Í allri mannkynssögunni hefur verið þörf fyrir að eldri kynslóðir miðli þekkingu sinni og reynslu til þeirra yngri. Lærdómur og viska fyrri kynslóða myndar grundvöll samfélagslegrar framþróunar og undirbýr ungt fólk fyrir fullorðinsárin. Þessi miðlun hefur átt sér stað með formlegum og óformlegum hætti alla tíð.
Samkvæmt umfjöllun Lyng (2024) um skrif Looney, geta rótgróin viðhorf staðið í vegi fyrir nauðsynlegri þróun í skólastarfi. Þá kemur fram að iðnnám og leiðsögn reynslumikilla kennara ættu að vera mikilvægur hluti af skólastarfi. Hann bendir einnig á þær hindranir sem skólastjórnendur mæta í formi rótgróinna viðhorfa sem oft standa í vegi fyrir nauðsynlegum breytingum og þróun í skólastarfi. Þessi viðhorf má líta á sem takmarkandi hugsanagang sem margir kennarar, foreldrar og jafnvel nemendur hafa um hlutverk og eðli skólastarfs.
Félagslegar, tilfinningalegar og þroskaþarfir ungs fólks haldast óbreyttar í tímanna rás. Þessi staðreynd hefur mikil áhrif á skipulag náms og námskrárgerð. Þegar kemur að námsefni og þekkingu þurfa skólar að vera sveigjanlegir og aðlögunarhæfir. Sem dæmi má nefna að forritunarnám sem er mikilvægt í dag gæti verið úrelt eftir fáein ár. Aftur á móti mun færni í félags- og tilfinningaþroska, sem styður nemendur í að þroskast sem siðferðislega ábyrgir einstaklingar og færir lausnamótendur, halda gildi sínu ár eftir ár.
Þegar við mótum framtíðarsýn skólastarfs verðum við að setja þroskaþarfir og færniþróun í forgang. Í heimi örra breytinga er það einmitt sú persónulega færni sem mun hjálpa nemendum að verða árangursríkir, afkastamiklir, sjálfsöruggir og hamingjusamir einstaklingar á fullorðinsárum.
Megináherslan ætti að vera á að þroska færni og eiginleika sem nýtast nemendum til framtíðar. Forritunarmálið sem þeir læra í framhaldsskóla kann að vera gagnslaust eftir nokkur ár, en rökvís hugsun og aðferðir við lausnaleit munu nýtast ævilangt.
Sú hugmynd að efnisþekking sé mikilvægust hindrar okkur í að losa okkur við gamlar hefðir og úreltar kennsluaðferðir.
Á tímum örra breytinga eru tveir þættir óbreytanlegir: Í fyrsta lagi eru þroskaþarfir ungs fólks stöðugar og í öðru lagi byggja öll vel starfhæf samfélög á sameiginlegum grunngildum og sýn.
Framtíðarskólinn snýst ekki um nýjustu tækni, þrívíddarprentara eða gervigreind, heldur um að nýta þekkingu okkar á mennta- og þroskasálfræði. Þegar nemendur sýna litla þátttöku og glíma við vanlíðan, er það oftast vegna þess að grunnþörfum þeirra er ekki mætt. Eðlislæg námshvöt barna er oft bæld niður í skólum af ýmsum ástæðum, það getur verið tilkomið vegna íhaldssemi og hræðslu við breytingar. Helsta áskorun skólastjórnenda í dag er að skapa aðstæður þar sem náttúrulegur áhugi nemenda á að læra og þroskast fær að njóta sín.
Í grein sinni Essential Questions About the Future of School tekur Lyng (2024) fyrir nokkrar mikilvægar spurningar um þróun menntakerfa. Úr þeim völdum við fjórar sem tengjast sérstaklega viðfangsefni okkar:
a) Hverjar eru afleiðingarnar fyrir nemendur við að takast á við áskoranir 21. aldarinnar ef við umbreytum ekki núverandi starfsháttum?
b) Af hverju er þekking okkar á námi svo lítið nýtt við daglega skipulagningu námsupplifana nemenda?
c) Hvernig geta umbreytingar í menntun skapað meiri samheldni í samfélagi okkar og á heimsvísu?
d) Hvar getum við fundið innblástur og dæmi um breytingar sem við getum lært af?
