Erindi kl. 11:50

Til að taka þátt í málstofunni skal smella á viðeigandi mynd í dagskránni á forsíðu

Athugið að málstofurnar (kynningar og umræður) verða teknar upp og stefnt er að því að þær verði aðgengilegar í 72 klst í gegnum tengla á vefsíðu Höfuð í bleyti. Upptökurnar verða geymdar inn á Microsoft Stream og Google Drive og eytt eftir 72 klukkutíma. Þátttakendum er í sjálfvald sett hvort þeir hafi kveikt á vefmyndavélum og/eða taki þátt í umræðum í gegnum spjallglugga eða með því að kveikja á hljóðnema.

Dagskrá kl. 11:50

Kl. 11:50
Hvað er líkt með frístundastarfi með börnum og starfi stéttarfélaga?

Í meistaraverkefni sínu skoðaði Bryngeir mögulegt hlutverk tómstunda- og félagsmálafræðinga fyrir stéttarfélögin. Hér verður sagt frá því að sýnt var fram á tengingu milli þess sem gert er í frístundastarfi með börnum og því starfi sem fer fram í stéttarfélögunum.

Bryngeir Arnar Bryngeirsson, forstöðumaður í frístundaheimilinu Simbað sæfara og meðstjórnandi í Sameyki.

Kl. 11:50
Styrkjum böndin

Veturinn 2019-2020 keyrði frístundamiðstöðin Tjörnin þróunarverkefnið Styrkjum böndin sem miðaði að því að taka forvarnarstarf í hverfinu fastari tökum og efla foreldrasamstarf og samstarf við aðra aðila sem koma að málefnum barna og unglinga í hverfinu. Verkefnið var keyrt samhliða B-hlutaverkefninu Föruneytið sem frístundamiðstöðin Tjörnin leiddi en unnið var þvert á borgina í samstarfi við aðrar frístundamiðstöðvar ásamt fleiri samstarfsaðilum. Meðal afurða þróunarverkefnanna eru handbók um vettvangsstarf fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva auk þess sem gefin var út handbók um foreldrarölt í þeim tilgangi til að styðja við foreldra í sínu hlutverki að skipuleggja og framkvæma foreldrarölt í sínu hverfi.

Andrea Marel, deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöðinni Tjörninni.

Kl. 11:50
Samstarf við leikskóla

Sagt verður frá þróunarverkefni sem fór af stað sumarið 2019. Búinn til samræmdur verkferill um samstarf frístundaheimila Gufunesbæjar við leikskólana. Tilgangurinn að brúa bilið fyrir börnin frá leikskóla yfir í starf frístundaheimila.

Elva Hrund Þórisdóttir, forstöðumaður í frístundaheimilinu Regnbogalandi og María Una Óladóttir forstöðumaður í frístundaheimilinu Brosbæ.

Kl. 11:50
Hinsegin fyrirmyndir - fellur niður

Verkefnið Hinsegin fyrirmyndir er hluti af innleiðingu Menntastefnunnar í Frístundamiðstöðinni Tjörninni og sló það rækilega í gegn í Hinsegin félagsmiðstöðinni Samtakanna 78 og Tjarnarinnar síðasta vetur. Markmið verkefnisins var að bjóða upp á mánaðarlega fræðslu í félagsmiðstöðinni frá þekktum hinsegin einstaklingum sem teljast fyrirmyndir á einhvern máta. Einstaklingarnir deildu reynslu sinni, ráðum og fjölluðu um málefni sem unglingar í hinsegin pælingum tengdu sérstaklega við. Hinsegin fyrirmynda-kvöldin vöktu mikla athygli og lukku í félagsmiðstöðinni og fór þátttakan, hlýjan og kærleikurinn í tengslum við viðburðina fram úr björtustu vonum.

Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona Hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna 78 og Tjarnarinnar.

Kl. 11:50
104 - opið hús fyrir 4. bekk

Verkefnið gengur út á það að halda opið hús einu sinni í mánuði fyrir öll börn í 4. bekk í Háteigsskóla óháð því hvort þau eru skráð í frístundaheimili Halastjörnunnar eða ekki. Unnið er eftir hugmyndafræði um opið hús þar sem börnin mæta á sínum eigin forsendum og ekki af því þau eru skráð hjá okkur. Þannig viljum við auka áhuga barna á frístundastarfinu, ýta undir virka þátttöku þeirra og kynna starfsemi félagsmiðstöðvarinnar 105. Verkefnið er einnig samstarfsverkefni milli Halastjörnunnar og félagsmiðstöðvarinnar 105 sem sendir starfsmann á hverja opnun og veitir faglegan stuðning.

Ulrike Schubert, forstöðumaður frístundaheimilisins Halastjörnunnar.