Smásögur

Smásaga eftir Steingrím Krsitinsson

Draumur eða ?

Ég er með króníska ljósmyndadellu, ekkert alvarlegt í mínum huga, en mun betra en tóbaks eða brennivíns neysla. Einnig talsvert ódýrara áhugamál og skilur mikið eftir sig.

Ég hafði lengi haft í huga að fara yfir á hlíðina austan megin við fjörðinn minn, jafnvel eitthvað upp í fjallið andspænis bænum mínum til að taka þaðan ljósmyndir yfir bæinn.

Ég er alls ekki fær til langrar göngu, bæði vegna aldurs, lélegra hnjáliða og gigtar í annarri mjöðminni, ég er þrjóskur að eðlisfæri og ákvað að leggja í hann einn bjartan laugardagsmorgun seinnihluta ágústmánaðar. Ég var kominn talsvert hærra en ég hafði vonað að mér mundi takast, enda fór ég mér hægt og hvíldi mig oft.

Ég hafði fengið mér sæti á litlu grónu afdrepi. Þarna voru meir að segja bláber sem ég nartaði í. Ég tók nokkrar ljósmyndir og var að velta fyrir mér hvort ég ætti að far hærra þegar ég heyrði skruðninga að baki mér. Ofan úr fjallinu komu margir steinhnullungar með miklum látum, ekki stórir steinar en þeir flugu sitt á hvað og ekki auðvelt að átta sig á hvert hver og einn stemmdi.

Einn þeirra lenti á höfði mínu og ég féll aftur fyrir mig. Ég greip um höfuðið þar sem steinninn lenti. Hendi mín varð alblóðug..................... Það var það síðasta sem ég mundi, ég féll í yfirlið.

Ég veit ekki hve lengi ég var þarna uppi í fjallinu, en ég gerði mér þó á einhverjum tímapunkti, grein fyrir því að einhverjir voru að stumra yfir mér, ekki heyrði ég orðaskil en síðan varð allt hljótt og svarta myrkur, engin tilfinning eða vissa um hvar ég var.

Allt í einu skinjaði ég einhverja tilveru, Þetta var ónotaleg tilfinning í fyrstu, mér fannst ég vera í einum hnipri, einhver vökvi umlék mig.

Hvar var ég ?

Augnablik vottaði fyrir örlítilli birtu en aftur varð myrkur. Þrátt fyrir óvissuna þá fór mér að líða vel í þessum hnipri þar sem ég var umleikin volgum vökva. Þetta var ekki slæmt, en hvar var ég ?

Ég hafði sofið, það held ég en hvað lengi vissi ég ekki. Skrítin hljóð bárust mér utan við hið þrönga rúm sem virtist vera þétt utan um mig. Ég vil komast út úr þessu rúmi en hvernig vissi ég ekki. Þá uppgötvaði ég að ég var ekki með neinar hendur. Hvað var þetta sem ég hafði haldið vera handleggi og hendur þar sem ég hafði verið einhvern tíma í hnipri inni í þröngu búri umleikinn einhverjum volgum vökva, sem nú virtist nú horfinn.

Örlítil birtuskíma birtist. Ósjálfrátt slengdi ég höfði mínu á vegginn sem næst var og þá kom glufa á vegginn og mikil birta þar á bak við, ég lokaði augunum og opnaði þau svo aftur og hélt áfram að slá höfðinu í vegginn til að stækka glufuna. Slá höfðinu hugsaði ég, þetta var ekki höfuð mitt sem ég beitti, þetta var fuglsgoggur, fuglsgoggur sem var áfastur höfði mínu. Ég stakk höfðinu út um gatið en forðaði því aftur inn í skyndi. Fyrir utan voru tveir risa stórir fuglar sem fylgdust með mér. Þetta voru örugglega ernir.

Er þetta draumur eða veruleiki ?

Forvitnin varð óttanum yfirsterkari, ég hélt áfram að brjótast út plássi mínu, ég sá til hliðar, að eitthvað var að gerast í stóru eggi og út kom fuglsungi. Ég komst að lokum út úr mínu eggi sem ég var í og þá sá ég fljótt að þetta var ekki ég, heldur arnarungi. Það er að í útliti var ég blautur arnarungi en hugsaði eins og að ég væri maður.

