Um verkefnið

Samstarf Kársnesskóla og Heilsuleikskólans Urðarhóls


Meginmarkmið verkefnisins er að elstu börnin í leikskólanum og fyrsti bekkurinn í grunnskólanum myndi traust tengsl á grundvelli jákvæðrar samveru sem einkennist af leikjum, tónlist og dansi undir leiðsögn kennara af báðum skólastigum. Samveran á sér stað í mismunandi samhengi, en rauður þráður í henni er vináttan. Börnin mynda tengsl milli aldurshópa og það virkar sem forvörn gegn einelti.


Báðir barnahópar fá færi á að varðveita og efla vináttu og kunningsskap sem myndaðist á leikskólaárunum.


Fyrir leikskólabörnin er viðbótarmarkmið að þau kynnist skólaumhverfinu og nái góðum tengslum við eldri börn. Þá verða þau öruggari þegar þau sjálf byrja í grunnskóla.


Fyrir grunnskólabörnin þá verður umbreytingin að byrja í nýjum skóla ekki eins skyndileg og skörp. Viðbótarmarkmið er að þau noti tilfinningatengsl sín við leikskólann til að efla vináttubönd við yngri börn og verði því líkleg til að verða þeim hjálparhellur þegar þau síðan byrja í skóla.


Samverustundir sem eiga sér stað í mismunandi samhengi, en rauður þráður í þeim er söngur, hreyfing, samvinna og útivera. Efnistökin eru vináttan enda er hún mikilvægur hluti uppbyggingu jákvæðra samskipta milli árganga.


Til að auka samkennd á milli hópa þá var búið til sameiginlegt vinalag. Öll börnin sem tóku þátt í verkefninu komu að gerð þessa lags. Hægt er að lesa meira um sameiginlega vinalagið okkar undir flipanum Kársneskrakkar.


Kársnesskrakkar

kátir núna

koma hérna

saman!


Framkvæmd verkefnisins

Á heildina gekk verkefnið mjög vel. Nemendur voru áhugasamir og fannst gaman að fá að hittast. Við þurftum að aflýsa einni samveru ásamt kennaraheimsóknum í hinn skólann vegna Covidsmita og samkomutakmarkana. En að öðru leiti gekk þetta eins og í sögu. Samstarfið á milli tónlistarkennaranna var ótrúlega vel heppnað. Einnig voru kennarar í Kársnesskóla og Urðarhóli ótrúlega liðlegir og jákvæðir í garð verkefnisins. Hægt er að lesa meira um framkvæmdina undir flipanum Samverur.








Árangur verkefnisins

Árangurinn er einkum tvíþættur. Samvinna hefur komist á milli tónlistarkennaranna sem hefur verið mjög gefandi og leitt til mikils innblásturs. Einnig hafa skapast tækifæri fyrir börnin að rifja upp og viðhalda vinaböndum þvert á árganga, sem vonandi leiðir til þess að þegar leikskólabörnin byrja í 1. bekk eigi þau auðveldari aðlögun að félagslegu umhverfi skólans.



Við vonum að í framtíðinni verði hægt að viðhalda þessari samvinnu og auka tengslin milli skólastiganna á sambærilegan hátt og við leituðumst við að gera í þessu verkefni.