Sveinn

Örstutt um Svein

Sveinn leikur rólyndis gítarmúsík með sjálfspeglandi textum. Hann syngur um tímann og tedrykkju, húð og hár, sjónvarpsþáttapersónur, of mikla og of litla kaffidrykkju en aðallega um sjálfan sig. 

Fyrsta plata Sveins Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” kom út seint árs 2013 og önnur plata hans Skrifstofuplanta leit ljós vorið 2020. Skrifstofuplanta hefur fengið fína dóma og spilun í útvarpi. Þriðja platan Tíminn og tevatnið" kom út haustið 2023.

Aðeins meira um Svein

Sveinn steig sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni í Hafnarfirði í bílskúrsböndum sem táningur. Á sama tíma sótti hann ýmis námskeið í gítarleik og var í rafbassanámi hjá Birgi Bragasyni í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Árið 2001 fór Sveinn til Danmerkur í tónlistar-lýðháskólann Danebod Hojskole þar sem hann sótti tíma í tónfræði og tónsmíðum auk þess að semja tónlist og spila með skólahljómsveitinni. Á tímabilinu 2002-10 var Sveinn í ýmsum hljómsveitum, þ.á.m. Girlieboys, Lófi og Juel Juel Juel.

Sumarið 2013 fór Sveinn að koma fram einn með gítarinn og flytja eigin lög. Um haustið leit fyrsta sólóplata Sveins dagsins ljós. „Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” samanstendur af 11 lögum og textum eftir Svein og eru allir textar á íslensku. Platan var gefin út af Sveini og fjármögnuð með stuðningi frá FÍH og Tónlistarsjóði. Lagið „MacGyver og ég“ af plötunni var valið eitt af 30 bestu íslensku lögum ársins 2013 árs að mati starfsmanna útvarpsþáttarins og vefsíðunnar Straumur (straum.is). Lagið kom síðar út á safnplötunni „Made in Iceland 7“ gefinni út af Iceland Music Export ætluð sem kynning á íslenskri tónlist á erlendum markaði.

Eftir að platan kom út hefur Sveinn verið iðinn við að koma fram á smærri og stærri tónleikum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og af og til annarstaðar á landinu og meðal annars komið fram á alþjóðlegu söngvaskáldahátíðinni Melodica Festival 3 ár í röð. Sumarið 2016 fór í tónleikahald í Englandi og bar þar hæst þátttaka á tónlistarhátíðinni Liverpool SoundCity+ en þar kom Sveinn fram á sérstöku sviði ætluðu nýjum alþjóðlegum tónlistaratriðum.

2017-20 fór í að semja tónlist og upptökur en 26. apríl 2020 kom út 8 laga platan Skrifstofuplanta“. Platan hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda og var m.a. valin plata vikunnar á Rás 2 í maí 2020.  Titillag plötunnar  fékk talsverða spilun snemmsumars og náði inn á vinsældarlista rásar 2 .

29. október 2023 kom svo út þriðja plata Sveins Tíminn og tevatnið".


sveinngudmundsson@sveinngudmundsson.com