Erindi kl. 11:20

Til að taka þátt í málstofunni skal smella á viðeigandi mynd í dagskránni á forsíðu

Athugið að málstofurnar (kynningar og umræður) verða teknar upp og stefnt er að því að þær verði aðgengilegar í 72 klst í gegnum tengla á vefsíðu Höfuð í bleyti. Upptökurnar verða geymdar inn á Microsoft Stream og Google Drive og eytt eftir 72 klukkutíma. Þátttakendum er í sjálfvald sett hvort þeir hafi kveikt á vefmyndavélum og/eða taki þátt í umræðum í gegnum spjallglugga eða með því að kveikja á hljóðnema.

Dagskrá kl. 11:20

11:20
Fagdeild frístundafólks innan Sameykis?

Umræða hefur verið um hvort stofna eigi sér deild innan Sameykis fyrir þá sem vinna á vettvangi frístundamiðstöðva. Hér er tækifæri til að heyra af hugmyndinni og koma skoðun sinni á framfæri.

Bryngeir Arnar Bryngeirsson, forstöðumaður í frístundaheimilinu Simbað sæfara og meðstjórnandi í Sameyki.

11:20
Jaðaríþróttaklúbbur í Fjörgyn og Sigyn

Margir krakkar í dag eru greindir með ofvirkni og/eða athyglisbrest eða eru einfaldlega fullir af orku allan daginn. Hið hefðbundna skólakerfi hentar þessum hópi illa, sem þykir erfitt að sitja lengi, og hefur það endurspeglast í agavandamálum krakkanna. Síðastliðinn vetur byrjuðu tvær félagsmiðstöðvar í Grafarvogi með sértækt hópastarf með áherslu á ADHD úrræði og jaðaríþróttir. Jaðaríþróttir, á borð við snjóbretti, klifur og fjallahjól, eiga það flestar sameiginlegt að vera skapandi einstaklingsíþróttir sem fara út fyrir boxið. Markmið klúbbanna er að styrkja krakka sem fóta sig ekki innan skólakerfisins eða í hefðbundnum hópíþróttum og að beina orku þeirra í jákvæðan farveg

Elías Arnar og Hlynur Örn Gestsson frístundaleiðbeinendur í félagsmiðstöðinni Sigyn og Konni Gotta frístundaleiðbeinandi í félagsmiðstöðinni Fjörgyn.

11:20
Útivist og útinám

Sagt verður þróunarverkefni sem fór af stað haustið 2019. Starfsmaður fór á milli staða með verkefni tengd útivist og útinámi þar sem tilgangurinn var m.a. að jafna tækifæri barnanna til þátttöku í slíkum verkefnum. Upplifun, reynslunám, samvinna og jöfn tækifæri eru meðal áhersluatriða.

Ásgerður B. Ólafsdóttir forstöðumaður í frístundaheimilinu Hvergiland, Ásrún Ýr Rúnarsdóttir forstöðumaður í frístundaheimilinu Tígrisbæ og Heimir Stefánsson, starfsmaður Tígrisbæjar og Miðstöðvar útivistar og útináms.

11:20
Vettvangsvinna (e. field work) í Reykjavík – lærum af reynslu Gautaborgar

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri Tjarnarinnar segir frá ferð þverfaglegshóps starfsmanna Reykjavíkurborgar til Gautaborgar þar sem þeir kynntu sér vettvangsvinnu. Fenginn var styrkur frá Youth áætlun Erasmums+ haustið 2019 til að fara til Gautaborgar. Guðrún mun segja frá aðdraganda þess að farið var í þessa ferð, þá vegferð af hverju ástæða væri til að auka vettvangsstarf í Reykjavík og af hverju Gautaborg. Hún mun segja frá hvernig ólíkir aðilar á borð við félagsmiðstöðvar, lögreglu, félagsþjónustu, barnavernd, skóla og annara í uppeldisumhverfi barna vinna saman að því að bæta umhverfið og gera það öruggara. Þessi ferð var hluti af vegferð að fá að stofna flakkandi félagsmiðstöð og ýta við því að vettvangsstarfinu yrði settur skýrari rammi. Sumarið 2020 var sett inn í reglur um félagsmiðstöðvar: ,,Félagsmiðstöðvar sinna reglulega vettvangsstarfi innan og utan opnunartíma félagsmiðstöðva í þeim tilgangi að hlúa að verndandi þáttum og lágmarka áhrif áhættuþátta í umhverfi unglinga með það að markmiði að styrkja félagslega stöðu unglinga og skapa þeim aðstæður þar sem þeir geta notið æsku sinnar í öruggu umhverfi“.

Guðrún Kaldal, framkvæmdastjóri í frístundamiðstöðinni Tjörninni.

11:20
Siðfræðikennsla í frístundastarfi

Frístundaheimilið Undraland hlaut þróunarstyrk árið 2019-2020 til að efla siðfræðikennslu í frístundaheimilinu, vinna að fræðsluefni og koma á fót heimasíðu um siðfræðikennslu í frístundastarfi. Verkefnið var unnið í samstarfi við háskólasamfélagið, með það að markmiði að efla siðfræðilega vídd frístundastarfs og gera starfsfólki og börnum auðveldara fyrir að ræða hinn siðferðilega veruleika með gagnrýna hugsun í fararbroddi. Verkefnið tók mið af og var þróað í frístundastarfi fyrir 1. og 2. bekk, en einnig unnið þannig að það geti nýst öllum aldurshópum, öðru tómstundastarfi, inn í skólastofuna, foreldrum og öðrum forráðamönnum.

Ellert Björgvin Schram, verkefnastjóri þróunarverkefnisins og starfsmaður í frístundaheimilinu Undralandi og Eyrún Eva Haraldsdóttir, forstöðumaður frístundaheimilisins Undralands.