Grunnskólar í Kópavogi hafa aðgang að ýmsum lausnum sem nýta má til að styðja við nám í gegnum netið. Dæmi um lausn af því tagi er Google Workspace for Education Plus sem býður upp á leiðir til nútímalegra náms- og kennsluaðferða. Þessi menntalausn er fyrst og fremst hugsuð sem vinnutæki fyrir kennara og nemendur og nýtist vel til að vinna verkefni í spjaldtölvum og öðrum tækjum sem tengjast netinu.
Lausnin auðveldar nemendum aðgang að tilteknum kennsluforritum sem notast er við í námi í grunnskóla og kynnir þeim fyrir ábyrgri og uppbyggilegri notkun á netinu. Verkfærin er hægt að nýta til að búa til og dreifa stafrænum skjölum, auka samskipti og samvinnu nemenda og kennara. Nemendur geta unnið með texta, myndir, myndbönd og hljóð, búið til kynningar og fleira. Öll vinnsla er bundin við verkefnavinnu nemenda í skólastarfi og háð aðgangsstýringum upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar sem og upplýsingaöryggisstefnu Kópavogsbæjar. Einungis nemendur og eftir atvikum kennarar hafa aðgang að efninu sem unnið er í kerfinu. Nemendur geta vistað verkefni á heimasvæði sínu og skilað til kennara þegar þeim er lokið.
Það er mikilvægt að hafa í huga að Google Workspace for Education Plus aðgangur nemenda í skólastarfi er ekki sambærilegur persónulegum Google aðgangi. Í stuttu máli er munurinn eftirfarandi:
Google Workspace for Education Plus á ekki gögn nemandans. Gögnin alfarið eign nemandans. Nemandi og grunnskólinn hafa fullt forráð yfir gögnunum.
Ef nemandi hættir í skólanum verður aðganginum og tilheyrandi gögnum sjálfkrafa eytt samkvæmt skilmálum um notkun spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs.
Google Workspace for Education Plus er án allra auglýsinga. Það liggur fyrir að gögn nemenda eru ekki notuð í öðrum tilgangi en skólastarfi, hvorki til markaðssetningar né endursölu til þriðja aðila.
Nemendur geta einungis deilt skjölum innan Google Workspace for Education Plus Kópavogsbæjar.
Nemendur fá úthlutað notandanafni sem endar á @kopskolar.is og lykilorð sem veitir þeim aðgang að Google Workspace for Education Plus umhverfinu. Þeir fá meðal annars aðgang að tölvupóstforritinu G-mail sem er eitt af kjarnaforritum kerfisins. Þetta gerir nemendum kleift að læra á og prófa sig áfram í notkun tölvupóstsamskipta í skólaumhverfi Google undir leiðsögn kennara. Tölvupóstkerfið er eingöngu opið fyrir tölvupóstsendingar innan kerfis fyrir nemendur í 4.-10.bekk. Nokkur ytri tölvupóstlén sem tengjast námi og kennslu nemenda hafa verið hvítlistuð sem þýðir að undantekningar hafa verið gerðar svo að nemendur geta verið í tölvupóstsamskiptum við s.s.
Mentor (infomentor.is)
Learncove.com
Háskólann í Reykjavík (ru.is)
Speedadmin.dk (Skólahljómsveitin)
Tölvupóstlén eru eingöngu hvítlistuð með tilliti til nauðsynjar og tilgangs.
Auk G-mail póstforritsins má meðal annars finna eftirfarandi forrit í kjarnaþjónustu Google Workspace for Education Plus; Google Drive gagnageymsluna þar sem nemendur vista gögnin sín, Google Classroom þar sem kennarar geta lagt fyrir verkefni og nemendur skilað þeim inn og Google Meet sem býður upp á myndsímtöl milli kennara og nemenda.
Sjá nánari umfjöllun um Google verkfærin á síðunni Notkun.
Sjá nánar glærukynninguna: Google skólaumhverfið kynning fyrir foreldra.