Hagnýtt UT efni fyrir skólastarf

Á undanförnum árum hefur átt sér stað bylting í notkun upplýsingatækni í skólastarfi og margir sem skrifa um gagnleg verkfæri eða hafa hannað vefsíður. Þessi upptalning hér er engan veginn tæmandi en gagnast vonandi einhverjum til að koma sér af stað, í leit að fjölbreyttari verkefnum eða hugmyndum fyrir skapandi skil.

Álfhildur Leifsdóttir

Álfhildur Leifsdóttir skrifar um menntamál á alfhildur.com. Hún hefur m.a. skrifað um kennsluáætlanir í bókmenntum en þær hugmyndir má vel nota í dönsku og ensku.


Dalvíkurskóli

Dalvíkurskóli er þátttakandi í Erasmus+ verkefni þar sem hönnuð hefur verið vefsíða Edurobots með kynningum á öllum helstu róbótum sem henta í skólastarfi. Á síðunni eru upplýsingar um yfir 100 róbóta, hlekkir á heimasíður þeirra o.fl. Þar verða einnig um 25 kennslumyndbönd og kennsluáætlanir þar sem róbótarnir eru í aðalhlutverki. Áætlað er að vefsíðan verði tilbúin í lok október 2020.

Guðný Sigríður Ólafsdóttir kennari er einn þátttakenda og kennir hún meðal annars upplýsingatækni við skólann.

Fjóla Þorvaldsdóttir

Fjóla Þorvaldsdóttir starfar sem leikskólasérkennari. Hún hefur mikinn áhuga á notkun upplýsingatækni í skólastarfi og fjallar um á Fikt hvernig hægt er að vinna með UT og snjalltækni á skapandi hátt.

Google AR & VR

Google AR & VR er vefsíða þar sem sýnt er fram á möguleika gagnaukins veruleika (Augmented reality (AR)) og sýndarveruleika (Virtual Reality (VR)). 

Google Tour Creator vefsíðan býður upp á að búa til sinn eigin 360° veruleika.

Google Expeditions er einn möguleikinn enn til að fara í stafrænar vettvangsferðir.

Gagnaukinn veruleiki er tölvugerður hlutur settur í raunheima í gegnum myndavél svo það lítur út fyrir að hann sé staddur þar í rauninni. 

Sýndarveruleiki er tölvulíkan sem líkir eftir veruleika þannig að notandinn getur lifað sig svo vel inn í tölvugert umhverfi að hann hefur á tilfinningunni að hann sé staddur þar inni og það umhverfi sé raunverulegt. Sýndarveruleiki getur verið námsumhverfi sem gerir kennurum og nemendum kleift að kafa dýpra í námsefni s.s. að kanna hafdjúpin eða framandi lönd. 

Google for Education

Applied Digital Skills vefsíðan útskýrir mjög vel með stuttum, kerfisbundnum myndböndum ýmsar leiðir til vinnu og verkefna innan Google.

Sett eru upp margvísleg verkefni þar sem finna má leiðbeiningar um tímalengd verkefna og hvaða forrit eru notuð við vinnuna. Það má m.a. finna verkefni um gagnvirka sögugerð í Slides. 

Ingileif Ástvaldsdóttir

Ingileif Ástvaldsdóttir skrifar um skólastjórnun, starfsþróun og upplýsingatækni í skólastarfi á Bara byrja. Hún er einnig með hlaðvarpsþætti.

Ingvi Hrannar Ómarsson

Ingvi Hrannar Ómarsson skrifar mikið um menntamál á Ingvi Hrannar. Hann skrifar greinar, segir frá verkefnum með nemendum í máli og myndum og heldur úti hlaðvarpinu Menntavarp.

Krógaból, leikskóli

Leikskólinn Krógaból á Akureyri vann að þróunarverkefninu Snjalltækni í leikskólastarfi. Málræktarstarf var endurskoðað, nýjar námskrár unnar og spjaldtölvur notaðar í skapandi vinnu.

Læsisvefurinn

Menntamálastofnun hefur hannað Læsisvefinn. Vefurinn er verkfærakista fyrir kennara og þar má finna verkfæri og bjargir til að bregðast við niðurstöðum matstækja Lesferils og gera góða lestrarkennslu enn betri. Án efa nýtist eitthvað af verkfærunum við kennslu erlendra tungumála.

Menntamiðja

Menntamiðja - Starfssamfélög skólafólks á netinu er samráðsvettvangur sem er ætlað að tengja saman aðila innan skólasamfélags með því að skapa vettvang til samstarfs um þróun starfsins. Menntamiðja er umgjörð utan um það grasrótarstarf sem sprottið hefur upp í tengslum við starf sem fer fram á samstarfsvettvöngum skólafólks á netinu, eða svokölluðum torgum. 

Tungumálatorg er eitt þessara torga. Tungumálatorg er vettvangur á neti, tengdur námi og kennslu tungumála og fjölmenningarlegu skólastarfi. 

