Hérna að neðan má sjá þau atriði sem eiga sérstaklega við um unglingastig skólans.
Í Kópavogsskóla telst 7. bekkur til unglingastigs og hefur gert það frá haustinu 2022. Um er að ræða aðlögunar ár fyrir nemendur og smám saman aukast "unglingaréttindin" yfir árið. Um jólin fygja 7. bekkingar miðstiginu á jólaskemmtun en árshátíðina halda þau með öðrum nemendum unglingastigs. Þá eykst einnig aðgengi þeirra að félagsmiðstöðinni Kjarnanum eftir áramótin.
Unglingastig skólans er því frá 7.-10. bekk og telur skólaárið 2025-2026 um 200 nemendur.
Hérna að neðan má sjá ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir nemendur og foreldra.
Heimanám
Að öllu jöfn skal heimanám vera komið inn á Mentor fyrir kl. 16 á fimmtudegi fyrir vikuna á eftir. Fyrirspurnum um heimanám skal beina beint til viðkomandi kennara.
Finna má upplýsingar um heimanám inni á flísinni Dagatal á Mentor.
Frímínútur, nesti og matartími
Frímínútur nemenda á unglingastigi eru frá kl. 9:35-9:55. Nemendur geta borðað nesti í matsal skólans eða keypt sér hressingu þar. Í matsal eru spil og tónlist og eru kennarar á vakt með lykil að spilaskáp sem nemendur geta komist í.
Í mötuneyti skólans er hægt að versla sér samlokur til að grilla, ostaslaufur, og fleirayr í morgunfrímínútunum kl. 9:35-9:55 skv. þeirri verðskrá sem gildir hverju sinni. Greitt er með peningum eða korti.
Verðskrá:
Samloka, langloka, pretzel, croissant með skinku og osti og pizzastykki, 400 kr
Ostaslaufa 300 kr
Kókómjólk og Capri Sun 200 kr
EKKI ER Í BOÐI AÐ FARA AÐ VERSLA NESTI UTAN SKÓLANS Í FRÍMÍNÚTUM OG MATARTÍMUM og biðjum við foreldra og nemendur að virða þessa reglu.
Matartíminn er kl. 11:55-12:25 og er hægt að skrá nemendur sem þess óska í mataráskrift á heimasíðu Kópavogsbæjar, sjá www.kopavogur.is. Við viljum minna á að mataráskrift í grunnskólum landsins er gjaldfrjálst en nauðsynlegt er að skrá nemendur í mataráskrift til þess að þau geti fengið sér að borða.
Námsmat
Engir formlegir námsmatsdagar eru í Kópavogsskóla heldur eru kennarar að meta kunnáttu nemenda með ýmsum hætti yfir skólaárið. Próf og verkefni eru tilkynnt á Mentor - Dagatal og hvetjum við bæði nemendur og foreldra/forráðamenn að fylgjast vel með þar.
Kannanir/námsmatsverkefni eru áætluð 30 mínútur og hafa allir 60 mínútur til þess að leysa þau. Því eiga allir að geta tekið verkefnin í kennslustund og er þannig komið til móts við þá sem þurfa lengri prófatíma.
Nemendum sem ekki skila verkefnum á réttum tíma geta samið við sinn kennara um tveggja vikna viðbótarskilafrest. Að öðrum kosti fær nemandi D fyrir verkefnið. Sein skil hafa áhrif á námsmat.
Sjúkrapróf
Mæti nemandi ekki í könnun/námsmatsverkefni í kennslustund stendur honum til boða að taka prófið á öðrum tíma. Nemandi sem er veikur eða fjarverandi af öðrum ástæðum fær þá D í einkunn fyrir það próf þangað til það hefur verið tekið og rétt einkunn komin í staðinn.
Annan hvorn miðvikudag frá 1. október gefst nemendum færi á að taka próf sem þau hafa misst af. Nemandi skal mæta í próf á næsta sjúkraprófsdegi. Sé nemandi af einhverjum ástæðum fjarverandi getur hann mætt í næsta próf þar á eftir. Eftir það telst nemandi hafa fullnýtt prófaréttinn sinn. Umsjónaraðili þessara prófa setur inn á Mentor hvaða dagar eru sjúkraprófsdagar og birtast þessar dagsetningar öllum, hvort heldur þau eiga eftir að taka prófin eða ekki. Mikilvægt er að nemendur og foreldrar haldi vel utan um hvaða próf þau eiga eftir að taka. Viðkomandi kennarar veita upplýsingar.