Skipulag skólastarfs í 8. – 10. bekk
Skipulag skólastarfs í 8. – 10. bekk
Skipulag umsjónar í 8. – 10. bekk er þannig háttað að hverjum árgangi er fjór- og fimmskipt og heldur einn umsjónarkennari utan um hvern hóp. Samvinna umsjónarkennara er þó mikil og bera þeir sameiginlega ábyrgð á starfinu í árganginum og vinna saman að tengslum heimilis og skóla. Á unglingastiginu er faggreinakennsla sem þýðir að fagkennarar eru ábyrgir fyrir kennslu hverrar námsgreinar.
Mikið er lagt upp úr hreyfingu og heilbrigðum lífsháttum í skólanum. Nemendur í unglingadeild sækja íþróttir og sund auk þess sem fjöldi valgreina er í boði þar sem hugað er sérstaklega að þessum þáttum. Kynjaskipt er í sundi og sækja stúlkur sund fyrir áramót en drengir eftir áramót.
Kennslustundafjöldi er 24 klukkustundir í 8. bekk og skiptast námsgreinar nemenda í kjarna og bundið val. Í 9. bekk er kennslustundafjöldi 25 klukkustundir og skiptast námsgreinar nemenda í kjarna og frjálst val. Í 10. bekk er kennstundafjöldi 24 klukkustundir á viku og skiptast námsgreinar nemenda í kjarna og frjálst val.
Nemendur í 8. bekk stunda nám í bundnu list- og verkgreinavali en býðst ekki frjálst val. Nemendur í 9. og 10. bekk stunda nám í frjálsu vali sem er til viðbótar kjarnagreinunum. Boðið er upp á fjölmargar mismunandi valgreinar í skólanum og er í flestum þeirra um blöndun að ræða milli árganga í hópum. Lögð er áhersla á að nemendur vandi val sitt og séu meðvitaðir um inntak þeirra námsgreina sem þeir velja. Val nemenda getur styrkt stöðu þeirra við umsókn í framhaldsskóla geti þeir sýnt fram á sérhæfingu í námi sem vísar inn á ákveðnar brautir framhaldsskólans. Valgreinarnar eru aðallega kenndar í Árbæjarskóla en einnig er boðið upp á valgreinar í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og Borgarholtsskóla.
Framhaldsskólaáfangar í kjarnagreinunum sex (íslensku, ensku, norðurlandamáli, stærðfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði) standa nemendum til boða en forsendan fyrir slíku vali er að nemendur hafi lokið matsviðmiðum 10. bekkjar í viðkomandi grein. Framhaldsskólaáfangarnir eru stundaðir í fjarnámi í samstarfi við framhaldsskóla.
Að gefnu tilefni skal nemendum bent á að hver og einn velur sér þá leið í námi sem viðkomandi telur henta sér best. Varast skal að velja með það í huga að gera eins og besti vinurinn eða vinkonan.
Val nemenda hefur áhrif á skipulag komandi skólaárs og því verða breytingar á vali mjög erfiðar eftir að skóli hefst í haust.
Það skal tekið fram að aðstæður geta valdið því að ekki verði hægt að verða við öllum óskum nemenda um fyrsta valáfanga og mun þá næsti kostur verða fyrir valinu og síðan koll af kolli.
Skipulegt nám og íþróttaiðkun utan skóla metið sem valgrein
Í lögum um grunnskóla frá 2008 segir: ,,Heimilt er að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem hluta af grunnskólanámi samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Jafnframt er heimilt að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að markmiðum skólastarfs”.
Með hliðsjón af framansögðu gefst nemendum Árbæjarskóla í 9. – 10. bekk kostur á að velja nám við aðra skóla. Árbæjarskóli getur viðurkennt slíkt nám sem hluta af valgreinum. Skólayfirvöld telja eðlilegt að viðurkenna nám sem uppfyllir ákveðin skilyrði, enda sé það í anda aðalnámskrár grunnskóla. Nemandi getur sótt um annað formlegt nám að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ætíð er það samt skólinn sem ákveður endanlega hvaða nám hann viðurkennir sem hluta af valgreinum sínum miðað við lögboðinn kennslustundafjölda á viku. Forsendur fyrir umsókn eru m.a. þær að námið sé formlegt, til sé áætlun um námið, markmið og mat á árangri, tímasókn skráð og að allur kostnaður sé greiddur af foreldrum. Foreldrar bera ábyrgð á þessu námi barna sinna gagnvart Árbæjarskóla og eiga að láta vita ef einhver misbrestur verður á.
Hver nemandi getur fengið mest metnar 2 klukkustundir á viku stundi hann nám utan skóla eða íþróttir.
Dæmi um skipulagt nám og íþróttaiðkun sem skólastjórn Árbæjarskóla mun samþykkja að meta til valgreina eru: samkvæmisdans, fótbolti, handbolti, karate, skylmingar, fimleikar, hestaíþróttir, ballett, tónlist, myndlist og leiklist, svo fátt eitt sé nefnt. Nemendur sem ætla að fá fag utan skóla metið þurfa að merkja sérstaklega við það á valblaðinu sínu þegar þeir velja fyrir komandi skólaár. Síðan þurfa nemendur að skila til skrifstofu skólans staðfestingu (sjá eyðublað) frá viðkomandi skóla / íþróttafélagi í síðasta lagi 20. september 2023.