Hérna má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir nemendur skólans og foreldra/forráðamenn þeirra
Skólahúsnæðið opnar kl. 7:50 og þá hefst einnig mönnuð varsla á gangbraut við Digranesveg. Mikilvægt er að skoða vel stundatöflu nemenda en almennt hefst kennsla hjá nemendum í 1.-6. bekk kl. 8:15 og kl. 8:35 hjá nemendum í 7.-10. bekk.
Undantekningar geta orðið á þessum upphafstímum og er það þá vegna list- og verkgreina eða íþrótta- og sundtíma.
Nemendur geta fengið sér hafragraut í morgunmat í matsal skólans. Nemendur í 1.-6. bekk geta borðað á milli kl. 8:00-8:15 og 7.-10. bekk frá kl. 8:15-8:35 sér að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að mæta tímanlega og vera búinn að borða áður en kennsla hefst.
Hérna má sjá skiptingu á fótbolta- og körfuboltavöllum skólans fyrir skólaárið 2025-2026.
Allir nemendur hafa sinn umsjónarkennara og vinna kennarar í árgangateymum. Þannig geta foreldrar nemenda í hverjum árgangi fyrir sig haft samband við hvern þann kennara sem er skráður umsjónarkennari árgangsins.
Hvert er best að snúa sér?
Upplýsingar um almenna námsframvindu/líðan/samskipti- hafa samband við umsjónarkennara.
Upplýsingar t.d. um verkefni, vinnu eða námsmat í ákveðnu fagi - hafa samband við viðkomandi faggreinakennara.
Einnig er hægt að snúa sér til stjórnenda skólans eða til náms- og starfsráðgjafa skólans.
Námsmat í Kópavogsskóla
Engir formlegir námsmatsdagar eru í Kópavogsskóla heldur eru kennarar að meta kunnáttu nemenda með ýmsum hætti yfir skólaárið. Próf og verkefni eru tilkynnt á Mentor - Dagatal og hvetjum við bæði nemendur og foreldra/forráðamenn að fylgjast vel með þar.
Á fundum bæjarstjóra og menntasviðs haustið 2024 með stjórnendum, kennurum, nemendum og foreldrum kom fram ákall um að samræma matskvarða í grunnskólum Kópavogs.
Jafnframt lagði ungmennaráð fram tillögu til bæjarstjórnar í maí 2025 um að samræma matskvarða í skólunum.
Tekin var ákvörðun um að samræma matskvarða í grunnskólum Kópavogs í öllum árgöngum og varð niðurstaðan eftirfarandi:
Samræmda matskvarða skal nýta við allt námsmat í grunnskólum Kópavogs, hvort sem það er lokamat, mat á einstökum verkefnum, námsmarkmiðum eða hæfniviðmiðum yfir skólaárið.
4 bókstafir í 1.-2.bekk. (B+,B, C+, C)
6 bókstafir í 3.-10.bekk. (A, B+, B, C+, C, D)
Samræmdur matskvarði sem stuðst verður við í grunnskólum Kópavogs frá og með hausti 2025 má sjá hérna að neðan ásamt útskýringum á bókstöfum.
Lesferill
Lesferill er lestrarpróf sem er miðlægt og lagt fyrir öll börn á Íslandi þrisvar á hverju ári. Ekki er gefin einkunn fyrir lesferil/lestrarhraða heldur birtast niðurstöður sem lesin orð á mínútu. Í lok hvers skólaárs fær hver nemandi útprentað yfirlit um niðurstöður þessarra þriggja prófa og sjá þannig sinn lestrarferil.
Reglur um símanotkun nemenda í Kópavogsskóla
Ekki er nauðsynlegt að mæta með síma í skólann þar sem nemendur eru allir með sitt snjalltæki frá Kópavogsbæ til þess að nota í kennslustundum. Mæti nemandi með símann sinn í skólann er nauðsynlegt að foreldrar/forráðamenn undirbúi þá vel í að fylgja reglum skólans.
Nemendum skólans er óheimilt að nota eigin síma í húsnæði skólans á skólatíma. Ekki er heimilt að nota ipad/spjaldtölvu í frímínútum.
Ef nemendur á unglingastigi eru með kortanotkun sína í gegnum símann er heimilt að nota símann sem greiðslu í morgunfrímínútum en eftir það skal síminn fara ofan í tösku. Nemendur eru hvattir til þess að nota kort eða pening frekar en síma.
Mæti nemandi með símann sinn í skólann skal vera slökkt á honum eða hann stilltur á hljóðlausa og titringslausa stillingu og geymdur í tösku nemandans eða í símahóteli sem er í þeim stofum sem unglingadeildin notar. Foreldrar sem þurfa að ná í börnin sín á skólatíma geta hringt á skrifstofu skólans og starfsfólk skólans kemur skilaboðum áleiðis.
Viðurlög við brot á símareglum:
brot - síminn tekinn af nemanda sem getur sótt hann á skrifstofu skólans í lok skóladags. Foreldri/forráðamanni gert viðvart.
brot - síminn tekinn af nemanda og foreldri gert viðvart. Foreldri/forráðamaður getur sótt síminn í lok skóladags.
brot - síminn tekinn af nemanda og foreldri gert viðvart. Foreldri/forráðamaður getur sótt síminn í lok skóladags og síminn er heim í a.m.k. eina viku.
Við endurtekin brot eru foreldrar og viðkomandi nemandi kallaðir á fund stjórnanda og umsjónarkennara.
Reglur um spjaldtölvunotkun
Allir bekkir, árgangar eða stig setja sér reglur um notkun og meðferð á spjaldtölvum sem birtast í bekkjarsáttmála.
Auk þess gildir almennt:
Kennarar stýra snjalltækja notkun í kennslustundum, t.d. hvaða forrit eru notuð og hvenær.
Spjaldtölvur eru lokaðar í upphafi kennslustundar.
Spjaldtölvur eru lokaðar á göngum.
Óheimilt er að nota spjaldtölvur í frímínútum og í matartímum.
Heimavinna lýtur sömu reglum og vinna í ipad í skólanum – einungis er unnið með þau öpp og forrit sem ætlast er til af kennara.
Mentor
Við hvetjum alla foreldra/forráðamenn að vera með Mentor appið í símanum sínum og fá þannig tilkynningar um leið og eitthvað er sett þar inn. Þar er einnig hægt að tilkynna um veikindi og hvetjum við foreldra/forráðamenn til þess að nýta sér þessa leið.
Leiðbeiningar fyrir Mentor fyrir nemendur og aðstandendur má finna hér.
Leyfisbeiðnir
Allar umsóknir um leyfi fara nú fram í gegnum Mentor, sjá leiðbeiningar hérna.
Í Kópavogsskóla er stuðst við uppbyggingarstefnuna uppeldi til ábyrgðar.
Grundvallaratriði stefnunnar er að kenna börnum og unglingum sjálfstjórn og sjálfsaga á jákvæðan hátt, að þau læri að stjórna sér betur og líti inn á við og skoði eigið gildismat með það markmið að fækka árekstrum.
Viðbrögð við ófullnægjandi skólasókn
Kópavogsbær fylgir eftirfarandi ferli vegna fjarveru nemenda úr skóla, hvort heldur er vegna veikinda, leyfa eða fjarveru.
Skilmálar vegna afnota af spjaldtölvum í námi
Hérna má finna nýuppfærða skilmála vegna afnota af spjaldtölvum.
Nýjar reglur um tjónatilkynningar.
https://spjaldtolvur.kopavogur.is/tilkynna-tjon/