Lausnaleit


Skólareglur Grunnskóla Snæfellsbæjar eru grundvöllur neðangreinds ferils.

Ferlið byggir á reglugerð nr. 1040/2011, „Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum“.


Viðbrögð vegna frávika frá skólareglum miðast alltaf að því að allir geta gert mistök og við hjálpumst að við að leiðrétta þau ef mögulegt er og koma í veg fyrir að þau gerist aftur. Alltaf skal leitast við að bregðast við með mildustu viðbrögðum.

Í þessari vinnu skal horft til þess að leita lausna sem byggja upp aðila máls og hjálpa til við jákvæðan skólabrag. Viðbragðsferill skiptist í nokkur stig. Frá 2. stigi viðbragðsferils skal alltaf haft samráð við forráðamann/-menn nemanda.


1. stig: Leiðsagnarsamtal nemanda og kennara/starfsmanns

Nú kemur upp frávik frá skólareglu. Skal þá sá kennari/starfsmaður sem verður var við frávikið taka nemanda til hliðar og ræða við hann. Inntak þess samtals skal vera að leita skýringa á hegðuninni og tryggja að slík hegðun endurtaki sig. Ekki er skylt að tilkynna umsjónarkennara, skólastjórnanda eða forráðamanni frá samtalinu, enda leiðsagnarsamtal.


2. stig: Umvöndunarsamtal nemanda og umsjónarkennara

Nú koma upp ítrekuð frávik frá skólareglu eða þá að starfsmaður eða kennari metur frávikið sem nokkuð alvarlegt. Sérstaklega er hér átt við frávik sem valda skaða, hvort sem er öðrum einstaklingi eða á munum skólans. Sá starfsmaður/kennari sem verður var við frávikið skal tilkynna málið umsjónarkennara sem tekur við málinu og ákveður hver tilkynnir forráðamönnum og skráir í dagbók Mentors. Umsjónarkennari metur hvort málið verði sent til skólastjórnenda.


3. stig: Máli vísað til skólastjórnenda

Nú koma enn upp ítrekuð frávik nemanda frá skólareglu eða þá að starfsmaður eða kennari metur frávik mjög alvarlegt. Umsjónarkennari hefur aðkomu að málinu sem er vísað tafarlaust til skólastjórnanda sem tilkynnir málið forráðamönnum og stjórnar skráningu á því í dagbók Mentors. Viðkomandi skólastjórnandi fylgir málinu eftir og ákveður hvort atvikið setur í gang formlegan eftirlitsferil (sjá 4. stig), þ.á.m. til lausnaleitarteymis.

Eftir að mál er komið upp á 3. stig, og þaðan frá, skal haldin um það formleg skráning, á ábyrgð skólastjórnanda.


4. stig: Máli vísað til skólastjórnenda

Nú koma upp frávik nemanda sem er staddur með mál á 3. stigi eða verður uppvís að mjög alvarlegu fráviki frá skólareglum. Skólastjórnandi sér um viðbrögð, vísar málinu til lausnaleitarteymis og setur í gang eftirlits- og viðbragðsferil sem fylgja þarf eftir. Þær leiðir sem mögulegt er að fara eru eftirfarandi:

Gerður samningur með skilyrðum.

Reglulegir stöðufundir með umsjónarkennara, skólastjórnanda og forráðamönnum.

Nemanda er boðið að þiggja aðstoð námsráðgjafa.

Tilvísun til sálfræðings skólans (alltaf með samþykki foreldra).

Fundur með öllum kennurum skólans sem koma að viðkomandi nemanda.

Stundaskrá nemanda skert tímabundið (alltaf með samþykki foreldra).

Foreldrar fylgja nemanda í kennslustund eða kennslustundir.

Sérstakt eftirlit og eftirfylgni í frímínútum.


5. stig: Máli vísað til sérfræðiaðila

Nú koma upp frávik nemanda sem er staddur með mál á 4. stigi eða verður uppvís að mjög alvarlegu agabroti. Að því gefnu að mál sé komið í farveg hjá lausnaleitarteymi og að minnst einn stöðufundur hafi farið fram vegna málsins, óskar skólastjórnandi eftir aðstoð sérfræðiaðila skólans (alltaf með samþykki foreldra). Óskin skal borin fram til yfirmanns Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga sem metur hver starfsmanna þar sé best til þess fallinn að aðstoða við lausnaleit.

Alltaf skal stofnað til teymis um málefni nemenda á 5. stigi viðbragðsferils með aðkomu skóla, heimilis og sérfræðiþjónustu.

Skólastjórnandi metur hvort kalla þurfi nemendaverndarráð til fundar um málefni nemandans.


6. stig: Mál tilkynnt barnaverndaryfirvöldum

Nú koma enn upp frávik nemanda sem er staddur með mál á 5. stigi og allar leiðir sem nefndar hafa verið til lausnar hafa ekki borið árangur, þ.á.m. teymisvinna viðbragðsferils eða nemandi verður uppvís að sérlega hættulegri hegðun gagnvart sjálfum sér eða öðrum.

Skal þá skólastjórnandi tilkynna barnaverndaryfirvöldum tafarlaust um málið og um leið reifa vinnu skólans fram að því.

Alltaf skal kalla saman nemendaverndarráð áður en tilkynning er send.