Velkomin í Kópavogsskóla
Hérna má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir nemendur skólans og foreldra/forráðamenn þeirra
Skóli hefst
Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og þá hefst einnig mönnuð varsla á gangbraut við Digranesveg. Mikilvægt er að skoða vel stundatöflu nemenda en almennt hefst kennsla hjá nemendum í 1.-6. bekk kl. 8:15 og kl. 8:30 hjá nemendum í 7.-10. bekk.
Undantekningar geta orðið á þessum upphafstímum og er það þá vegna list- og verkgreina eða íþrótta- og sundtíma.
Morgunmatur
Nemendur geta fengið sér hafragraut í morgunmat í matsal skólans. Nemendur í 1.-6. bekk geta borðað á milli kl. 8:00-8:15 og 7.-10. bekk frá kl. 8:15-8:30 sér að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að mæta tímanlega og vera búinn að borða áður en kennsla hefst.
Skipting á völlum
Hérna má sjá skiptingu á fótbolta- og körfuboltavöllum skólans fyrir skólaárið 2024-2025.
Kennarar
Allir nemendur hafa sinn umsjónarkennara og vinna kennarar í árgangateymum. Þannig geta foreldrar nemenda í hverjum árgangi fyrir sig haft samband við hvern þann kennara sem er skráður umsjónarkennari árgangsins.
Hvert er best að snúa sér?
Upplýsingar um almenna námsframvindu/líðan/samskipti- hafa samband við umsjónarkennara.
Upplýsingar t.d. um verkefni, vinnu eða námsmat í ákveðnu fagi - hafa samband við viðkomandi faggreinakennara.
Einnig er hægt að snúa sér til stjórnenda skólans eða til náms- og starfsráðgjafa skólans.
Námsmat í Kópavogsskóla
Lesferill
Lesferill er lestrarpróf sem er miðlægt og lagt fyrir öll börn á Íslandi þrisvar á hverju ári. Ekki er gefin einkunn fyrir lesferil/lestrarhraða heldur birtast niðurstöður sem lesin orð á mínútu. Í lok hvers skólaárs fær hver nemandi útprentað yfirlit um niðurstöður þessarra þriggja prófa og sjá þannig sinn lestrarferil.
Námsmat
Ávallt er verið að meta námsframvindu samkvæmt hæfniviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla jafnt og þétt yfir veturinn.
Hæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla eru fjölmörg og eru þau sett upp á þann hátt að skóli þarf að hafa lokið mati á ákveðnum hæfniviðmiðum við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Undantekning frá þessu eru nemendur með einstaklingsnámskrár.
Í Kópavogsskóla höfum við skipt hæfniviðmiðum niður á árganga til að ná utan um öll hæfniviðmiðin. Stundum kemur fyrir að sama hæfniviðmiðið sé metið oftar en einu sinni yfir skólagönguna.
Hæfnikort nemenda sýna hvaða hæfni nemandi á að búa yfir í hverri námsgrein og í helstu námsþáttum. Niðurstöður námsmatsins er á fimm stiga kvarða. Við endurgjöf er notað litakerfi þar sem grænt merkir að hæfni sé náð, gult merkir að hæfniviðmiðið þarfnist þjálfunar, fjólublátt merkir að nemandi sé á góðri leið í sínu námi, rautt þýðir að hæfni sé ekki náð og blátt táknar framúrskarandi hæfni. Hæfnikort er notað sem leiðsögn yfir skólaárið og er jafnframt grunnur að lokamati.
Námslotur í Mentor halda utan um kennslu og mat í öllum námsgreinum. Mat á viðmiðum er skráð á hæfnikort nemenda sem á að gefa skýra sýn á stöðu nemandans hverju sinni.
Einstaklingsnámskrár
Einstaka nemendur í skólanum eru með einstaklingsnámskrár ýmist í einu eða fleiri fögum og víkja þær námskrár frá markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla og miðar námsmat nemenda þá við þá námskrá. Einstaklingsnámskrár eru gerðar í samstarfi við foreldra/forráðamenn og eru þær undirritaðar af foreldrum/forráðamönnum viðkomandi nemenda.
Að vori fá nemendur námsmat með eftirfarandi hætti:
1.-3. bekkur: Nemendur fá umsögn frá kennurum í hverju fagi fyrir sig sem og almenna umsögn.
4.-5. bekkur: Nemendur fá gefna einkunn í bókstöfum: A, B +, B, C+, C og D sem og almenna umsögn.
6.-10. bekkur: Nemendur fá gefna einkunn í bókstöfum: A, B +, B, C+, C og D.
Mentor
Við hvetjum alla foreldra/forráðamenn að vera með Mentor appið í símanum sínum og fá þannig tilkynningar um leið og eitthvað er sett þar inn. Þar er einnig hægt að tilkynna um veikindi og hvetjum við foreldra/forráðamenn til þess að nýta sér þessa leið.
Leiðbeiningar fyrir Mentor fyrir nemendur og aðstandendur má finna hér.
Leyfisbeiðnir
Allar umsóknir um leyfi fara nú fram í gegnum Mentor, sjá leiðbeiningar hérna.
Uppeldi til ábyrgðar
Í Kópavogsskóla er stuðst við uppbyggingarstefnuna uppeldi til ábyrgðar.
Grundvallaratriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfstjórn og sjálfsaga á jákvæðan hátt, að þau læri að stjórna sér betur og líti inn á við og skoði eigið gildismat með það markmið að fækka árekstrum.
Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn
Kópavogsbær fylgir eftirfarandi ferli vegna fjarveru nemenda úr skóla, hvort heldur er vegna veikinda, leyfa eða fjarveru.
Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvum í námi
Hérna má finna nýuppfærða skilmála vegna afnota af spjaldtölvum.