Þetta hlýtur að vera draumur. Ég fann til máttleysis, ég var bjargarlaus. Ég gerði mér ekki grein fyrir næstu augnablikum, sennilega ekki heldur næstu dögum.

Mig rámar þó ógreinilega í að tveir stórir fuglarnir, ernir voru að hlúa að mér og ég kúrði mig undir væng annars þeirra ásamt hinum unganum sem komið hafði úr eggi sínu um sama leiti og ég. Ég varð svangur og annar fuglinn hafði rifið kjöt af dauðum fugli sem hinn fuglinn hafði komið með. Ég var mataður. Ekki fannst mér bragð gottið, en ég var svangur og lét mig hafa það. Ekki veit ég hversu lengi þetta gekk fyrir sig, að sofa undir væng „mömmu“ það hélt ég að minnsta kosti eða að vera mataður með reglulegu millibili.

Ég og „bróðir“ minn uxum skjótt og fórum að ráfa um hreiður og hreiður barmana. Stundum voru bæði „pabbi og mamma“ lengi í burtu en ég held þau hafi haft auga með okkur úr fjarlægð, ég veit það ekki en fann það á mér. Við fórum að geta bjargað okkur sjálfir ég og „bróðir“ minn, þegar komið var með dauðan fugl í hreiðrið eftir að „mamma“ eða pabbinn höfðu tætt hann í sundur.

Ekki gat ég náð sambandi, hvorki við „bróðir“ minn né „foreldrana“ en allt gekk þetta eins og væri fyrirfram ákveðið og öll vissum við hvað ætti að gera, það kom bara eitthvað tíst frá okkur þegar við vorum svangir en aftur á móti einkennileg hljóð frá „foreldrunum“ eins konar Vúíí úíí úíí, pífí og síðan kurr, þegar þau komu með mat og stundum heyrðist dimmraddað klíí, klíí, klíí í fjarlægð frá þeim.

Við ungarnir vorum farin að flögra í kring um hreiðrið og orðnir óragir við umhverfið, en einn daginn urðum við skelfingu lostnir þegar við sáum mink, ekki veit ég hvort „bróðir“ minn hafi vitað um nafngiftina minkur, en hann var greinilega jafnhræddur og ég þar sem við gerðum okkur grein fyrir því að við gátum ekki forðað okkur og að minkurinn var ekki kominn í kurteisisheimsókn. Við vorum í sjálfsheldu og biðum þess að minkurinn réðist á annan hvorn okkar. En skyndilega kom mamma og greip minkinn í klærnar og tætti hann í sundur og við fengum magafylli af að mér fannst þá, gómsætum kvöldverði.

Við bræðurnir vorum orðnir þokkalega fleygir og flugum hring eftir hring umhverfis og yfir hólmann sem hreiðrið okkar var í. Þetta var dásamleg tilfinning að fljúga svona og skoða umhverfið fyrir neðan. Ég hafði verið með gleraugu þegar ég var í mannslíkama eða var þetta ekki ég hvarflaði að mér, en núna var ég sko örugglega með arnasjón, ég sá smáfuglana og jafnvel fiskana í sjónum umhverfis hólamann þrátt fyrir að vera hátt uppi á flugi, að ég giska í 40-50 metra hæð.

Það voru liðnir nokkrir mánuður, ég hafði þroskast mun hraðar en „bróðir“ minn. Ég hafði löngu á undan honum náð í bráð, hettumáf og við rifum hann í okkur í félagi. Þannig gekk þetta fyrir sig og ávalt í fyrstu voru „foreldrar“ okkar, okkur sýnilegir í fjarlægð en svo fór að líða lengra á milli þess sem við sáum þá. Við vorum farnir að geta bjargað okkur án þeirra ströngu leiðsagnar á uppeldistímanum, við vorum okkar eigin „herrar“.

Við höfðum slegist í för með nokkrum ungum fuglum á okkar reiki og svifum um loftin blá og könnuðum umhverfið.

