Söfn fyrir alla

Einstaklingsmiðaðar safnaheimsóknir

Vöntun er á safnfræðslu hér á landi fyrir hópa með sérþarfir, eins og einhverfu, ADHD eða skildar raskanir, fyrir heyrnarlausa, blinda og svo mætti lengi telja. Lítið eða ekkert er hugað að þörfum slíkra hópa á söfnum, þrátt fyrir að lög segi til um að söfnum beri að miðla fræðslu til allra.

Þessi vefsíða er hugsuð sem hvatning fyrir söfn að huga að þessum málum og uppfylla þar með skyldur sínar betur en nú er. Sem dæmi þurfa söfn að huga að því betur hvernig einhverfir þurfa sérsniðið efni fyrir sig, vinna í litlum hópum og hvernig einstaklingmiðuð safnfræðsla getur átt sér stað, svo dæmi sé tekið. Einhverfir safngestir þurfa einnig að hafa reglulegar pásur og eiga möguleika á hvíld, fyrirsjáanleiki heimsókna þeirra þarf einnig að vera til staðar, en ekkert í slíkum heimsóknum má koma slíkum gestum á óvart.

Önnur dæmi má taka eins og af heyrnarlausum, en þeir hópar þurfa túlk. Þeir einstaklingar sem eru blindir þurfa meiri birtu í sýningarrýmum en vanalegt er og þar með breytta nálgun eða framsetningu á sýningum. Möguleiki á að snerta safngripi getur einnig komið til móts við blinda og sjónskerta með áhrifameiri hætti en annað. Snerting og að þreyfa á munum í sýningarrými gæti einnig henta mörgum fjölfötluðum einstaklingum.

Vefsíðan er þrískipt, en auk forsíðu er í flipum hér að ofan að finna Leiðbeiningar og Ítarefni. Í Leiðbeiningum er farið í gegnum nokkur atriði sem eru gagnleg fyrir kennara í skólum og aðila á söfnum sem sinna safnfræðslu til undirbúnings. Að auki er þar að finna tengingar við félagasamtök sem gott væri að eiga samtal og/eða samvinnu við þegar kemur að skipulagningu heimsókna á söfn.

Í Ítarefni eru svo tilvísanir í gagnlegt efni til að auka skilning á mikilvægi aðgengis allra að starfi safna.

Hér á eftir eru dæmi úr gögnum sem sýna fram á skyldur menntakerfisins til að huga að þessum málum – og er hér birt sem brýning fyrir breytingum frá því ástandi sem nú ríkir.

Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni [fatlaðs fólks], 1) og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

Sjá heimild

Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.

Sjá heimild


Einstaklingsmiðuð safnfræðsla fyrir mismunandi þarfir nemenda í grunn- og menntaskóla.

"Fræðslustefna sé hluti af heildarstefnu safns og yfirlýsing um hana felist í leiðarljósi þess. • Fræðslustefna safns skal vera opinber og kynnt á viðeigandi hátt. Starfsmönnum safns skal vera fræðslustefnan ljós. • Fræðslustefna feli í sér leiðir til að virkja gesti og hvetja þá til þátttöku.Fræðslustefna undirstriki mikilvægi samstarfs við skólakerfi. Námskrá / aðalnámskrá sé lögð til grundvallar fyrir móttöku skólahópa af öllum skólastigum. Söfn starfi með hagsmunahópum sem búa yfir þekkingu á þörfum hópa með sérstakar þarfir svo sem Öryrkjabandalaginu, Alþjóðahúsi og samtökum aldraðra." Þessir punktar koma frá skýrslu um fræðslu safna og hvert þeirra hlutverk er.

Sjá heimild...


Kynning

Þessi vettvangur er búinn til af Aðalheiði Mörtu Steindórsdóttur, safnafræðingur frá Háskóla Íslands. Ég er einnig menntuð í þjóðfræði og starfa sem kennari. Ég er búsett í Reykjavík, er gift og á tvö börn og er annað barnið mitt á einhverfurófi og með athyglisbrest (ADD). Ég hef því tekið eftir hvað hann á erfitt með að fylgja fræðslu í hóp. Hann þarf einstaklingskennslu, kennslu í litlum hópi, eða styttri fræðslulotu en almennt gerist og pásur á milli.

Eftir að hafa tekið þátt í safnfræðslu með skólahópum, bæði með safnkennurum og sem kennari sem fer með hóp á safn hef ég tekið eftir mikilli vöntun á fræðslu fyrir einstaklinga sem eiga erfitt með að fylgja almennri skólafræðslu á safni. Safnaheimsóknin er ætið skemmtileg viðbót við nám í skóla og eru nemendur oft mjög spenntir að fara í slíkar heimsóknir. Þessar safnaheimsóknir hafa vakið áhuga minn á fræðslu á söfnum, en þó að mikið sé um fjölbreytta og blómleg fræðsla á söfnum landsins fyrir alla aldurshópa hefur mér fundist eitthvað vanta fyrir þá einstaklinga sem eru með fötlun eða skerðingar. Því hef ég skoðað og athugað hvers konar fræðsla væri best fyrir hópa sem þurfa á einstaklingsmiðaðri fræðslu að halda á söfnum.

Á uppvaxtarárum mínum var ég mikið í tengslum við heyrnarlausa einstaklinga þar sem systir mín var heyrnarskert og þekki því þeirra samfélag nokkuð vel. Ég hef einnig unnið mikið með fötluðum einstaklingum í gegnum tíðina og hef ég því sett mig mikið inn í mál þeirra. Þar hef ég fundið fyrir vöntun á safnafræðslu fyrir þessa hópa og af þeim sökum hafa þeir ekki sótt eins mikið söfn og aðrir. Er það von mín að þessi vettvangur verði hvatning fyrir íslensk söfn að mæta þörfum þessara hópa í meira mæli en nú er.