Á heimasíðu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri stendur um hlutverk hennar:
"Í starfi miðstöðvar skólaþróunar er lögð áhersla á fræðslu, eftirfylgd verkefna, vettvangsathuganir, samræðu, samvinnu og ígrundun í samstarfi við kennara á vettvangi. Unnið er eftir framkvæmdar- og þróunaráætlunum þar sem gert er ráð fyrir mati á starfinu. Verkefnin eru yfirleitt til lengri tíma, þ.e. eins eða tveggja vetra löng og miðast við starfsmannahópa með það að markmiði að efla starfsemi skólanna í heild sinni, stuðla að umbreytingum og þróun. Höfðað er til skuldbindinga þátttakenda um að þróast í starfi til að bæta skólastarf." (Miðstöð skólaþróunar, e.d.).
Einnig segir að markmið þjónustunnar sé að styðja við og efla skólastarf, með fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks skóla og þá með skólaþróun sem markmið. Miðstöðin stendur fyrir rannsóknum og mati á skólastarfi, heldur úti fjölbreyttri fræðslu og að í innan hennar hefur "...orðið uppbygging þekkingar á fjölbreyttum sviðum skólastarfs og menntunar t.d. um samskipti heimilis og skóla, lestur, ritun og lestrarkennslu, stærðfræðikennslu yngri barna, námsaðlögun, fjölbreytta starfshætti í skólum, fagmennsku, starfendarannsóknir og mat." (Miðstöð skólaþróunar, e.d.).
Miðstöð skólaþróunar vinnur að því að aðlaga skólaþróunarverkefni að þörfum þeirra sem eftir ráðgjöfinni hafa óskað og að ráðgjöfin sé þannig skólamiðuð. (Miðstöð skólaþróunar, e.d.)