Heimspekidagurinn
2022

Í dag, fimmtudaginn 17. nóvember 2022 er haldið upp á heimspekidaginn víða um heim. Haldið er upp á daginn þriðja fimmtudag í nóvember ár hvert. Það var árið 2002 sem fyrst var haldið upp á heimspekidaginn þannig að hann á 20 ára afmæli í ár. Það er auðvitað við hæfi að gera sér glaðan heimspekidag og segja hátt og snjallt:

Húrra fyrir heimspekideginum!

Má bjóða þér eftirrétt?

Í tilfefni dagsins er boðið upp eftirrétt í formi léttrar samræðuæfingar enda upplagt að fá sér spennandi og öðruvísi eftirrétt til að spjalla um á degi heimspekinnar.

Eftirréttinn má bera fram fyrir allan aldur, með örlitlum breytingum eftir því sem við á og það tekur um 30-40 mínútur að klára hann.

Gleðilegan heimspekidag og njótið!

Er þetta eftirréttur?

Markmiðið er að velta vöngum saman um hvað það er sem gerir eitthvað að eftirrétti.

Notaðu hvaða ávöxt sem er, bara einhvern ávöxt sem þú hefur við höndina og spurðu:

Er ávöxtur eftirréttur?

Af þessari einföldu spurningu er líklegt að spinnist góðar samræður um eftirrétti og hvað felst í því að vera eftirréttur. Er það sem þú borðar eftir mat eftirréttur? Er það eftirréttur ef þú borðaðir hann án þess að borða matinn fyrst? Getur eftirréttur verið eitthvað hollt? Þarf eitthvað að gera til þess að búa til eftirrétt t.d. ef þetta er epli þarf þá að vera búið að setja eplin í eplaböku svo það verði eftirréttur?.

Fyrir eldri eftirrétta-pælara er upplögð samræðu-kveikja að horfa á myndbandið "Hvað gerir súpu að súpu?" (hægt að setja íslenskan texta á myndbandið með því að smella á tannhjólið neðst á myndbandinu og velja texta sem við á).

Í framhaldinu má velta fyrir sér hvað gerir borð að borði? Stól að stól?
Það getur verið mikil áskorun og vel þess virði að reyna að skilgreina hversdagslega hluti. Eru hlutir í lífi okkar sem við þekkjum vel en getum samt ekki skilgreint nákvæmlega?
Búið til lista yfir þannig hluti.

Spurning í nesti!

Hefur þú prófað að senda börn og unglinga heim með spurningu í nestið? Hér er að finna upplýsingar á myndbandi um aðferðina Spurning í nesti eða Sticky questions og slatta af spurningum sem hægt er að senda heim í nestið með nemendum t.d. þegar farið er í helgarfrí.