XQ er leiðandi stofnun í Bandaríkjunum sem helgar sig því að endurhugsa framhaldsskólann, e. high-school. XQ vinnur með skólum:
til að færa nemendur út úr kennslustofunni og inn í nærsamfélagið
til að gera nemendur að þátttakendum í hönnun námskrárinnar þar sem áhersla er á verkefnamiðað nám
til að endurhugsa hvernig frammistaða nemenda er metin
við að útbúa verkfæri í samstarfi við kennara á vettvangi
XQ módelið byggir á sex frumgildum eða grunnreglum:
Skýr stefna og menning (Strong mission and culture) - Gildi skóla sett fram á skýran hátt með það að markmiði að sameina hagsmunaaðila í tilgangi sínum.
Merkingarbært og virkt nám (Meaningful, engaged learning) - Samþættandi og virkjandi skipulag náms sem hjálpar nemendum að þróa þekkingu á efni og margvíslega hæfni.
Hlýleg og traust sambönd (Caring, trusting relationships) - Áhersla á að kynnast nemendum vel, bæði innan skóla og utan og byggja upp jákvæð samskipti traust en um leið háleitar væntingar. Sambönd og tengsl knýja tilfinningu um að nemendur tilheyri.
Nemendur hafa rödd og val (Youth voice and choice) - Raunveruleg og viðeigandi tækifæri fyrir nemendur til að byggja upp sjálfstæði, taka ábyrgð og þróa sjálfsmynd sína.
Samstarf við nærsamfélag (Community partnerships) - Tengsl sem opna á nám í ,,raunheimum" til að bjóða nemendum upp á dýrmæta reynslu sem hjálpar þeim að sjá fyrir sér líf sitt utan og eftir skólann.
Skynsamleg notkun á tíma, rými og tækni (Smart use of time, space, and tech) - Óhefðbundið tímaskipulag, nýsköpun og umbætur á grunni gagna. Sveigjanleiki í nýtingu á húsnæði og mannauði. Tækni sem bætir og eflir nám.
Þessar grunnreglur eru í kjarna hvers skóla sem tekur XQ módelið upp. Þær fela í sér samtals 25 undirliði sem skilgreina hverja þeirra frekar en samantekt á meiningu þeirra má sjá í upptalningunni hér að ofan.
Áherslan er á nám og að veita nemendum þá reynslu, tækifæri og stuðning sem þeir þurfa til að vaxa sem XQ námsmenn. Þetta birtist í hinum fimm námsmarkmiðum XQ um að nemendur:
nái afburðatökum á öllum tegundum læsis
öðlist grundvallarþekkingu
verði frumlegir í hugsun fyrir heim á krossgötum
taki virkan þátt í að leysa krefjandi vandamál
verði námsmenn fyrir lífstíð (learners for life)
Á heimasíðu XQ er að finna öll gögn og verkfæri sem skóli þarf til að hefjast handa og vinna eftir módelinu. Með því að smella á myndina hér að neðan ferðu beint inn á safn verkfæra sem hjálpa skólum að vinna að hverju af áðurnefndum námsmarkmiðum. Undir hverju yfirmarkmiði er að finna undirþætti sem er lýst nánar og verkefni sem hönnuð eru til að styrkja þáttinn fylgja einnig. (XQ Institute, e.d., How to design a super school), (XQ Institute, e.d., XQ Design principles.)
Þegar XQ módelið er skoðað í samhengi við innleiðingu leiðsagnarmats, sem er meginefni þessa vefs, er í raun áhugaverðast að velta fyrir sér hvernig innleiðingin hefði litið út ef XQ módelið réði för.
Innleiðing leiðsagnarnáms í skólasamfélagi eins og Múlaþingi með XQ líkaninu myndi fela í sér heildstæða nálgun sem samræmist meginreglum XQ um einstaklingsmiðað og nemendamiðað nám. Eftirfarandi gæti verið leiðarvísir að innleiðingunni samkvæmt XQ líkaninu að okkar mati.
Fyrsta skref væri að kalla til alla hagsmunaaðila, embættismenn, stjórnendur, kennara, annað starfsfólk skóla, foreldra, nemendur og aðila úr nærsamfélaginu til að fara yfir og finna þá sameiginlegu sýn sem liggja skuli til grundvallar innleiðingunni. Í þessu ferli kæmi á hreint hvaða gildi skólasamfélagið vildi að lægi til grundvallar þeim breytingum á skólastarfi sem framundan væru. Eftir að sameiginleg gildi og sýn lægju fyrir ættu eftirfarandi vörður að leiða innleiðinguna.
Leiðsagnarmat gegnir veigamiklu hlutverki í XQ skólum við að skapa og aðlaga einstaklingsmiðaðar námsleiðir fyrir nemendur. Með stöðugri endurgjöf geta kennarar safnað rauntímagögnum um framfarir nemenda og skilning þeirra. Gögnin eru síðan notuð til að skipuleggja kennsluna, veita markvissan stuðning og aðlaga námsmarkmið eftir þörfum. Þetta rímar vel við meginmarkmið XQ módelsins.
