Bókin Indjáninn er eftir Jón Gnarr og kom fyrst út árið 2006.
Sögð er saga drengs sem elst upp í Reykjavík á áttunda áratugnum. Hann glímir við mikla námserfiðleika og á foreldra sem hafa miklar áhyggjur af honum. Strákurinn er í greiningarferli og gengur illa í skóla en á vini sem bralla ýmislegt utan skólans. Hann lendir í fjölbreyttum hversdagsævintýrum. Höfundur kallar bókina sjálfsævisögulega skáldsögu.
Bókin Vertu ósýnilegur er eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og kom fyrst út árið 2017.
Sögð er saga drengs sem flýr undan stríðsátökum í Sýrlandi og lendir í þeim hremmingjum sem fjöldi fólks hefur upplifað í leit að betra lífi í Evrópu. Saga stúlku sem hefur búið með fjölskyldu sinni á Íslandi í nokkur misseri fléttast líka inn í bókina. Sú fjölskylda hafði líka flúið stríðið í Sýrlandi og spennandi er að fylgjast með hvort allar sögupersónur lifi af.
Bókin The Boy in the Striped Pyjamas er eftir John Boyne og kom fyrst út árið 2007. Bókin verður lesin á ensku.
Sagan gerist við útrýmingarbúðir nasista í seinni heimstyrjöldinni. Sögð er saga af vináttu tveggja drengja sem búa við mjög ólíkar aðstæður. Annar er sonur foringja í her nasista en hinn er fangi í útrýmingarbúðum. Óréttlæti og ofbeldi nasismans er sýnt með saklausum augum barnsins sem skilur ekki af hverju vinur hans er fastur hinum megin við girðinguna.
Bókin Flugdrekahlauparinn er eftir Khaled Hosseini og kom fyrst út á íslensku árið 2005.
Sögð er saga af vinunum Amir og Hassan. Þeir eiga fátt sameiginlegt annað en gagnkvæma vináttuna og líf þeira fléttast saman á ótrúlegan hátt. Sagan fjallar um mannleg samskipti, vináttu og svik, ástir og örlög. Sögusviðið er stríðshrjáð Afganistan. Þrátt fyrir stríð, hörmungar og ótrúlega grimmd bæði einstaklinga og yfirvalda gefur fólk ekki upp vonina um betra líf.
Lestrardagbók er skilað í fjórum (4) hlutum og í hverjum hluta á að vinna að minnsta kosti eitt valverkefni.
Þú velur hvort þú vinnur verkefni á pappír (skrifaðu/teiknaðu inn í útprentaða lestrardagbók) eða hvort þú notar rafræna miðla til að setja upp verkefnið og tengir það inn í rafræna lestrardagbók með tengli, skjáskoti eða öðrum leiðum sem henta verkefninu þínu.
Veldu verkefni úr listanum hér fyrir neðan:
Lýstu aðalpersónunni og andstæðunni:
Skrifaðu sex til 10 (6-10) lýsingarorð sem lýsa aðalpersónu bókarninnar. Finndu síðan samheiti OG andheiti þessara orða.
Gott er að setja verkefnið upp í þremur dálkum.
Lýstu persónu með hugtakakorti:
Settu nafn persónunnar í miðjuna.
Notaðu bæði orð og myndir til að lýsa persónunni.
Lýstu fjölbreyttum þáttum persónunnar (útliti, skapgerð, félagslegri stöðu, áhugamálum, búsetu, aldri, tilfinningalífi, forréttindum o.fl.)
Auglýstu bókina:
Búðu til auglýsingu fyrir bókina. Í auglýsingunni þurfa að vera bæði myndir og texti og hún þarf að sannfæra fólk um að bókin sé þess virði að lesa hana.
Kahoot um kafla:
Búðu til fjórar krossaspurningar úr síðustu köflum sem þú last. Með hverri spurningu þarftu að hafa fjóra (4) svarmöguleika og merkja rétta svarið með stjörnu. Þú getur búið spurningarnar til á Kahoot og skilað skjáskotum eða skrifað þær upp á annan hátt.
Skrifaðu fréttina:
Veldu ákveðinn atburð í bókinni og skrifaðu frétt um hann. Hafðu grípandi fyrirsögn á fréttinni og skrifaðu textann eins og hann eigi að birtast á vefmiðli á borð við visir.is eða ruv.is.
Upplestur:
Lestu kafla úr sögunni upphátt og skilaðu upptöku af lestrinum. Vandaðu framsögn og túlkaðu textann til að halda athygli hlustenda.
Meðmæli á Instagram:
Skrifaðu stutt skilaboð til vinar/vinkonu eins og þú gætir sent á Instagram eða öðrum samfélagsmiðli. Útskýrðu hvers vegna þetta er einmitt rétta bókin fyrir hán/hana/hann.
Skrifaðu orðalista:
Skrifaðu orðskýringar fyrir 5-10 orð sem skipta miklu máli í síðustu köflunum sem þú last.
Myndglósur:
Glósaðu efni síðustu kafla sem þú last með einföldum myndum og örstuttum textum.