Norðlingaskóli

Norðlingaskóli heldur úti vefsíðunni Úllónolló þar sem sett er inn ýmislegt sem gagnast í námi nemenda og þar eru m.a. síður fyrir dönsku og ensku.

Sandra Rebekka

Sandra Rebekka kennir sjónlistir við Giljaskóla og notar tækni mikið í starfi, kennslu og við námsmat.

Snjallkennsluvefurinn

Bergmann Guðmundsson og Hans Rúnar Snorrason vinna hörðum höndum að því að aðstoða kennara við fyrstu skrefin í tækninotkun og Snjallkennsluvefurinn þeirra er með fjöldan allan af kennslumyndböndum.

Snjallvefjan

Helena Sigurðardóttir hannaði í meistaranámi sínu við Háskólann á Akureyri vefinn Snjallvefjan. Vefurinn er ætlaður einstaklingum sem glíma við námsörðugleika, kennurum þeirra og foreldrum að læra á ýmis forrit sem geta veitt stuðning við nám og daglegt líf. 

Twitter

Á Twitter er öflugt samfélag skólafólks sem tístir undir #menntaspjall. Twitter hefur rofið einangrun kennara með því að veita þeim aðgang að ómetanlegu tengslaneti kennara með þekkingu og áhuga á upplýsingatækni. Kennarar deila m.a. hugmyndum sínum, verkefnum og lausnum við vandamálum sem upp koma varðandi tækni. Kennarar geta spurt spurninga, óskað eftir hugmynd eða sett fram vandamál og gagnleg svör berast fljótt. Afrakstur þessara samskipta eflir kennarann í vinnu og hugmyndaauðgi. Ert þú ekki örugglega þátttakandi í þessu öfluga samfélagi?

Unnur Valgeirsdóttir

Unnur Valgeirsdóttir hannaði vefinn Upplýsingatækni í kennslu og starfi en það var verkefni í námskeiðinu Menntun og upplýsingatækni, MUT1510 við Háskólann á Akureyri.

Valgerður Daníelsdóttir

Valgerður Daníelsdóttir hannaði vefinn Grúsk og gaman en það var verkefni í námskeiðinu Menntun og upplýsingatækni, MUT1510 við Háskólann á Akureyri.

Vallaskóli

Vefsíðan Smiðjur í Vallaskóla er sett upp fyrir námslotur á unglingastigi. Verkefnin eru þannig skipulögð að fram koma upplýsingar um t.d. viðfangsefni, tímalengd og hæfniviðmið. Verkefnin eru tilbúin til afnota fyrir aðra kennara.

ÞNU net-menntabúðir

Í námskeiðinu Þróun náms og kennslu og upplýsingatækni (ÞNU) sem kennt er í framhaldsnámi við HA er fengist við viðfangsefni á sviði náms- og kennsluþróunar þar sem áhersla er lögð á notkun upplýsingatækni. Fjallað er um kennsluhætti og í því efni er áhersla lögð á hagnýtingu upplýsingatækni til að mæta mismunandi þörfum nemenda og efla nám og kennslu allra nemenda. Eitt af verkefnum námskeiðsins er að standa fyrir upplýsingatæknitengdum viðburði og þetta vorið voru menntabúðirnar með aðeins öðru sniði og fóru alfarið fram á netinu

Net-menntabúðirnar fóru fram í mars 2020 með netfundum á ZOOM. Nemendur ÞNU hvöttu áhugasama um notkun upplýsingatækni í skólastarfi að fylgjast með og taka þátt. 

Kynningarnar voru teknar upp og upptökurnar settar inn á vefsíður nemenda þar sem þeir kynntu viðfangsefni sín í texta og með myndböndum.

UTís á Sauðárkróki

Christine Lion-Bailey, Jesse Lubinsky og Micah Shippee

Christine, Jesse og Micah voru fyrirlesarar á ráðstefnunni UTís 2019. Þau voru með vinnustofuna Reality Bytes: Virtual and Augmented Reality Playground. Sýndarveruleiki og gagnaukinn veruleiki er nokkuð sem auðgar upplifun nemenda verulega.

Saman gáfu þau út bókina Reality Bytes: Innovative Learning Using Augmented and Virtual Reality í janúar 2020.

Þau eru öll virk á Twitter Christine, Jesse og Micah.

Ingvi Hrannar Ómarsson spjallaði við þetta hæfileikaríka fólk í tengslum við UTís 2019:

Jesse Lubinsky

Jesse var fyrirlesari á ráðstefnunni UTís 2019. Hann var með vinnustofuna Upping your Classroom Game en þar fór hann yfir tæki og tól til að bæta kennslu, s.s. Google Forms, Flipgrid, Nearpod, Peardeck, og HyperDocs. Hann deildi glærum sem eru öllum aðgengilegar og þar má finna ýmislegt gagnlegt.

Jesse heldur úti vefsíðu þar sem hann setur inn margvíslegt efni.

Jesse skrifar mikið á Twitter og tilvalið að skoða það.

Ingvi Hrannar Ómarsson spjallaði við Jesse í tengslum við UTís 2019, Do you still have those glasses?