XQ líkanið byggir á þeirri grunnforsendu að námsárangur snúist fyrst og fremst um að ná valdi á hæfni og skilningi fremur en að fylgja fyrirfram ákveðnum tímaáætlunum. Í þessu samhengi er leiðsagnarmat lykilverkfæri til að styðja nemendur í hæfnimiðuðu námi, þar sem það veitir reglulega innsýn í raunverulegar framfarir þeirra í námi og hjálpar kennurum að greina hvar og hvenær nemendur þurfa meiri stuðning eða viðbótarþjálfun. Með því að taka mið af getu nemenda til að tileinka sér hæfni og þekkingu, fremur en tíma í bekk, gerir XQ líkanið ráð fyrir að hver nemandi þróist á sínum hraða. Leiðsagnarmatið myndi því þjóna þeim tilgangi að fylgjast með þessari einstaklingsmiðuðu framvindu, sem stuðlar að því að allir nemendur nái færni og sjálfstæði í námi.
Leiðsagnarmat byggt á XQ líkaninu ætti að styðja nemendur í að taka virkan þátt í eigin námi og þróa ábyrgðartilfinningu gagnvart námi sínu. Sjálfsmat og jafningjamat gegna lykilhlutverki í að þjálfa nemendur í að meta eigin framfarir og greina þarfir sínar. Með því að setja sér námsmarkmið og fylgjast reglulega með árangri sínum öðlast nemendur dýpri skilning á eigin námsferli, auk hæfni til að taka upplýstar ákvarðanir um áframhaldandi nám.
XQ líkanið felur oft í sér samþætt verkefni sem eiga sér fót í raunveruleikanum. Leiðsagnarmat í þessu samhengi myndi meta bæði efnisþekkingu og nauðsynlega færni eins og samvinnu og gagnrýna hugsun. Það myndi veita endurgjöf á áfanga verkefna og varpa ljósi á framfarir. Leiðsagnarmatið myndi einnig fela í sér viðfangsefni sem endurspegla raunveruleikann og áskoranir sem þar er að finna. Þar sem XQ líkanið leggur áherslu á þessa stoð í raunveruleikanum þyrfti leiðsagnarmatið að snúast um verkefni af því tagi í Múlaþingi.
Til þess að XQ nálgunin nái tilætluðum árangri þyrfti að byggja á traustri tæknisamþættingu sem styddi við leiðsagnarmatið. Notkun á stafrænni tækni skiptir sköpum og leiðsagnarmatið ætti því að bera vott um það. Með stafrænum tækjum er hægt að fá endurgjöf og gagnasöfnun án tafar og námsumsjónarkerfi hjálpa til við að fylgjast með framförum nemenda. Gögn sem skapast á vettvangi geta svo nýst til að einstaklingsmiða námsefni og námsframvindu.
Til að innleiða leiðsagnarmat á árangursríkan hátt með XQ líkaninu þyrfti skólasamfélagið að fjárfesta í starfsþróun kennara. Koma þyrfti á lærdómssamfélögum sem ættu að leggja áherslu á árangursríkt leiðsagnarmat og að kennarar fengju þjálfun í gagnagreiningu, þar sem ákvarðanir varðandi nám og kennslu eiga að byggja á gögnum í XQ skólum. Tryggja þyrfti tíma til samstarfs kennara. Lærdómssamfélögin myndu leggja áherslu á árangursríka leiðsagnarmatsaðferð sem kennarar ættu auðvelt með að beita.
Innleiðing leiðsagnarmats með XQ líkaninu myndi endurspeglast í skólamenningunni í heild. Vaxtarhugarfari yrði haldið á lofti og mistök álitin námstækifæri. Endurgjöf væri tíð, markviss og einblínt yrði á umbætur og litið á námsmat sem samstarfsferli kennara og nemenda.
Með því að innleiða leiðsagnarmat á þennan hátt, þ.e. með XQ líkaninu myndi Múlaþing skapa öflugt námsumhverfi sem sífellt aðlagaðist þörfum nemenda, stuðlaði að dýpra námi og undirbyggi nemendur fyrir velgengni í framtíðinni.
Það er mikill samhljómur með leiðsagnarnáminu og XQ ferlinu að nemendur eiga að tileinka sér það að taka ábyrgð á eigin námi. Í innleiðingu leiðsagnarnáms í grunnskólum Múlaþings var ekki farið sérstaklega yfir samþættingu námsgreina í yfirferð á efni en hvatt var til þess að samþætta til að geta farið dýpra í efni og leyfa nemandanum að sýna styrkleika og færni á mismunandi sviðum.
Tæknisamþætting og notkun á kerfum sem gefa nemandanum góða sýn á hans stöðu gagnvart markmiðum er mikilvægur partur af leiðsagnarnáminu, líkt og er lögð áhersla á í XQ líkaninu. Með innleiðingu leiðsagnarnáms var starfsfólk grunnskóla Múlaþings í mikilvægri starfsþróun sem er svo á hendi stjórnenda að fylgja eftir og gefa tíma til að spegla sig og ígrunda til dæmis á kennara- og teymisfundum.
Innleiðing leiðsagnarnámsins hjá Múlaþingi leiddi til jákvæðra samskipta, bæði við starfsfólk innan skóla og í öðrum skólum. Það var ekki í forgrunni að með því að innleiða leiðsagnarnám væri verið að bæta skólamenninguna en það má samt segja að það haldist í hendur, ef nemendur og starfsfólk verða ánægðari og fá að hafa meira að segja um eigið nám ásamt þéttri endurgjöf - að þá verði skólamenning óhjákvæmilega á jákvæðan veg komin.