Innan Sveitarfélagsins Árborgar hefur verið öflug þverfagleg samvinna á fjölskyldusviði þar sem frístundaþjónustan hefur orðið að sterkum samstarfsaðila velferðarþjónustu og skólaþjónustu innan fjölskyldusviðs Árborgar og orðið þannig mikilvægur þátttakandi í farsæld barna.
Elja virkniráðgjöf byggir á grunni verkefnis sem heitir sérstuðningur í Zelsíuz og fékk til að mynda íslensku menntaverðlaunin árið 2023 fyrir framúrskarandi þróunarverkefi fyrir samstarf sitt við velferðarþjónustuna kringum verkefnið.
Í grunninn er Elja virkniráðgjöf samstarfsverkefni frístundaþjónustu og velferðarþjónustu og er á ábyrgð fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Árborgar. Grunnhugmyndin er að blanda saman hugmyndafræði “outreach youthwork” og virkniráðgjöf sem velferðarþjónustan hefur hingað til sinnt. Unga fólkinu er mætt á þeirra forsendum og þau studd í gegnum þjónustukerfin í nærsamfélaginu. Markmiðið er einstaklingsmiðað og því er virkni hjá einum ekki sú sama og hjá öðrum. Sumir þurfa stuðning til að finna nám við hæfi eða að komast inná vinnumarkaðinn. Aðrir þurfa meiri stuðning við grunnatriði jákvæðs lífs sem byggist upp af góðum svefnvenjum, mataræði og heilsusamlegu líferni.