Áherslur á nýsköpun og stafræna tækni í skólastarfi hafa verið áberandi síðustu ár með vaxandi kröfum um tækninotkun og hæfni sem er tengd við nýjar áherslur 21. aldarinnar. Að sama skapi er textíliðnaðurinn að breytast ört. Stafrænar áherslur í hönnun og framleiðslutækni og ný viðhorf um hvernig má nýta nútíma tækni í textíl í bland við hefðbundnar aðferðir eru orðnar mjög áberandi. Það er því greinilegt að kennsla í textílmennt þarf að huga að og taka mið af þessum breyttu áherslum. Margir spennandi möguleikar eru í boði fyrir textílmennt til að samþætta stafræna tækni og handverkið á skapandi hátt.
Hér á landi hefur verið hröð þróun í uppbyggingu skapandi rýma sem leggja áherslu á nýsköpun og stafræna tækni. Margir grunnskólar eru nú búnir að setja upp snillismiðjur, eða "makerspaces", þar sem er hægt að nálgast ýmis konar stafrænan búnað sem nýta mætti í textílkennslu. Snillismiðjur eru rými þar sem þátttakendur nota skapandi aðferðir við framleiðslu og sköpun með ýmsum verkfærum, tólum, tækni og handverki. Þessi rými sameina oft tæknilegar framleiðsluaðferðir við sköpunarhæfni og hlúa að þátttöku, hugviti og lausnaleit.
FRÁ HUGMYND TIL AFURÐAR
Kennsluleiðbeiningarnar eru ætlaðar sem stuðningur við að tileinka sér hæfnina við að nota búnaðinn í tengslum við textílvinnu og eru settar upp sem skref fyrir skref leiðbeiningar frá hugmynd til afurðar með áherslu á sköpun. Gefinn er innblástur fyrir verkefnum, en hægt er að aðlaga verkefnin að hugmyndum, og getu þess hóps sem um ræðir.
Á síðunni er einnig hægt að finna tengla að þeim hugbúnaði sem hefur reynst vel að nota með tækjunum, áhugaverða og gagnlega tengla með frekari fróðleik og upplýsingum um notkun stafrænnar tækni í textílmennt, innblástur og dæmi um listamenn sem nota stafræna tækni með texíl.
Verkefnið er afrakstur lokaverkefnis við listkennsludeild Listaháskóla Íslands sem var unnið í samstarfi við Mixtúru sem er sköpunar- og upplýsingatækniver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur (SFS). Í Mixtúru er lögð megináhersla á miðlun, ráðgjöf og starfsþróun um skapandi og framsækna tækninotkun í námi, kennslu og starfi. Þar er starftæk snillismiðja með ýmis konar stafrænum búnaði sem hefur þann tilgang að gera starfsfólki SFS kleift að kynnast nýjungum í stafrænum tæknibúnaði sem nýta má í kennslu og félags-og tómstundastarfi. Auk þess heldur Mixtúra utan um Búnaðarbanka SFS þar sem boðið er upp á fjölbreytt náms- og kennslugögn fyrir starfsfólk SFS til leigu án endurgjalds.