Haustið 2021 fór af stað þriggja ára innleiðingarverkefni í grunnskólum Múlaþings. Markmiðið var að innleiða Leiðsagnarnám. Sú vinna var leidd af Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og fengu kennarar í byrjun plan yfir árin þrjú og hvaða áherslur yrðu á hverjum tíma. Innleiðingin var þar með orðin fyrirsjáanleg og aðgengileg fyrir þá sem voru að vinna að því að tileinka sér leiðsagnarnámið í daglegu starfi. Þetta er vel hægt að tengja við markmið þessa námskeiðis, sem er að veita innsýn í hvernig lærdómssamfélög eru uppbyggð og hvaða leiðir eru til sem geta stutt við að breyta menningu skóla til að þeirra lærdómssamfélag verði enn öflugra.
Úr kynningu á verkefninu sem sent var til kennara Múlaþings í september 2021:
Markmið með þróunarverkefninu er að styðja skólastjórnendur og kennara í skólum Múlaþings við þróun náms- og kennsluhátta þar sem lögð er áhersla á leiðsagnarnám í daglegu skólastarfi.
Í sama kynningarbréfi kom dagskrá yfir takt hvers skólaárs, til dæmis að hver önn myndi byrja á sameiginlegu námskeiði allra kennara, á miðri önn yrðu samráðsfundir við ráðgjafa MSHA og þeir ýmist á staðnum eða í fjarfundi og þegar liði að annarlokum væri sameiginlegur fjarfundur með öllum kennurum þar sem dregið væri fram hvað var gert, hvaða áskoranir komu fram og hvernig hægt væri að viðhalda þeim vinnubrögðum sem gáfust vel. Þetta yrði síðan endurtekið þessi þrjú ár sem innleiðingin væri í höndum MSHA. Að auki við þetta kom skýrt fram að hægt væri að fá, frá MSHA, ráðgjöf eftir þörfum og að sérstök ráðgjöf yrði fyrir skólastjórnendur á tímabilinu. Lögð var áhersla á það að utanumhald í hverjum skóla væri í höndum ákveðins aðila og að það yrði stefnt að samvinnu innan og milli skóla þannig að allir þátttakendur hefðu námssamfélag til að deila með reynslu og þekkingu um verkefnið.
Til grundvallar vinnunni fengu allir kennarar í Múlaþingi gefins eintak af bók Nönnu Kristínar Christiansen Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? sem komið hafði út sama ár og innleiðingin byrjaði (2021).
Hér má sjá skjáskot úr fyrrnefndu kynningarbréfi sem sýnir fyrirkomulag innleiðingar á skólaárinu 2021-2022. Í bréfinu var líka sýnt hvernig verkefnið myndi verða innleitt í skrefum næstu tvö skólaárin.
Þar fyrir neðan er skjáskot af padled-vegg innleiðingarinnar sem var aðgengilegur kennurum Múlaþings í gegnum verkefnið og er enn. Þarna er yfirferð skólaársins 2022-2023 sýnd og takið eftir að viðfangsefnin eru tilgreind á skýran hátt.
Neðst er skjáskot úr glærum þar sem farið er yfir námsfélaga en það var m.a. viðfangsefni í byrjun vorannar 2023
Með því að kennarar fengu að vita hvernig fyrirkomulagið yrði næstu þrjú árin, fundir og samráðstímar voru dags- og tímasettir með góðum fyrirvara og með því að geta fengið ráðgjöf og stuðning, sérstaklega frá öðrum kennurum og samstarfsfólki, má gefa sér að hafi leitt til þess að þessi innleiðing tókst vel. Daglegt starf fékk tíma til að eflast og dafna innan leiðsagnarnáms-rammans og á padlet-veggnum var sett fram mikið af verkfærum og ítarefni - ásamt öllu því efni sem finna má í bók Nönnu Kristínar (2021).
Takturinn sem lagður var í upphafi hélst svo út þessi þrjú ár og voru væntanlega bæði sigrar og áskoranir á leiðinni hjá hverjum starfsmanni en segja má að innleiðingin hafi verið í anda leiðsagnarnáms þar sem það snýst um að "veita nemandanum leiðsögn sem hjálpar honum til að ná þeim markmiðum sem hann stefnir að. Markmiðin þurfa að vera vel skilgreind svo nemandinn, kennarinn og aðrir sem að náminu koma hafi sama skilning á því hvað sé til marks um að markmiðunum sé náð." (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 10).
Þegar verkefnið var kynnt mér og mínu samstarfsfólki þá var ég umsjónarkennari á miðstigi í Egilsstaðaskóla og á lokaári innleiðingarinnar var ég starfandi sem umsjónarkennari á unglingastigi í Fellaskóla. Það er óhætt að segja að skipulagning og upplegg innleiðingar ásamt stuðningi stjórnenda og mannauðnum á hverjum stað sé það sem skiptir sköpum í slíku verkefni. Neikvæðar raddir heyrðust í byrjun en þegar fram liðu stundir kom á daginn að verkefnið var fyrirsjáanlegt, ekki var verið að biðja um aukavinnu heldur verið að biðja frekar um breytingu á hugarfari og markmiðasetningu. Að hafa farið skipulega í gegnum bókina hennar Nönnu fannst mér sjálfri frábært, ég las fyrir fundina þá kafla sem lágu til grundvallar og það ekki bara af skyldurækni heldur af áhuga og eldmóði. Leiðsagnarmat höfðar mikið til mín og þarna fékk ég tíma til að móta leiðsagnarnámið að mér og mínum nemendahóp án þess að þurfa að gera eitthvað í flýti. Ég fékk tækifæri til að spyrja ráðgjafa MSHA og spyrja samkennara um hvernig væri best að haga málum í anda leiðsagnarnámsins. Þó að ég muni ekki til þess að hafa verið spurð hvort ég, eða samstarfsfólk mitt, hefðum áhuga á því að skoða leiðsagnarnám betur þá tel ég að rökin fyrir þessari innleiðingu án slíkrar spurningar hafi verið gott skref. Mikil fræði og rannsóknir liggja að baki þessari aðferð og ekki síst eru það alltaf nemendurnir, hinir fjölbreyttu og mörgu einstaklingar, sem við erum í samstarfi við í okkar daglega starfi sem eiga að vera aðalatriðið og fá réttmæt tækifæri til að ná settum markmiðum.