að geta nýtt rafrænar leiðir og samskiptamiðla af ábyrgð og farið eftir reglum um ábyrga netnotkun, eiga að geta nýtt hugbúnað við ritunar- og tölfræðiverkefni, við vefsmíði, forritun, myndvinnslu, hljóðvinnslu og myndbandagerð og svo mætti lengi telja.
Kópavogsbær og öll önnur sveitarfélög landsins hafa unnið að innleiðingu á upplýsingatækni inn í skólastarf með það að markmiði að fræða og þjálfa nemendur í samræmi við ramma aðalnámskrár með því að nýta örugg kennslukerfi og námsforrit. Tekið hefur verið tillit til persónuverndar og sérstaka áherslu á mikilvægi persónuupplýsinga barna sem kemur fram í persónuverndarlögum.
Google Workspace for Education Plus nýtist vel til:
Að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda og einstaklingsmiðað nám.
Að gera verkefnasamstarf nemenda í og utan skóla mögulegt.
Að bæta aðgengi að námsgögnum óháð tækjabúnaði og staðsetningu.
Að þjálfa nemendur í notkun samvinnukerfa.
Að þjálfa nemendur í stafrænni borgaravitund.
Að auka fjölbreytni í kennsluháttum með því að nýta veflausnir til að uppfylla markmið aðalnámskrár.
Að þjálfa nemendur í að nýta veflausnir og fylgja nýjungum.
Að búa til öruggan veflægan samstarfsvettvang kennara og nemenda grunnskóla Kópavogs þar sem hægt er að skoða og sækja gögn, deila og vinna saman verkefni.
Yfirkerfisstjóri Google er tæknistjóri spjaldtölva á UT deild. Í grunnskólum eru deildarstjórar í upplýsingatækni (UT) með aukin réttindi og geta nemendur og kennarar leitað til þeirra ef aðstoð vantar í Google. UT deildarstjóri í hverjum skóla veitir einnig starfsfólki og nemendum tæknilega ráðgjöf og stuðning og/eða hefur milligöngu um þjónustu kerfisstjóra Google varðandi tæknilega aðstoð og fylgir beiðnum eftir.