Ég hafði áttað mig á því að við vorum á svæði Breiðafjarðar, ég kannaðist við ýmis kennileiti meðal annars þekkti ég Stykkishólm sem ég hafði séð á einu af háflugi okkar.

Það var komið haust og farið að kólna, veður misjöfn og rigning oftar en um sumarið sem hafði verið milt og hlýtt. Veturinn var harður, sérstaklega ein vikan þar sem bæði snjóaði ásamt miklum vindi og frosti.

Við „bræðurnir“ höfðum kúrt í hraungjá við sjóinn í um þrjá daga í skjóli fyrir norðan garra og mikilli veðurhæð, þegar ég uppgötvaði að „bróðir“ minn var allur.

Hann hafði misst þrótt og var frosinn í hel. Ég fann að ég var einnig mjög kaldur og gerði mér nú grein fyrir því að ég varð að hreyfa mig. Ég flaug úr skjóli mínu en missti flugið fljótt og lenti í fjörunni og var nærri hrifsaður af öldu sem að kom, en gat forðað mér í tíma og flaug til lands á móti nöprum vindi og snjókomu.

Þetta var erfitt en áfram hélt ég fluginu. Ég var orðinn blautur og þungur. Hvað átti ég að gera ? Ég settist á hraunnibbu og hristi vængi mína sem á var kominn klaki, þetta var sárt.

Ég var að gefast upp, en aftur tók ég flugið og flaug í átt til ljósa sem ég sá í fjarska, það var komið rökkur.

Þegar nær kom sá ég að ljósin voru í bænum Stykkishólmi. Eftir stutt flug sem mér fannst vara í óratíma missti ég aftur flugið og lenti illa á steinsteyptum kanti landmegin við höfnina. Ég reyndi að standa á fætur en það tókst ekki, mig verkjaði í annan fótinn.

Ég veit ekki hversu lengi ég var þarna bjargarlaus er ég sá mann koma gangandi í átt frá höfninni. Hann hafði greinilega séð mig og hann hljóp við fót í áttina til mín. Ég ætlaði að flögra í burtu frá honum en hætti við.

Ekki eru allir menn hættulegir fuglum, ef til vill mundi maðurinn hlúa að mér frekar en að vinna mér mein.

Ég var kyrr þar til maðurinn greip utan um mig og tók mig í fangið. Það hvarflaði að mér að gogga í hann, sennilega fugls eðli en ég hugsaði líkt og maður og gerði því ekkert.

Maðurinn fór með mig heim til sín, þar uppgötvaði ég að ég skildi hvert orð sem hann og kona hans töluðu. Þau hringdu í dýralækni sem kom eftir nokkurn tíma.

Í millitíðinni réttu þau að mér kjötbita en ég hafði ekki matarlyst en ég var þó farinn að finna til vellíðan vegna hitans sem var inni í eldhúsinu þeirra, en mér kenndi illa til í fætinum sem reyndist brotinn eftir því sem dýralæknirinn sagði. Sjómaðurinn hét Kári, kona hans Karen og læknirinn Jónas.

Allan tímann var ég rólegur og reyndi ekki að brjótast um eins og þau sögðu aðra fugla gera við svipaðar aðstæður, sögðu þau. Þau komu sér saman um að hringja í Húsdýragarðinn í Reykjavík og spyrja hvort hægt væri að fá húsaskjól fyrir mig á meðan ég væri að jafna mig.

Þar dvaldi ég í góðu yfirlæti í fjórar til fimm vikur og þótti hinn merkasti fugl sem virtist skilja allt sem við hann var sagt og gerði ýmislegt sem hann óbeint var beðinn um að gera.

Um það gat ég meira að segja lesið í Mogganum sem dreift hafði verið í botn búrsins sem ég dvaldi í, stórt búr 4-5 rúmmetrar. En þau sem fylgst höfðu með mér höfðu tekið eftir því að ég gerði þarfir mínar aðeins á einum stað úti í horn búrsins og var mikið talað um sem einstakt atferli fugla. Ég var víst ekki fugl í raun og veru eða hvað, ég gat ekki talað en ég skildi hvað sagt var og reyndi að þóknast velunnurum mínum.

