Góðar netvenjur

1. Samskipti í Google lausnum.

Það er mikilvægt að nemendur geri sér grein fyrir ábyrgri netnotkun í Google lausnum fyrir skólastarf. Gott er að rifja reglulega upp t.d. netorðin fimm með þeim og ræða um stafræna borgaravitund o.fl. í tengslum við aukna kennslu og nám með þessum verkfærum. 

2. Passaðu þig á því hverju þú deilir með öðrum!

Í Google Workspace kerfi Reykjavíkurborgar er hægt að deila ýmsum upplýsingum og efni á milli notenda. Það er mikilvægt að þú passir að þú sért að deila efninu með réttum notenda og passir jafn mikið upp á að fjarlægja notendur sem eiga ekki erindi í gögnin eins og að deila með þeim. 

3. Persónulegar upplýsingar og Google lausnir. 

Óheimilt er að safna viðkæmum persónuupplýsingum (sjá skilgreiningu) um nemendur, kennara eða annað starfsfólk í Google umhverfi skólans, t.d. upplýsingum um kynþátt, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð eða heimspekilega sannfæringu. 

4. Söfnun persónuupplýsinga.

Það er óheimilt að safna persónulegum gögnum (sjá skilgreiningu) um nemendur, kennara og aðra starfsmenn skólans með  verkfærum í Google lausnum (t.a.m Google Eyðublöð, Töflureiknar og fleira). nema ef upplýsingar eru nauðsynlegar vegna verkefnavinnu nemenda.

5. Gögn og gagnanotkun

Ekki geyma hvað sem er í skýinu. Veittu því sérstaka athygli hvað er verið að geyma og afhverju. Veittu öllu sem gætu talist vera persónuupplýsingar eða viðkvæmar upplýsingar sérstaka athygli og leiddu hugan að því hvort veraldarvefurinn eða alnetið sé góður geymslustaður fyrir það. Nánari upplýsingar hér. 

6. Höfundarréttarlög og Internetið.

Nauðsynlegt er að virða höfundarrétt inn í Google umhverfi Reykjavíkurborgar. Það er einnig nauðsynlegt að nemendur læri um höfundarrétt og notkun efnis á veraldarvefnum. Sjá ítarefni.

7. Stafrænn bekkur

Þrátt fyrir að verkefnavinna sé mikið að flytjast yfir í stafrænt umhverfi er áfram nauðsynlegt að fylgjast með því sem nemendur okkar eru að gera. Komi upp grunur um að verið sé að misnota kerfið á einhvern hátt skal tilkynna það til næsta yfirmanns eða öryggisstjóra tölvudeildar Reykjavíkurborgar. 

8. Myndbirtingar

Það er mikilvægt að skólinn fylgi þeim reglum sem skóla- og frístundasvið setur um notkun og meðhöndlum ljósmynda í skólastarfi. 

Nemendum er heimilt að vinna með myndir sem hluta af verkefnavinnu í skólastarfi sem háð er aðgangsstýringum bundnar við samnemendur og kennara. Mikilvægt er að nemendur sjálfir eru ekki meginviðfangsefni myndefnisins heldur er myndvinnsla einungis heimil sem hluta af verkefnavinnu. Engir utanaðkomandi aðilar hafa aðgang að myndefninu nema þeir séu skilgreindir sérstaklega.  

Öll myndbirting skal vera í samræmi við leiðbeiningar um myndatöku og myndbirtingar í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborga sem aðgengilegar eru hér: 

https://reykjavik.is/leidbeiningar-um-myndatoku-og-myndbirtingar-i-skola-og-fristundastarfi 

https://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/leidbeiningar_um_myndatoku_og_myndbirtingar_30012020_1.pdf


9. Tölvupóstur í Google umhverfinu

Tölvupóstur í Google skólaumhverfinu er ætlaður til notkunar fyrir verkefnavinnu með nemendum. Starfsfólk á ekki að nota lausnina fyrir skýrslur, skjöl, áætlanir eða hvers kyns gögn sem gætu innihaldið persónuupplýsingar. Áfram skal nota, tölvupóstlausn Microsoft og netfangið frá Reykjavíkurborg sem endar á @rvkskolar.is, fyrir samskipti a milli heimilis og skóla sem og dagleg störf. Mikilvægt er að fylgjast með póstum sem koma þangað. 

10. Google Workspace for Education kerfisstjórar (e. local admin)

Flestir skólar hafa útnefnt sérstakan aðila til að sinna kerfisstjórn í Google skólaumhverfinu og hafa þeir aukin réttindi, verða upplýstir af UTR um breytingar og er ætlað að fylgjast með nýjungum. Þú getur leitað til kerfisstjóra í þínum skóla t.d. ef þig vantar nýtt lykilorð.