Við stöndum frammi fyrir athyglisverðri þversögn í menntamálum: Á meðan tækni og þekking þróast hraðar en nokkru sinni, standa grunnþarfir nemenda í stað. Félagslegar, tilfinningalegar og þroskaþarfir ungs fólks eru óbreyttar þrátt fyrir stafræna byltingu. Ólíkt tækniþekkingu sem úreldist hratt, halda færniþættir eins og siðferðileg ákvarðanataka, greiningar- og úrlausnarfærni, og félags- og tilfinningaþroski sínu gildi.
Núverandi menntakerfi leggur óhóflega áherslu á efnisöflun og staðlaða þekkingu, sem viðheldur úreltum kennsluháttum. Raunverulegur styrkur framtíðarskólans felst ekki í tækniþróun einni saman, heldur í að byggja á traustum grunni mennta- og þroskasálfræði. Tæknin á að vera stuðningstæki við menntun, ekki drifkraftur hennar.
Skólastjórnendur gegna lykilhlutverki í þessum breytingum með því að skapa menningu sem styður við eðlislæga námshvöt og ryður úr vegi hindrunum sem bæla námsáhuga. Árangursríkur framtíðarskóli verður sá sem best nær að samtvinna tækninýjungar við djúpan skilning á þroskaþörfum nemenda, og skapar þannig námsumhverfi þar sem bæði tækniþróun og grunnþarfir nemenda fá að njóta sín í jafnvægi.
Þrátt fyrir að við búum yfir þekkingu á mikilvægi þess að mæta félagslegum og tilfinningalegum þörfum nemenda, er athyglisvert hversu lítið við nýtum þessa þekkingu í daglegu skólastarfi. Þrátt fyrir að rannsóknir sýna að óbreyttar þroskaþarfir nemenda og eðlislæg námshvöt séu lykilþættir árangursríks náms, festumst við oft í hefðbundnum kennsluháttum sem leggja megináherslu á tækninýjungar og efnisöflun. Þetta misræmi milli þekkingar og framkvæmdar undirstrikar mikilvægi þess að endurmeta hvernig við skipuleggjum námsupplifanir nemenda, með það að markmiði að skapa námsumhverfi þar sem bæði tækniþróun og grunnþarfir nemenda fá að njóta sín í jafnvægi.
Umbreytingar í menntun sem leggja áherslu á jafnvægi milli tækniþekkingar og mannlegra þátta geta haft viðamikil áhrif á samfélagslega samheldni. Með því að horfa ekki eingöngu á tækniþróun, heldur leggja ríka áherslu á félagslega og tilfinningalega færni, siðferðilega ákvarðanatöku og greiningar- og úrlausnarfærni, erum við að undirbúa nemendur fyrir að vera virkir þátttakendur í samfélagi sem þarfnast samvinnu og skilnings. Þegar skólar skapa umhverfi þar sem eðlislæg námshvöt og þroski fær að blómstra, og þar sem grunnþarfir nemenda eru í forgrunni, erum við ekki aðeins að efla einstaklinga, heldur einnig að byggja upp samfélag sem er betur í stakk búið til að takast á við áskoranir samtímans á uppbyggilegan og samstarfsfúsan hátt. Þetta styrkir samfélagslega samheldni bæði í nærumhverfi og á alþjóðavísu, þar sem nemendur læra að skilja, virða og vinna með ólíkum sjónarmiðum og menningarheimum.
Þegar við leitum að fyrirmyndum fyrir breytingar í menntakerfinu ættum við að horfa til þeirra skóla og stofnana sem hafa náð að skapa jafnvægi milli tækniþróunar og grunnþarfa nemenda. Árangursríkar breytingar endurspeglast í umhverfi þar sem eðlislæg námshvöt fær að blómstra og þar sem tekist hefur að samtvinna tækninýjungar við djúpan skilning á þroskaþörfum nemenda. Dæmin sem við getum lært af eru oft þau þar sem skólastjórnendur hafa náð að skapa menningu sem styður við náttúrulega námshvöt, fjarlægja hindranir sem bæla námsáhuga og setja þroskaþarfir og færniþróun í forgang, frekar en að horfa eingöngu á tækniþróun og efnisöflun.