Þegar mér var sleppt var komið glampandi sólskin og norðan garri og kuldi liðin tíð í mínum huga. Ég flaug hátt til lofts án þess að hafa tekið ákvörðun um hvert. Síðar stefndi til norðurs meðfram sjónum í átt til Stykkishólms.

Ég ætlaði að heimsækja sjómanninn og konu hans og sýna þeim þakklæti mitt, einnig ef til vill dýralæknirinn. Það hafði verið fjallað mikið um hinn furulega örn í fjölmiðlum, það hafði ég heyrt í útvarpi og lesið í Mogganum og fleiri blöðum sem sett höfðu verið í búrið mitt góða þegar ég dvaldi í Húsdýragarðinum og var meðal annars hafður þar til sýnis um tíma enda orðinn „heimsfrægur“ á Íslandi.

Ég hafði verið merktur á fótlegg, eins og venja var við aðstæður sem mínar og vissi því að sjómannshjónin og fleiri mundu þekkja mig af merkinu sem var áberandi auk örmerkingar sem í mig var komið.

Eftir smáhvíldir á leiðinn til Stykkishólms kom ég þangað seinnipart dags. Ég sveimaði hátt yfir höfninni og virti fyrir mér lífið þar. Bátarnir voru að koma úr róðri og mikið um að vera. Allt í einu sá ég sjómanninn góða, hann Kára.

Hann var að koma upp á bryggjuna frá bát sínum og greinilega búinn að ganga frá og var á leiðinni heim til sín. Ég renndi mér í skarpri dýfu niður í áttina til hans og settist á fiskikassa rétt fyrir framan hann. Honum brá greinilega við þessa óvæntu komu mína, raunar fleirum sem nærri voru.

Hann horfði um stund á mig og sagði svo hárri röddu sambland af undrun og gleði. Hæ ert þetta þú Rólegur, það nafn hafði mér verið gefið í Húsdýragarðinum. Ég gaggaði eitthvað á móti og vængjaði örlítið. Kári gekk til mín og rétti mér handlegginn sem ég stökk upp á, honum og einnig öllum hinum á bryggjunni sem höfðu fylgst með til undrunar.

Ég var orðinn nokkuð þungur og seig í svo hann færði handlegg sinn nær sér og ég notaði tækifærið og lagði vanga minn augnablik við hans vanga og flaug svo burt frá honum og fylgdist með honum með því að sveima nokkuð hátt yfir höfninni. Hann fékk greinilega yfir sig spurningaflóð þarna á bryggjunni en félagar hans þyrptust umhverfis hann.

En stuttu síðar hélt Kári áfram heimleiðis og er hann kom að dyrunum við heimili hans, flaug ég aftur niður til hans og settist á girðingarstólpa við hús hans og gaggaði, hann leit við og brosti. Hann opnaði dyrnar og kallaði á konu sína sem kom út og sá mig. Kári sagði henni frá viðburðum og þau gengu hægt í átt til mín. Hún rétti mér lófa sinn og ég sýndi henni vinarhót með því að strjúka höfði mínu við lófa hennar. Hún gekk nær og faðmaði mig. Það var ekki laust við að það vottaði fyrir tárum úr augum Karenar.

Fólk og bílar höfðu stoppað á götunni og fylgst undrandi með atburðum. Karen tók viðbragð og spurði hvort ég væri ekki svangur sú spurning frá henni kom greinilega óvænt, því hún horfði til skiptis á mig og bónda sinn og sagði hvernig dettur mér í hug að spyrja svona, hann skilur mig auðvittað ekki. Ég gaggaði lágt og hún horfði fast á mig. Ég hristi höfuðið, reyndi að brosa, ekki veit ég hvernig það tókst. Nema Karen brosti og spurði aftur. Eru ekki svangur. Ég hristi aftur höfuðið, beygði síðan höfuðið niður að bringu og flaug burtu.

Nokkuð er ég viss um að ég hefi tekið stórt pláss í umfjöllun fjölmiðla um kvöldið og daginn eftir þar sem vegfarendur mynduðu og mynduðu af miklum krafti á farsíma sína, á meðan ég dvaldi á girðingarstaurnum framan við hjónin Kara og Karen. Ég flaug hátt til lofts og sveimaði nokkra hringi á meðan ég hugsaði um hvert ég ætti að fara. Mér þótti leitt að hafa ekki hitt dýralæknirinn en það varð að hafa það.