Í þessari kynningu á canva.com eru leiðbeiningar og kennslumyndbönd fyrir byrjendur í myndglósugerð.
Lagalisti:
Veldu 1-3 lög sem þér finnst lýsa bókinni á einhvern hátt. Taktu fram nafn lagsins og flytjanda eða höfund. Útskýrðu stuttlega hvernig lögin tengjast sögunni eða sögupersónum.
Landakortið:
Teiknaðu landakort sem sýnir hvar sagan gerist. Merktu 3-5 atburði eða mikilvæga staði í sögunni inn á kortið.
Bókakápa:
Hannaðu nýja bókakápu eða forsíðu á bókina. Gættu þess að nafn bókarinnar sé skýrt og að nafn höfundar komi líka fram. Myndskreyttu á viðeigandi hátt.
Allt tengist:
Skrifaðu bréf til aðalpersónu sögunnar og útskýrðu fyrir henni hvernig saga hennar tengist þér og þínu lífi.
Tölfræði lestrardagbókarinnar:
Settu upp töflu sem sýnir hvað þú hefur lesið mikið síðustu tvær til fjórar (2-4) vikur. Settu upplýsingarnar úr töflunni fram í myndriti, t.d. línuriti.
Skrifaðu ljóðið:
Skrifaðu ljóð sem lýsir átökum og/eða tilfinningum sem birtast í bókinni sem þú ert að lesa.
Bókarýni á netinu:
Stendur eitthvað um bókina á netinu? Gerðu stutta samantekt um það sem þú finnur.
Hvað ef...?
Hvað ef aðalpersóna sögunnar væri af öðru kyni en hún er í bókinni? Hefði sagan verið eins? Skrifaðu hugleiðingar þínar um þessa spurningu.
Tuttugu árum síðar:
Ímyndaðu þér hvað ein sögupersónan gæti mögulega verið að gera 20 árum eftir að sagan gerist og skrifaðu það niður. Hvers vegna sérðu hana fyrir þér í þessum sporum.
Tiktok myndband:
Settu þig í spor sögupersónu og taktu upp tiktok myndband sem hún sendir frá sér til að vekja athygli á stöðu sinni.
Emoji lýsing:
Veldu eina persónu í sögunni og lýstu henni með fimm emoji myndum (tjáknum). Skrifaðu stutta útskýringu af hverju þú velur þessi tjákn.
Tímalína sögunnar:
Settu upp tímalínu sem sýnir mikilvægustu atburði sögunnar frá upphafi til enda. Notaðu bæði texta og myndir til að lýsa söguþræðinum vel.
Nýtt upphaf:
Skrifaðu nýja byrjun á bókina. Þú skrifar fyrstu efnisgreinina, 50-100 orð. Þú þarft að passa að bókin geti síðan haldið áfram eins og hún er skrifuð.
Söguvegur:
Söguvegur er mynd sem lýsir söguþræði bókar. Teiknaður er vegur þvert yfir blað (eða í bugðum um blaðið) og helstu atburðir sögunnar eru tengdir við veginn í réttri tímaröð. Notaðu bæði myndir og texta til að gera söguveginn þinn lifandi og skemmtilegan. Mikilvægt er að söguvegurinn sýni söguþráðinn frá upphafi til enda en þú þarft að passa þig að telja ekki upp smáátriði, bara mikilvægustu atburði sögunnar.
Bókadómur:
Gefðu bókinni stjörnur (af fimm mögulegum) og skrifaðu stutta umsögn um hana.
Fjallar bókin um stríð?
Sögur byggja oft á átökum og lýsa jafnvel stríðsástandi. Hvaða átök birtast í sögunni sem þú ert að lesa? Segðu frá hvaða andstæðu pólar takast á í bókinni og lýstu átökunum á milli þeirra.
Tölvupóstur til höfundar:
Skrifaðu tölvupóst til höfundar bókarinnar. Segðu skoðun þína á bókinni og útskýrðu hana vel. Skrifaðu líka spurningar um bókina t.d. um það sem þig langar til að vita meira um. Sumir höfundar eru með eigin heimasíðu en svo er líka hæft að finna netföng rithöfunda á heimasíðu Rithöfundasambands Íslands.
Fimm nýir hlutir!
Skrifaðu niður fimm atriði sem þú lærðir af því að lesa bókina. Það geta verið fimm nýjar staðreyndir, fimm ný orð, fimm nýjar hugmyndir eða blanda af öllu þessu.
Bóka bento:
Taktu mynd af bókinni með 5-10 hlutum sem þér finnst tengjast henni. Skilaðu myndinni með stuttri útskýringu á því hvernig þér finnst hlutirnir tengjast bókinni (skrifaðu texta eða skilaðu hljóðupptöku).
Þú getur skoðað nokkur dæmi í þessu bloggi.
Á myndinni hér fyrir neðan er dæmi um bóka bento um Dagbók Önnu Frank.
Hugmyndir að valverkefnum eru fengnar af Læsisvefnum: https://laesisvefurinn.is/wp-content/uploads/2020/01/40_hugm_les_dagb_2020.pdf