Áherslur í Naglasúpunni 2024-2025
Hópavinna er gefandi og góð æfing fyrir frekara nám og atvinnulífið. Hún getur þó verið erfið og stundum lendir öll vinnan á einum aðila í hópnum. Hinir fljóta þá bara með án þess að gera mikið. Til þess að forðast það er nauðsynlegt að hafa gott skipulag. Nýtið tímann vel í kennslustundum og sýnið metnað í vinnu ykkar.
Styrkur hvers og eins þarf að vera augljós frá upphafi. Skiptið verkefninu jafnt á milli ykkar. Ef þú ert reglulega í hópavinnu þá skiptir máli að festast ekki í þægindarammanum. Ef þú t.d. lætur alltaf einhvern annan gera heimildaskrá þá getur það komið í bakið á þér síðar á námsferlinum.
Það er gott að hópurinn punkti niður hugmyndir í sameiningu (e. brainstorm) og vinni svo úr punktunum.
Hittist reglulega í skólanum og talið um efnið. Það er ekki nóg að "hittast" í símanum.
Hópurinn þarf að vinna saman að öllum textanum. Þó svo að hver og einn geti unnið að sínum texta í einrúmi þá er nauðsynlegt að allir fái að koma með ábendingar og lagfæringar. Til þess er gott að nýta Google drive þar sem margir aðilar geta leiðrétt sama skjalið á sama tíma.
Hvernig hópfélagi viltu vera?
Sá sem er alltaf fyrstur til, er fljótur að vinna og gerir verkefnin sjálfur því hann gerir þau best?
Sá sem lætur lítið fyrir sér fara og fylgist með á meðan hinir í hópnum vinna vinnuna?
Sá sem ræðir við hina í hópnum, kemur með hugmyndir, hlustar á hugmyndir hinna og vinnur með þeim í sameiningu að bestu lausninni?
Ef þú valdir þriðja möguleikann sýnir þú félagsþroska og ert mögulega góður hópfélagi.
Hlutverk námsfélaga er að ræða saman um námið og skipuleggja saman. Þannig auka þeir í sameiningu gæði náms hvors annars.
Góðir námsfélagar:
horfa hvor á annann
halda sig við efnið
skiptast á hugmyndum
hjálpast að við að útskýra
skiptast á að tala
snúa sér hvor að öðrum
hlusta hver á annan
Fartölvan er hér fyrst og fremst námstæki. Tilgangur þessarar naglasúpu er meðal annars að kenna þér eða rifja upp umhverfið sem tölvan býður upp á.
Þú nýtir leitarvélar til að safna upplýsingum. Google umhverfið til að geyma skjöl á skipulagðan hátt í þar til gerðum möppum á drive ásamt því að þú nýtir Google docks, slides, sheets og jafnvel sites.
Í hópavinnu er mikilvægt að einn taki að sér að búa til skjal og deili svo með öllum í hópnum þannig að allir hafi jafna möguleika á að vinna í því.