Ég flaug svo síðar til jarðar og hvíldi mig í nokkurn tíma.

Það var svo daginn eftir að ég tók flugið aftur til Reykjavíkur, ég ætlaði að heimsækja fólkið í Húsdýragarðinum. Það gerði ég og settist þar á staur nærri búrinu mínu og lét í mér heyra. Ekki vantaði áhorfendurna né fréttafólk sem komu fljótt á staðinn og mynduðu mig sperrtann ofurfuglinn íbak og fyrir.

Þar á meðal þegar ég settist á staur rétt hjá parinu sem hafði að mestu sinnt mér meðan á dvöl minni stóð í búri mínu. Ég sýndi þeim greinileg vinarhót svo eftir var tekið. Þeir höfðu örugglega frá miklu að segja fréttamenn sem þarna voru þegar þeir komu til fréttamiðla sinna.

Ég hafði fyrir löngu sætt mig við ástand mitt að vera ungur haförn við bestu heilsu með sambland af visku hafarnarins og þeirrar persónu sem ég hafði verið í „lifanda lífi“

Það var nú það. Var ég dauður og endurfæddur í líki arnarins? Aldrei hafði ég trúað slíkri vitleysu áður fyrr en núna. Hverju á ég að trúa ? Þau í Húsdýragarðinum höfðu kallað mig Rólegur. Ekki gat ég sagt þeim að ég héti Steingrímur og væri fæddur fyrir 80 árum á Siglufirði. Eða hvað var ég?

Kannski bara endurfæddur fyrir tæpu ári og einhver brenglun hefði orðið í genaskiptum og mannshugurinn óvart fylgt með ?

Ég hélt í norður til Siglufjarðar, ég varð að minnsta kosti að kanna hvað hefði orði um mig. Lét ég lífið þarna upp í fjallinu þegar steinninn hentist í höfuð mitt ? Ég mundi vel eftir skriðunni.

Flugið norður var erfiðara en ég átti von á, ég var ekki kominn með fullan þroska í vængvöðva mína og þol, auk þess var nokkuð snarpur vindur á móti. En á leiðarenda kom ég seinnipart dags. Ekki var ég viss um hvaða mánuður var. Tímaskin virðist ekki vera alveg í lagi. Það var blankalogn eins og svo oft á Sigló.

Ég sveimaði hátt yfir firðinum og skimaði yfir gamlar og vel þekktar slóðir. Ekki veit ég hvort einhver hefur séð til mín svona hátt uppi eða áttað sig á að þar væri haförn á ferð.

Mér var hugsað til þess hvað það væri gott að hafa myndavél til að mynda bæinn minn frá áður ómögulegum sjónarhornum, en engin myndavél né varla möguleiki á því að smella af myndum þó myndavélin mín væri nærri.

Ég fann til svengdar og ákvað að leita eftir bráð, ég sá að mikið var um fugla. Þarna var tjaldapar, þá er öruggt að kominn er aprílmánaðar. Tjaldinn legg ég mér ekki til munns og ekki æðarfuglinn, þarna er hettumáfur, þeir koma til Siglufjarðar venjulega um miðjan aprílmánuð. Það er best ég kræki mér í einn hettumáf.

Ég flaug með bráðina upp á þak flugskýlisis við flugvöllinn og byrjaði að gæða mér á krásinni. Allt í einu hrökk ég við er steinn kom rétt hjá mér, sem greinilega hafði verið kastað í átt til mín. Ég flaug burt í skyndi og hugaði að hvaðan þessi steinn hefði komið, ég sá tvo menn, ungan mann og fullorðinn. Sennilega hefur yngri maðurinn kastað steinunum án þess að sá eldri gæti stoppað hann, það skipti ekki máli ég var ekki sáttur við svona ég hélt að fuglar væru ekki óvinir Siglfirðinga og síst átti ég von á að ég haförninn friðaður fugl sætti þar áreitni.