Það er líklegt að víða megi finna hinar heilögu kýr innan skólasamfélaga; í foreldrahópnum, hjá kennurum, stjórnendum og/eða öðru starfsfólki innan menntakerfisins og á öllum sviðum. Við að innleiða leiðsagnarnám í grunnskólum Múlaþings þurftu kennarar og annað starfsfólk, sum hver, að fara út fyrir eigin þægindaramma. Breyttir kennsluhættir kalla á það. Líkt og nefnt er í grein Lyng (2024) þá ætti það að vera eitt af stóru atriðunum innan veggja skóla að hjálpa nemandanum að efla færni og huga að því að þroskaþarfir hvers og eins séu uppfylltar. Efnisöflun og það sem telst "góð" þekking er breytileg eftir tímum en frekar er það styrking einstaklingsins sem sífellt er þörf eftir. Í leiðsagnarnáminu er nemandinn og hans geta er höfð í forgangi og til að ná því þurfa kennarar að "vera reiðubúnir að ígrunda störf sín og auka meðvitund sína um eigin viðhorf og gildi, sem getur verið mikil áskorun." (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 180-181). Það er því afar mikilvægt að innleiðing slíkra kennsluhátta sé gerð í samvinnu þeirra sem að koma. "Árangurinn veltur á því að nægur tími sé til að vinna að þróun verkefnsins." Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 181). Þó svo að starfsfólk fái fyrirfram þriggja ára innleiðingarplan, bók með dæmum og verkfærum og handleiðslu frá ráðgjöfum, þá þarf eftirfylgnin eftir að innleiðingu lýkur einnig að vera til staðar og þá mætti leiða að því líkum að virkilega reyni á að sjá breytingarstarfið í raun. Hinar heilögu kýr leynast nefnilega ennþá í samfélaginu þó svo að innleiðing, sem má telja að hafi heppnast vel, hafi átt sér stað. Það má gera ráð fyrir því að breyting á námsmenningu skóla taki nokkur ár að festast í sessi (Nanna Kristín Christiansen, 2021, bls. 182) og passa þarf að grunnurinn sé traustur og honum viðhaldið þó að áframhaldandi námsmenningaruppbygging eigi sér stað. Það er því um marga anga að ræða og það er krefjandi, sérstaklega á jafn mannmörgum vinnustað og skóli getur verið, þá í þeirri meiningu að skóli sé ekki bara vinnustaður starfsfólksins heldur einnig, og ekki síður, nemandanna. Við innleiðinguna í Múlaþingi var í mörg horn að líta, enda nokkrir grunnskólar þar undir hatti og vegalengdir langar, samfélög að jafna sig eftir heimsfaraldur og að einhverju leyti breyttir tímar. Það var jákvætt skref í sveitarfélaginu að huga að því hvernig framtíðarskóla menn vildu stefna að og með leiðsagnarnáminu var nemandinn settur í forgrunn og lagður rammi fyrir það að fækka hinum heilögum kúm.
Það sem hefur komið fram hér að ofan styður við þær spurningar sem valdar voru úr grein Lyng, Essential Questions About the Future of School (2024) og hugleiðingar út frá þeim. Ef eitthvað er úrelt, þá er það svo en það sem alltaf er til staðar er nemandinn og hans þarfir. Það þarf að vera flétta af úrræðum og stuðningi sem styður við hann og það er hægt að vera með leiðsagnarnámi - þar sem áhugi nemandans er í forgrunni. Kennsluhættir þurfa að þróast með það að leiðarljósi, halda í við samfélagsbreytingar og halda í hin góðu gildi sem við vitum að gagnast nemandanum sem einstaklingi. Ef þetta heppnast, eru allir vinklar skólasamfélagins að eflast og græða, ekki bara á meðan náminu stendur heldur einnig utan þess.