7. og 8. bekkur fékk fyrirlestur um heilsu í byrjun febrúar þar sem að farið var vel yfir hvað tengist heilbrigðum lífsstíl. Svefn, mataræði, hreyfing, andleg líðan og hreinlæti/tannheilsa eru atriði sem að falla undir heilbrigðan lífstíl og var sérstaklega imprað á því hversu mikilvægur svefn er fyrir unglinga sem að eru að þroskast og vaxa hratt. Endilega farið yfir glærurnar og takið umræðuna við unglingana ykkar til að dýpka þekkinguna þeirra og styðja við mikilvægi þess að stunda heilbrigðan lífstíl.
Fæðuhringurinn sýnir fæðuflokkana sex. Undirstaða holls mataræðis er að borða fjölbreyttan mat úr öllum fæðuflokkunum. Einnig er mikilvægt að borða margs konar mat úr hverjum flokki því hver fæðutegund hefur sína sérstöku samsetningu næringarefna.
Yfirlit
* Kornvörur
* Grænmeti
* Ávextir og ber
* Fiskur, kjöt, egg, baunir
* Mjólk og mjólkurvörur
* Feitmeti
Mismikið er í sneiðum hringsins til að leggja áherslu á að vægi hvers flokks í hollu mataræði er mismikið.
Vatn er í miðju hringsins til að minna á að vatn er besti svaladrykkurinn. Auk þess eru í hringnum myndir sem minna á mikilvægi fjölbreyttrar hreyfingar fyrir líðan og heilsu þar sem samspil næringar og hreyfingar er tengt órjúfanlegum böndum.
Í fæðuhringnum eru engin sætindi, kökur, kex, ís, sykraðir gosdrykkir eða djús enda eru þessar vörur ekki nauðsynlegar til vaxtar og viðhalds líkamans. Þessar afurðir eru flestar feitar (oft hörð fita) eða sætar (viðbættur sykur) og sumar hvort tveggja. Í þeim er iðulega mikil orka en lítið eða ekkert af nauðsynlegum næringarefnum og er það ástæða þess að þær eru óheppilegar. Sætindi skemma auk þess tennur. Rannsóknir benda einnig til þess að neysla á sykruðum drykkjum, t.d. gosdrykkjum, geti aukið líkur á offitu.
Þessar vörur eru því ekki hluti af hollu mataræði en geta komið inn í litlu magni af og til. Sumum hentar að velja sér nammidag fyrir sætindin til að læra að stilla neyslunni í hóf.