Ég þekkti þann eldri hann heitir Óli.. Ég hafði skilið bráðina eftir á þakinu en flaug upp og til vesturs úr augsýn mannanna tveggja sem greinilega voru að vinna þarna inni í húsi við hlið flugskýlisins. Ég færði mig nokkru síðar nær án þess að gera mér grein fyrir hvers vegna, til að vita hvort til mannanna sæist, ég sá þá utan við dyr hússins þar sem þeir voru að setja eitthvað dót á kerru.

Allt í einu kom upp í huga minn gamalt hrekkjalómseðli mitt. Ég renndi mér hratt niður að stráknum og læsti klónum í húfu hans, ég held mér hafi tekist að gera það án þess að meiða hann. Ég flaug með húfuna hans nokkurn spöl burtu til austurs og settist þar, ég snéri húfunni við og skeit inn í hana og velti húfunni síðan við þannig að vegsummerkin sáust ekki og flaug burtu, ekki síst vegna þess að báðir mennirnir komu í átt til mín. Ég fylgdist með úr fjarlægð þegar strákurinn skellti húfu sinni á koll sinn en tók hana snöggt af sér aftur, sennilega bölvandi !

Þegar þeir félagar höfðu farið af vettvangi á bílnum þeirra með kerruna aftan í bílnum þá hélt ég áfram þar sem frá var horfið með bráðina mína en lofaði sjálfum mér að huga betur að nærveru manna í framtíðinni.

Nokkuð var ég viss um að Óli og félagi hans, hefðu látið vita af hinni sjaldgæfu sjón, af haferni á Siglufirði sem þeir höfðu orði vitni að, því að um morguninn sá ég til mannaferða víða umhverfis flugskýlið og flugbrautina. Þar þekkti ég vini mína fyrrverandi Svein Þorsteinsson, Sigurð Ægisson, Hreiðar Jóhannsson og Örlyg Kristfinnsson og nokkra fleiri sem ég annað hvort þekkti ekki eða óþarfi að nefna. Ég var aftur á móti á sama stað og ég hafði sofið nokkuð langt uppi í hlíð Hólshyrnunnar, þar sáu þeir mig ekki sem von var.

Ég tók flugið og stefndi í átt til þeirra. Þeir urðu fljótir að sjá mig og munduðu myndavélunum sínum og smelltu af eins og þeir ættu um lífið að leysa. Það var þá sem ég fór aftur að sakna þess að vera ekki sjálfur með myndavél svo ég gæti smellt nokkrum myndum af þeim. Ég settist á jörðina í um 10 metrum frá þeim og virti þá fyrir mér um stund og áfram smelltu þeir og smellu vélum sínum. Þeir færðu sig nær og nær upp á von og óvon um að ég væri kyrr svo ná mætti virkilega góðum nærmyndum.

Þegar þeir áttu eftir um fimm metra ákvað ég að hrekkja þá örlítið samhliða að gefa þeim óvenjulegt tækifæri til góðrar myndatöku. Ég flaug skyndilega hratt í átt til þeirra með miklum vængjaþyt, nánast alveg að þeim. Þeim varð verulega brugðið, sennilega haldið að ég væri að ráðast á þá. Þeir hörfuðu aftur á bak, en sumir þeirra Sveinn og Sigurður, héldu þó áfram að mynda.

Ég var smá stund kyrr á sama stað í loftinu, það er staðsetningin var rétt um þrjá metra yfir jörðinni en færðist ekki úr stað og bærði vængina svo ég héldist á lofti.

Ég öfundaði þá, þarna náðu þeir einstökum myndum vænti ég, en ég sjálfur ljósmyndarinn myndavéla laus. Eftir um eina mínútu flaug ég burtu frá þeim félögum, langt upp í loft á leið til Hólshyrnutopps þar sem ég lenti. Þetta var alveg nóg í bili hugsaði ég.

Um klukkustund síðar fór ég á veiðar og náði mér í einn hettumáf og tætti í mig. Enginn sá til mín held ég.

Daginn eftir ákvað ég að fljúga til Dvalarheimilisins Skálarhlíð þar sem ég og kona mín höfðu dvalið, í von um að kona mín væri þar enn og sæi mig.
Ég settist á svalabríkina framan við svaladyrnar á íbúð okkar, og beið. Síðan færði ég mig í nánd við svefnherbergið og rýndi inn um gluggann.

Engin hreyfing þar heldur. Hvað ætli klukkan sé hugsaði ég. Ef til vill er hún í morgunmat í salnum ásamt hinu vistfólkinu.
Þangað flaug ég og settist á svalabríkina þar fram undan glugganum þar sem hún, Berta og Sveinn ásamt Hjalla voru vön að borða.
Þarna voru þau öll.........nema ég. Það varð uppi fótur og fit í borðsalnum og allir þustu að gluggunum og Sveinn opnaði varlega svaladyrnar og gægðist út.

Undrunarsvipurinn var ósvikinn hjá öllum sem á horfðu þennan furðufugl sem horfði stíft inn um gluggann á konuna sem heitir Guðný Ósk Friðriksdóttir.

Sveinn sté út og tók síma sinn upp og tók myndir af furðufuglinum, sem flestir Íslendingar þekktu undir nafninu Rólegur.

Sveinn gekk nær og fleiri komu út, þar með kona mín ! – það er Guðný Ósk.
Ég hreyfði mig ekki að öðru leiti en því að ég fylgdi hreyfingum Guðnýjar vel eftir svo aðrir tóku eftir.

Guðný gekk alveg að mér og strauk vanga minn stroku sem ég tók á móti með því að halla höfði mínu að lófa hennar.

Ætli hún hafi skynjað eitthvað annað en ungan örn sem þarna tók við vinarstroku hennar ?

Ég færðist undan tilraunum annarra sem ætluðu að klappa mér en horfði stíft á Guðný. Eftir nokkrar mínútur flaug ég burt til fjalla.

Ég var alls ekki viss um hvað ég átti að halda um mig og allt þetta ferli mitt.
Er svona algegnt að menn fæðist í annað sinn og þá í líki einhvers fugls eða annarrar lifandi tilveru ?
Var þetta eitthvað einstakt tilfelli hvað mig snerti og svo vissi ég ekki enn um það hvort grjótið sem ég fékk í höfuðið í hlíðinni undir Skollaskál hefði valdið mér dauða.

Ég verð að reyna að komast að því en hvernig það vissi ég ekki. Eftir að hafa hugsað lengi um þetta allt saman komst ég að þeirri niðurstöðu að það var að sennilega um ár frá því að steinninn úr fjallshlíðinni hafði rotað mig.

Ef ég hefði látist af hans völdum, þá væri fyrir löngu búið að grafa mig og flestum gleymdur.

Ég dvaldi nokkra daga uppi á Hólshyrnu úr augsýn manna, skrapp aðeins á næturnar til að ná mér í einn og einn hettumáf.

Ég var að velta fyrir mér að yfirgefa svæðið og halda á „hafarna slóðir“ við Breiðafjörðinn, þegar ég heyrði óma af bjölluhljóm kirkjunnar á Siglufirði. Þetta var jarðafararhringing. Hvern ætli sé nú verið að jarða, einhver sem ég þekkti ?

Ég tók ósjálfrátt kipp og hóf mig til flugs í átt til kirkjunnar. Ég sveimaði hátt yfir kirkjunni og leit niður. Þarna þekkti ég marga og hrökk í kút er ég sá nokkur barnabarna minna koma úr tveim bifreið sem stöðvað höfðu á stæði við kirkjuna. Þá fannst mér undarleg tilfinning streyma um mig allan, mér leið ylla og flaug til baka í átt Hólshyrnunnar. Þar lenti ég hátt uppi, ég fann til máttleysis og svo varð allt svart.

Ég veit ekki hve lengi ég hafði verið án meðvitundar, en þegar ég vaknaði þá var svarta myrkur umhverfis mig.
Eitthvað var þetta skrítið, daufur hljómur tónlistar bar fyrir eyru mín.
Ég ætlaði að reisa mig upp en rak þá höfuðið í eitthvað mjúkt fyrir ofan mig.
Ég þreifaði í myrkrinu til að átta mig á því hvað hefði valdið því.

Það sem var fyrir ofan mig var eins og mjúkt silki, mér brá illilega og þreifaði í kring um mig. Þetta getur ekki verið satt, mig er að dreyma hugsaði ég en var orðinn nokkuð viss um að ég var ofan í lokaðri líkkistu.

Ég var ekki lengur haförn, heldur ég sjálfur í eigin persónu með hendur og fætur, hendur sem ég hafði notað til að þreifa umhverfis mig í myrkrinu. Ég þrýsti báðum höndum upp í lokið en fann að ég var þreklaus og skorti þrótt til að brjóta upp lokið.
Ég öskraði í von um að einhver heyrði í mér en án árangurs, sennilega vegna hljómlistarinnar sem ég heyrði daufan óma frá.

Ég tók að hreifa mig frá vinstri til hægri á víxl með því takamarkaða þreki sem ég hafði.
Það dugði og kistan skall með látum á gólfið og samtímis þagnaði hljómslistin og ýmsar upphrópanir sem ég vil ekki hafa eftir, bárust mér nú til eyrna, lok kistunnar hafði skollið af og ég oltið fram á gólfið.

Ég reis upp með erfiðismunum upp á hné, og það fyrsta sem ég sá var „frosið“ andlit Sigga prests vinar míns. Hann áttaði sig þó fljótt og stökk yfir altarisgirðinguna og kom hlaupandi í áttina til mín, meira mundi ég ekki, ég missti meðvitund.

Það þarf ekki að haf mörg orð um eftirmálann en ég var í skyndi fluttur í líkbílnum (án kistunnar) á sjúkrahúsið þar sem lífi var komið í mig á ný.

Síðar fékk ég að vita að fyrir tilviljun þá hefðu tveir útlendingar fundið mig í fjallinu þar sem ég hafði orði fyrir skriðu eins og ég sagði frá í upphafi sögu minnar. Þeir hringdu í 112 og ég fluttur á sjúkrahúsið, síðan með sjúkrabíl til Akureyrar þar sem ég lá í marga mánuð í dái tengdur öndunarvél og einhverju fleiru og var að lokum ekki hugað líf.

Kona mín Guðný hafði þvertekið fyrir það að ég yrði tekinn úr sambandi, þar til læknar höfðu endalega úrskurðað að ég væri dauður.
Jarðarförin undirbúin, en þeirri jarðarför lauk aldrei.

Þegar ég fór að braggast og fá matarlyst, þá sagði ég frá draumum mínum um haförninn.
Kona mín, dóttir og þrjú stálpuð barnabörn hlustuðu á mig og urðu eitt spurningamerki og litu á hvert annað en sögðu ekkert.

Ég hélt áfram með sögu mína, þar til dóttir Margrét greip fram í og hélt áfram með frásögnina.

Ég hlustaði um stund og spurði svo hvernig hún vissi þetta svona í smáatriðum.

Ég hafði verið að segja frá heimsókn minni framan við gluggana í matsal Skálarhlíðar þegar mamma hennar klappaði á vanga minn.
Hún sagði einfaldlega að mamma hennar hefði sagt henni þetta svo og sagði hún frá atvikinu þegar ég sem örn birtist Sigga Ægis, Sveini og fleirum frammi á flugvelli og lék listir fyrir ljósmyndarana.

Það kom í ljós að nánast allt sem hafði skeð hvað mig varðar í líki hafarnar í nánd við mannfólkið, ásamt tuga ljósmynda hafði komið í fjölmiðlum fyrir alþjóð.

Frásögn af „upprisu“ minni í kirkjunni hafði þotið um alla fjölmiðla, meir að segja marga erlenda einnig.

En sagan af mér í líkama hafarnarins, meðal annars upplýsingar um örflöguna sem fannst í öxl minni, örflöguna sem sett hafði verið mig í húsdýragarðinum í Reykjavík, fara væntanlega ekki á kreik fyrr en eftir að þessi mín skrif koma fyrir almennings sjónir.

Ef til vill hefði ég átt að skrifa þessa sögu nákvæmar, en ég læt þetta nægja.

Smásaga eftir Steingrím Kristinsson